Lögfræðingur einn sótti um embætti hæstaréttardómara nú á dögunum. Hann hefur um sína daga ekki aðeins sinnt lögfræði heldur einnig komið nálægt fleiri hlutum, stjórnmálum þar á meðal. Hann hefur verið kjörinn varaborgarfulltrúi flokks síns í Reykjavík, verið formaður landssamtaka ungs fólks í stjórnmálaflokki sínum, verið pólitískur aðstoðarmaður tveggja formanna þessa sama flokks og löngum verið forystumönnum hans til lögfræðilegrar ráðgjafar. Eflaust hafa einhverjir talið að slík pólitísk tengsl umsækjandans mæltu gegn því að hann hlyti skipun dómara að þessu sinni, en Vefþjóðviljinn er ekki þeirrar skoðunar. Þessi umsækjandi er, eins og flestir lesendur vita, Eiríkur Tómasson, lagaprófessor. Vefþjóðviljinn telur, ólíkt þeim sem segja að nýr dómari megi ekki hafa tekið þátt í stjórnmálabaráttu, að ekkert þessara atriða hefði átt að leiða til þess að Eiríkur kæmi ekki til greina í dómarasæti.
En þó Eiríkur hafi allra umsækjenda mest komið nálægt stjórnmálum, eftir áratuga öflugt og farsælt starf í Framsóknarflokknum, þá hefur undanfarið mátt skilja dægurumræðuna svo, að allt annar umsækjandi væri stjórnmálaáhugamaðurinn í hópnum, en aðrir umsækjendur væru fræðimenn sem hefðu hvorki meiri þekkingu né áhuga á stjórnmálum en Vefþjóðviljinn á íshokkí. Sumir hafa meira að segja látið eins og það væri allt að því lögbrot að leiða hugann að því að skipa Jón Steinar Gunnlaugsson hæstaréttarlögmann og prófessor í dómaraembætti – því hann væri slíkur stjórnmálagarpur. Margir sömu manna hafa fylgt þeirri skoðun eftir með þeirri að Eiríkur Tómasson væri upplagður kostur í réttinn, og virðast alfarið horfa fram hjá stjórnmálatengslum hans.
Vefþjóðviljinn telur ekkert við það að athuga að dómarar, hvort sem er í héraðsdómi, félagsdómi eða Hæstarétti, hafi, áður en þeir settust í dómarasæti, lýst skoðunum sínum á einstökum þjóðmálum. Krafan sem gera skal til dómara er sú, að þeir dæmi eftir sinni bestu vitund, meti málavexti í ljósi þeirra réttarheimilda sem í gildi hafa verið þegar atvik málsins urðu, en horfi fram hjá persónulegum skoðunum sínum á því hvernig þeir myndu sjálfir hafa reglurnar ef þeir réðu. Ef dómarar vinna svo, þá skiptir engu hvaða skoðanir þeir persónulega kunna að aðhyllast eða hafa sett fram í ræðu og riti. Ef dómari áttar sig á því, að hans hlutverk er ekki að setja lög heldur dæma eftir þeim lögum sem alþingi hefur sett, þá skipta persónulegar skoðanir hans á þjóðmálum ekki máli. Jón Steinar Gunnlaugsson, sem nú hefur verið skipaður til setu í Hæstarétti, hefur flestum lögfræðingum einarðlegar lagt áherslu á það, að dómstólar setja ekki lög.
Það er einmitt rík ástæða til að ætla að Jón Steinar muni í störfum sínum í Hæstarétti vinna eftir því sem hann telur réttasta lögfræði. Sömu skoðun hafa og lýst ýmsir þeir sem eru á öndverðum meiði við hann í stjórnmálum, og má þar vekja sérstaka athygli á grein Jóns Baldvins Hannibalssonar, fyrrverandi formanns Alþýðuflokksins, um Jón Steinar í Morgunblaðinu á dögunum. „Ég er sannfærður um“, skrifar Jón Baldvin Hannibalsson, „að Jóni Steinari Gunnlaugssyni megi treysta til að hefja sig yfir pólitíska hlutdrægni, setjist hann í dómarasæti. Og að það sé ósanngjarnt að leggja honum til lasts, að hann hefur haft kjark til að taka afstöðu til mála fyrir opnum tjöldum samkvæmt sannfæringu sinni. Hvernig væri komið fyrir lýðræðinu og réttarríkinu, ef hinir bestu menn þyrðu ekki – hvort heldur er af hyggindum eða hugleysi – að taka afstöðu til mála og fylgja fram sannfæringu sinni?“ Jón Baldvin Hannibalsson vex af því að viðurkenna ótvíræða kosti Jóns Steinars sem lögfræðings, ólíkt ýmsum flokksfélögum sínum sem reyna að ná pólitískum stundarávinningi með því að hnýta í Jón Steinar eða Geir H. Haarde sem skipaði hann í embætti. – Jón Steinar Gunnlaugsson hefur árum saman talað gegn þeirri skoðun að það sé meðal annars hlutverk dómstóla að setja lög í landinu. Hann er flestum mönnum ólíklegri til að dæma eftir öðru en því sem hann telur gildandi rétt í landinu.