Það veitist ekki öllum auðvelt að sjá mun á stefnumálum forsetaframbjóðendanna George W. Bush og John Kerry. Þeim mun örðugra er þetta þegar Kerry er ekki beinlínis með sömu stefnu frá degi til dags. Þannig er til dæmis ekki mjög mikið upp úr því að hafa að lesa ræður þeirra félaga af landsþingum flokka sinna. Sem von er þegar svo skammt er til kosninga og ekki má koma styggð að kjósendum.
Flest heitustu málin að margra mati, ekki síst þeirra sem horfa á málin utan frá, dauðarefsingar, réttindi samkynhneigðra, fóstureyðingar og byssueign, eru lítið sem ekki nefnd í þessum ræðum. Enda breytir það sennilega litlu um þessi mál hvor verður forseti. Þótt forseti Bandaríkjanna sé talinn valdamesti maður í heimi er það ekki vegna þess að hann sé einvaldur í eigin landi heldur vegna þess að Bandaríkin bera höfuð og herðar yfir önnur ríki. Eitt mál má þó segja að skeri sig nokkuð úr en það er afstaða frambjóðendanna til skattamála en báðir eyddu nokkrum orðum í þau í ræðum sínum.
Bush hefur lækkað skatta á kjörtímabili sínu en ekki staðið að meiri háttar kerfisbreytingum. Hann virðist hins vegar hafa hug á því ef marka má ræðu hans á flokksþingi Repúblíkana á dögunum.
Núverandi skattkerfi er dragbítur á aukna hagsæld. Kerfið er flókin óreiða, fullt af undanþágum fyrir sérhagsmunahópa. Almenningur eyðir yfir sexþúsund milljónum klukkustunda í skriffinnsku vegna þess og fær að auki hausverk af öllu saman. Fólk á skilið einfaldara, sanngjarnara og hagfelldara kerfi. Það er nauðsynlegt fyrir efnahagslega framtíð okkar. Á næsta kjörtímabili mun ég leiða flokkana saman í tilraun til að endurbæta og einfalda skattkerfið. |
Síðar í ræðu sinni gagnrýndi Bush andstæðing sinn fyrir að vera á andsnúinn því að lækka tekjuskatt allra skattgreiðenda og bætti við að hann hefði tillögur um aukin útgjöld í pokahorninu.
Til að gæta sanngirni þá er rétt að geta þess að andstæðingur minn er ekki á móti í öllum málum. Hann hefur lagt til aukin útgjöld upp á tvöþúsund milljarða dollara og það er mjög mikið, jafnvel fyrir öldungadeildarþingmann frá Massachusetts. Til að standa undir þessum útgjöldum hefur hann lagt fram stefnuskrá um hærri skatta og slík loforð standa stjórnmálamenn jafnan við. |
Bush virðist því almennt fylgjandi lægri sköttum og færri undanþágum. Hann virðist tilbúinn til að halda áfram með skattalækkanir sem koma öllum skattgreiðendum til góða, ekki aðeins útvöldum hópum. Og gagnrýni hans á skattastefnu Kerrys virðist ekki úr lausu lofti gripin af mark er takandi á því sem Kerry sagði í sinni flokksþingsræðu.
Ég skal segja ykkur hvað við munum ekki gera: Við munum ekki hækka skatta á miðstéttina. Við höfum verið ranglega sökuð um ýmislegt á síðustu mánuðum. Ég vil því taka af allan vafa um hvað ég mun gera sem forseti. Ég mun lækka skatta á smáfyrirtæki. Ég mun afnema skattalækkun á ríkustu einstaklingana sem þéna yfir 200 þúsund dali á ári. Peningana munum við nota í heilsugæslu, skólana og atvinnusköpun. |
Þessi stefna Kerrys í skattamálum er alveg ofboðslega lituð af lýðskrumi og tilraun til að slá sig til riddara með því að hossa smáfyrirtækjum og veitast að ríka liðinu. Hún er líka furðulega óskýr. Ætli enginn tekjuhæstu einstaklinganna sem Kerry vill hækka skatta á eigi smáfyrirtæki sem Kerry vill lækka skattana á? Það eru án efa margir eigendur smáfyrirtækja sem hafa yfir eina milljón íslenskra króna í tekjur á mánuði. Svona leikfimi með skattkerfi er það sem gerir þau flókin og óréttlát. Það er afleitt að stunda þjóðfélagsverkfræði með skattkerfið sem helsta verkfærið.
Það er einnig fremur kúnstugt að Kerry vilji skattleggja hátekjumenn til að krækja í peninga svo ríkið geti stundað atvinnusköpun. Auðmenn eru einmitt þeir sem helst hafa fé afgangs til fjárfestinga í atvinnulífinu. Þeir hafa efni á að taka áhættu sem hinir tekjulægri geta ekki leyft sér. Að vilja skattleggja auðmenn í nafni atvinnusköpunar er því hrein þversögn.
Það er auðvitað ekkert nýtt að stjórnmálamenn gerist sekir um lýðskrum af því tagi sem einkennir skattastefnu forsetaefnis bandarískra Demókrata. Austurríski hagfræðingurinn Ludwig von Mises hafði til dæmis áhyggjur af þessu fyrir tæpri hálfri öld í grein í tímaritinu The Freeman.
Að mati lýðskrumara er ójöfn tekjuskipting verri en orð fá lýst. Réttlætið felst að þeirra mati í algjörlega jafnri tekjuskiptingu. Þess vegna þykir þeim eðlilegt að gera eignir hinna efnameiri upptækar og færa þeim sem eiga minna. Þeir sem boða þessa stefnu taka ekkert tillit til þess að hún kunni að leiða til þess að samanlagður auður manna minnki. Jafnvel þótt svo væri ekki þá ýkja menn það hve mikið má bæta hag þeirra sem minnst hafa með þessari aðferð. Neysla ríka fólksins er aðeins brot af heildarneyslunni. Ríka fólkið eyðir hlutfallslega minna af tekjum sínum en aðrir. Stærri hluti tekna þeirra fer í sparnað eða fjárfestingar. Þess vegna er þetta fólk ríkt. Ef þessi sparnaður, sem ríka fólkið notar til að fjárfesta í nýjum atvinnutækifærum, er tekinn og notaður í útgjöld hins opinbera hægir á hagvexti. Þannig hægir á efnahagslegum framförum, tækniframförum og lífskjör batna hægar en ella. |
… |
Við skulum ekki stinga höfðinu í sandinn. Sú skattastefna sem menn hafa fylgt að undanförnu stefnir að algjörri jöfnun á auði og tekjum og þar af leiðandi til sósíalisma. Við snúum þessari þróun ekki við nema viðurkenna að hagnaður, tap og tekjumunur sem af því hlýst gegna mikilvægu hlutverki í markaðshagkerfinu. Við verðum að átta okkur á því að velmegun einstakra framleiðenda er afleiðing af því að hagur okkar sjálfra hefur batnað. Við verðum að viðurkenna að það er ekki slæmt þótt stórfyrirtæki spretti upp heldur sé það eðlileg afleiðing af því að við njótum þess sem nefnt hefur verið „American way of life“. |