Mánudagur 20. september 2004

264. tbl. 8. árg.
Já, fröken Grossvogel, góða komið þér inn.
Nei, þér gerið ekki ónæði. Eg var bara að hvíla
mig. Hvað var nú aftur erindið þetta sinn?
Jú, athugasemdirnar við þessa heimastíla.
Sko, sjáið þér til, það á ekki við alla jafnt
að amstra við lærdóm og skriftir. Og þessi glíma
var stundum erfiðust ýmsum sem eg hef haft
með allra mestri gleði í kennslutíma.
Svo þér megið ekki örvænta, góða, þó
það sé óhugsanlegt að svona ritgerðir losi
einkunn sem komi yður í gegnum próf:
yðar gáfur felast í dýrlegu brosi.
– Jóhann S. Hannesson, Viðtalstími

Í dag fara þeir í verkfall, allir þeir grunnskólakennarar sem vilja fara í verkfall og allir þeir grunnskólakennarar sem ekki vilja fara í verkfall. Foreldrar nemenda þeirra verða þar með að finna börnum sínum annan geymslustað en opinbera skóla og munu margir hafa töluverð óþægindi af, þó krakkarnir – „fórnarlömbin“ – verði sjálfsagt margir hinir ánægðastir með að vera komnir í nýtt sumarfrí. Ýmsir munu auðvitað tala eins og börnin í grunnskólanum verði fyrir miklu áfalli með verkfallinu, fái „ekki þá kennslu sem þau eiga rétt á“, og „nám þeirra verður í uppnámi“, en slíkar áhyggjur eru að mestu óþarfar, að minnsta kosti fyrst í stað, og það óháð því hvort gáfur barnanna felast fremur í dýrlegu brosi eða öðru. Verkfall grunnskólakennara er afleitt fyrir þá foreldra sem þurfa að koma börnum sínum í gæslu á daginn, en gerir öðrum lítið til.

Verkfallið er sveitarfélögunum svo auðvitað hagstætt að því leyti að þau þurfa ekki að greiða kennurum laun á meðan og geta þannig sparað stórfé. Auðvitað er hugsanlegt að sveitarfélögin láti knýja sig til að borga það allt til baka, kannski til þess að „vinna upp áhrif verkfallsins“, en þau geta að minnsta kosti reynt að komast hjá því. En þetta eru helstu áhrif verkfallsins. Slæmt fyrir foreldra og verkfallssjóð. Afbragð fyrir sveitarsjóði. Vafalaust vel þegið frí hjá mörgum nemendum og kennurum þeirra. Ef verkfallið stendur ekki von úr viti, þá hefur það engin áhrif á nám barnanna. Það er að segja, engin varanleg áhrif. Ekki fremur en nokkru skiptir fyrir einstakan nemanda þó hann leggist í óvenju svæsna pest sem valdi því að hann kemst ekki í skólann í tvær til þrjár vikur. Það dettur engum í hug að segja að nám hans sé í uppnámi eða réttindi hans brotin. Það skiptir skólagöngu hans engu máli þó hann liggi í bælinu í hálfan mánuð á meðan bekkjarfélagarnir eru að lita eða eitthvað.

Á dögunum var sagt frá því að nokkur fyrirtæki hugleiddu að sjá starfsmönnum sínum fyrir barnagæslu á meðan á verkfallinu stendur. Forystumenn kennara töldu þar með verið að ganga í störf verkfallsmanna – svona eins og nokkuð væri að því, ef út í það er farið – og lýstu því þá í raun yfir að kennarar væru ekki síður almennt í hlutverki geymslumanna en kennara. Æsingur kennaraforystunnar við þessum hugmyndum fyrirtækjanna er auðvitað dæmi um ofsann á þessum bæ og sennilega verða verkfallsverðir á fleygiferð í dag að reyna líka að koma í veg fyrir að góðhjartaðar ömmur fái börn í heimsókn í dag. Fyrir utan það hvað þessi ofsi er einkennilegur, hversu furðulegt það er að telja sig eiga heimtingu á því að enginn gæti þeirra barna sem ekki fara í skóla vegna kjarabaráttu kennara sinna, þá er nú vafasamt hversu skynsamlegt það er af kennurum að lýsa því yfir að sitt hlutverk sé í raun að geyma börn fyrir fólk. Að sá sem einungis gætir barns en kennir því ekkert sérstakt, að hann sé að ganga í störf verkfallsmanna.

Þetta minnir á það barnageymsluhlutverk sem skattgreiðendur hafa verið settir í af vaxandi þunga undanfarin ár. Foreldrar hafa fengið að geyma börn sín á kostnað annarra skattgreiðenda vinnudaginn út og inn. Hugtök eins og „samfelldur skóladagur“ og „einsetinn skóli“ eru meðul sem hafa verið notuð í þessum tilgangi. Verkfall grunnskólakennara ætti að vera herhvöt til fólks að snúa af þeirri braut. Eitt er að telja að hið opinbera eigi að hlutast til um að hverju barni bjóðist tiltekin lágmarksmenntun. Annað er að skattgreiðendur geymi börn fyrir foreldra, þann tíma dagsins sem foreldrarnir vilja ekki hugsa um þau sjálfir. Það er engin ástæða til að börn séu geymd í opinberum skólum marga tíma á dag. Það á skilyrðislaust að snúa þegar af þeirri stefnu að „einsetja skólana“, enda hefðu ístöðulausir stjórnmálamenn aldrei nokkurn tíma átt að ljá máls á slíkri frekjuhugmynd. Börn eiga almennt að vera á ábyrgð foreldra sinna en ekki skattgreiðenda. Í þeim tilfellum að foreldrar geta hvorki gætt barnanna né komið þeim í aðra gæslu, þá geta yfirvöld auðvitað skoðað hvort veita eigi tiltekna aðstoð til þess, en það á ekki að vera svo almenn regla að skattgreiðendur reki barnageymslu eða að það sé – eins og nú er lenska – kallað mannréttindabrot ef einhvers staðar verður barn að bíða í tvær til þrjár vikur eftir að komast í heilsdagsgæslu hjá hinu opinbera.