F járlagafrumvarpið sem fjármálaráðherra kynnti á Alþingi í fyrradag ber með sér ánægjuleg tíðindi fyrir landsmenn. Þessi ánægjulegu tíðindi eru áform ríkisstjórnarinnar um skattalækkanir, en með fjárlagafrumvarpinu voru kynnt áform um að lækka tekjuskattshlutfallið um 4% á næstu þremur árum og lækkar það þannig úr 25,75% í 21,75% á kjörtímabilinu. Þar af mun hlutfallið lækka í 24,75% á næsta ári. Fyrir þá sem greiða svokallaðan sérstakan tekjuskatt, sem í daglegu tali nefnist hátekjuskattur þótt hann leggist ekki á sérlega háar tekjur, bætist við 2% skattalækkun á næsta ári því að þá verður hátekjuskatturinn lækkaður um helming og hann verður felldur alfarið brott árið 2006. Til viðbótar þessari lækkun tekjuskattsins er ætlunin að afnema eignarskatt einstaklinga árið 2007, en hann var á síðasta kjörtímabili lækkaður um helming í 0,6%.
„Þetta er spurning um það grundvallar-viðhorf hvort að umsvif hins opinbera eigi að vera sem minnst eða sem mest og þar með hvort að svigrúm almennings eiga að vera sem mest eða sem minnst.“ |
Launamenn og aðrir skattgreiðendur eiga því von á að fá í framtíðinni að greiða lægri skatta en verið hefur síðustu árin og eins og áður segir eru það ánægjuleg tíðindi. Margs konar hættur leynast þó enn fyrir skattgreiðendur og er ein helsta hættan sú að sveitarfélögin noti tækifærið og hækki útsvar sitt og éti þannig upp hluta þeirrar lækkunar sem ríkið boðar nú með þeim afleiðingum að staðgreiðslan, sem er tekjuskattur ríkisins að viðbættu útsvari sveitarfélaganna, muni lækka minna en ella. Ein af röksemdunum sem nú blasir við að kynni að verða notuð er sú að hækka þurfi laun grunnskólakennara og breytir þá engu þótt þegar hafi verið samið um flutning tekjustofna frá ríki til sveitarfélaga vegna flutnings grunnskólans. Engu mun heldur breyta þegar fylgjendur skattahækkunar láta í sér heyra, að laun ríkisstarfsmanna hafi einnig hækkað og að þrátt fyrir þá launahækkun lækki ríkið skatta. Hættan á hækkuðu útsvari er ekki umtalsverð í öllum sveitarfélögum en í Reykjavík, svo dæmi sé tekið, er hættan mikil. Reykvíkingar hafa áður mátt þola það að R-listinn hafi tekið til sín skattalækkun ríkisins og því miður verður að teljast líklegt að R-listinn muni nota tækifærið og stela einnig skattalækkuninni nú. Skattalækkunin er að vísu meiri en svo að vinstri menn í borgarstjórn geti náð henni allri til sín, en þeir munu líklega stelast í þann hluta hennar sem þeir geta lögum samkvæmt.
Önnur hætta fyrir skattgreiðendur er vitaskuld að áform ríkisstjórnarinnar nái ekki fram að ganga. Þar er ekki aðeins átt við að forseti lýðveldisins kynni að taka sér það bessaleyfi að synja fjárlögunum staðfestingar – sem þó mætti séð af sjónarhóli fyrrverandi formanns Alþýðubandalagsins sennilega færa sterkari rök fyrir en að synja fjölmiðlalögunum staðfestingar í sumar – heldur frekar að öðrum andstæðingum skattalækkana takist að koma í veg fyrir að þær verði að veruleika. Sá kór er þegar farinn að kyrja og sér alla meinbugi á því að lækka skatta. Að vísu eru fáir sem beinlínis segjast í prinsipinu vera mótfallnir lækkun skatta, en ýmsir eru ævinlega mótfallnir allri lækkun skatta þegar þeir standa frammi fyrir henni. Þá eru ýmis gömul rök dregin fram til stuðnings því að nú megi ekki lækka skatta því að aðstæður nú leyfi það ekki. Þessir menn segjast yfirleitt vera hlynntir því almennt séð að skattar verði lækkaðir, en bara ekki nú heldur síðar, þegar aðstæður verði betri.
Andstæðingar skattalækkana munu halda því fram að skatta megi ekki fyrir nokkra muni lækka þegar von sé á uppsveiflu í efnahagslífinu því að þá muni þeir auka þenslu og valda óstöðugleika. Þessir menn munu hafa uppi stór orð um að þetta sé heimskuleg hagstjórn. Þó eru þetta sömu menn og hafa reynt að standa gegn því að skattar væru lækkaðir þegar illa áraði og hafa þá fært þau rök gegn lækkun skatta að ekki væri svigrúm til þess því að ríkið þyrfti á fjármununum að halda. Og sumir þessara manna hafa jafnvel sjálfir setið við stjórnvölinn eða stutt ríkisstjórn sem hefur með misheppnuðum árangri reynt að stoppa upp í göt ríkissjóðs með skattahækkunum þegar illa hefur árað. Þetta hafa þeir gert vegna þess að í raun eru þeir alltaf fylgjandi skattahækkunum þótt fæstir þeirra séu svo heiðarlegir að viðurkenna það.
Til viðbótar því að andstæðingar lægri skatta vilji lækka þá á einhverjum öðrum tíma en þegar til stendur að lækka þá, munu þeir einnig telja að betra sé að lækka þá með einhverjum öðrum hætti en fyrirhugað er. Þeir munu halda því fram að ekki megi lækka skatthlutfallið í tekjuskattinum því að það komi jafnt niður fyrir alla. Eða þeir munu jafnvel halda því fram, séu þeir nægilega ósvífnir, að það komi ekki jafnt út fyrir alla. Þess í stað munu slíkir menn telja að hækka eigi persónuafsláttinn, þó að vitað sé að hærri persónuafsláttur með hærra skatthlutfalli sé óhagkvæmari og meira vinnuletjandi en sú leið sem ætlunin er að fara og einnig að með lægra skatthlutfalli hækki skattleysismörkin. Þá munu þessir menn einnig lýsa þeirri skoðun sinni að réttara hefði verið að lækka skatta ekki og nota skatttekjurnar í eitthvert af óendanlega mörgum verkefnum sem þeir koma ævinlega auga á að hægt væri að verja meira skattfé til.
Þegar öllu er á botninn hvolft er viðhorfið til lækkunar skatta nú eins og endranær aðeins háð því hvort að menn eru almennt fylgjandi því að hið opinbera, ríki og sveitarfélög, taki til sín sem stærstan eða sem minnstan hluta af tekjum og öðrum eignum almennings. Þetta er spurning um það grundvallarviðhorf hvort að umsvif hins opinbera eigi að vera sem minnst eða sem mest og þar með hvort að svigrúm almennings eiga að vera sem mest eða sem minnst. Þeir sem telja að umsvif hins opinbera eigi að vera eins mikil og mögulegt er, þeir munu leggjast gegn skattalækkunum ríkisstjórnarinnar. Hinir, sem telja að einstaklingarnir eigi að fá að njóta sín eins og frekast er unnt, þeir munu styðja fyrirhugaðar skattalækkanir.