Föstudagur 8. október 2004

282. tbl. 8. árg.

Stjórnarandstaðan kynnti þá merkilegu hagspeki á dögunum að ómögulegt sé að lækka tekjuskatt einstaklinga því skatturinn lækki lítið á þá einstaklinga sem greiða engan eða lítinn tekjuskatt. Stjórnarandstaðan er því andvíg fyrirhugaðri lækkun tekjuskatti einstaklinga úr 38,5 í 37,5% um áramótin. Þessi lækkun er þó með þeim fyrirvara að R-listinn hækki ekki útsvarið á móti eins og hann hefur gert stundum áður. Stjórnarandstaðan verður væntanlega einnig á móti því að skatturinn lækki í áföngum í 34,5% á kjörtímabilinu. Þessi rök stjórnarandstöðunnar gegn skattalækkunum eru raunar ekki þau einu því hún telur nú sem fyrr að ekki sé „rétti tíminn“ til lækka skattana. Altæka skattakenning hennar gerir nefnilega ráð fyrir að ekki megi lækka skatta í góðæri því þá aukist þenslan, ekki í hallæri því þá sé tekjuhlið ríkissjóðs ógnað og alls ekki í jafnvægi því þá þá raskist það. Það eru því aldrei „réttu aðstæðurnar“ til skattalækkana að mati stjórnarandstöðunnar.

Þessi sama stjórnarandstaða, sérstaklega þingmenn Samfylkingarinnar, hefur stundum gert svonefnd jaðaráhrif í skattakerfinu að umtalsefni. En með miklum jaðaráhrifum er átt við að hver viðbótarkróna sem menn vinna sér inn skili litlu í vasann því tekjuskattshlutfallið sé hátt og að auki minnka vaxtabætur, barnabætur og afborganir námslána hækka þegar tekjur aukast. Þegar upp er staðið á maður, sem leggur meira á sig í vinnu til að geta farið í utanlandsferð fyrir fjölskylduna, varla fyrir bleyjupakka vegna þessara jaðaráhrifa.

Vísasta leiðin til að draga úr þessum jaðaráhrifum – og draga þar með úr þeim refsingum sem liggja við því að vinna – er að lækka tekjuskattshlutfallið.

En græða hátekjumenn ekki mest á lækkun á tekjuskattshlutfallinu? Er ekki verið að „færa“ ríka liðinu mest með þessari breytingu? Jú ef menn líta þannig á málin að hið opinbera eigi allar tekjur manna í landinu og „færi“ mönnum góðfúslega hluta þeirra til baka. Þá má auðvitað segja að ríkið sé „færa“ manni með 500 þúsund á mánuði fleiri krónur en manni með 100 þúsund krónur á mánuði með því að lækka tekjuskattshlutfallið. Vefþjóðviljinn vill þó þrátt fyrir allt leyfa sér að líta þannig á að menn eigi þær tekjur sem þeir afla en ríki og sveitarfélög taki hluta þeirra með valdi; skattheimtu.

Mánaðarlaun Tekjuskattur Hlutfall launa í skatt
     100.000           7.998     8,0%
     150.000          25.744     17,2%
     500.000        149.972     30,0%
  1.000.000        327.440     32,7%

Eins og sjá má í töflunni hér að ofan þá greiðir maður með 500 þúsund krónur í mánaðarlaun átjánfaldan skatt þess sem er með 100 þúsund á mánuði þótt laun hans séu aðeins fimmfalt hærri í krónum talið. Maður með 1 milljón á mánuði greiðir nær þrettánfaldan skatt þess sem hefur 150 þúsund krónur á mánuði þótt laun hans séu aðeins ríflega sexfalt hærri. Því hærri tekjur sem menn hafa því hærra hlutfall launa sinna greiða menn í skatta. Það mun ekki breytast á meðan persónuafsláttur er til staðar. Og jafnvel þótt persónuafsláttur væri afnuminn og tekinn upp flatur skattur myndu hærri tekjur þýða fleiri krónur í skatt. Til að mynda mætti hugsa sér að flatur skattur yrði 15%. Þá liti taflan svona út:

Mánaðarlaun Tekjuskattur Hlutfall launa í skatt
     100.000          15.000     15,0%
     150.000          22.500     15,0%
     500.000          75.000     15,0%
  1.000.000        150.000     15,0%

Þá myndu tífalt hærri laun þýða tífalt hærri skatt en ekki átjánfaldan eins og dæmi eru um í dag. En því miður er ekkert útlit fyrir að þessi leið verði farin á næstunni.