ÍDV í gær er haft eftir Stefáni Má Stefánssyni, lagaprófessor og dómaraembættisumsækjanda, að endurskoða þurfi þau lagaákvæði sem gilda um val dómara í Hæstarétt. „Það þarf ekki að gera það í einum hvelli en það sem er brýnast er að líta til löggjafar nágrannaríkjanna og finna út hvernig þau haga þessum málum“, segir Stefán Már. Vissulega ekkert athugavert við það að athuga hvernig nágrannarnir hafa það. Frá því Geir H. Haarde tilkynnti ákvörðun sína um skipan nýs dómara hefur það líka verið vinsælt viðkvæði í opinberri umræðu að það sé óþekkt og hneykslanlegt að ráðherrar séu ráðandi um skipan dómara. Ýmsir lögfræðingar, sumir sem stundum þykja ákaflega hæfir, hafa af tilfinningahita talað á þann veg.
Þetta er svona álíka rétt og margt annað sem fullyrt er opinberlega. Ef Stefán Már vill skoða hvernig nágrannaríkin fara að, þá gæti hann til dæmis hafið athuganir sínar í Svíþjóð. Þar eru dómaraembætti ekki einu sinni auglýst. Stjórnvöld tilkynna einfaldlega að nú hafi þessi eða hinn, Kalle Anka eða einhver, verið skipaður dómari. Oft kynna þau hæstaréttardómurum málið áður og fá sjónarmið þeirra um hæfi mannsins, en engin skylda er til þess. Svíar hafa meira að segja skipað dómsmálaráðherrann sjálfan í Hæstarétt án þess einu sinni að spyrja dómara réttarins álits.
Já en sænsku reglurnar eru nú ekki til fyrirmyndar, segir þá einhver. Nei gott og vel, allt í lagi að vera á móti sænsku reglunum. En Vefþjóðviljinn var ekki að benda á þær sem einhverja fyrirmynd, heldur aðeins að vekja athygli á því að það er verið að halda látlausum fjarstæðum að fólki í opinberri umræðu. Þeir sem undanfarið hafa hneykslast með stóryrðum, að sjálfsögðu fullir af tómri réttlætiskennd en ekki persónulegum metnaði, þeir fara einfaldlega með rangt mál um erlendar reglur. En Íslendingar þurfa vitaskuld ekki að taka sænsku reglurnar upp hjá sér. Enda er engin skylda að nota sömu reglur og nágrannarnir.
Annað sem fullyrt er af og til, er það að ráðherra beri að fara að áliti umsagnaraðilans, dómaranna sem fyrir eru. Sú kenning er alröng og stenst engan veginn. Löggjafinn hefur sérstaklega ákveðið annað fyrirkomulag, og það er ekkert út í bláinn eða vegna „glufu í lögum“ eða nokkurs slíks. Meira að segja umboðsmaður alþingis benti á það í fyrra að umsagnaraðilinn, dómararnir, verði að „gæta þess að ganga ekki með umsögn sinni inn á verksvið veitingarvaldshafans.“. Umboðsmaður er vissulega fjarri því að vera alvitur og álit hans eru aðeins álit þessa tiltekna lögfræðings, svo þessi athugasemd hans sannar auðvitað ekki neitt út af fyrir sig. En hún mætti verða þeim aðdáendum hans umhugsunarefni sem hrópa það nú að það verði einfaldlega að fara eftir umsögn dómaranna. Annað sé hrein svívirða sem tíðkist í „bananalýðveldum“ .