Laugardagur 18. september 2004

262. tbl. 8. árg.

Þ

Enn á ný berast samkeppnisstofnun áskoranir um að refsa mönnum fyrir frjálsa samkeppni og þarf þó stofnunin engrar hvatningar við.

essa dagana má ekki opna blað eða fyrir útvarp án þess að þar sé einhver banki að bjóða mönnum lán fyrir járnbentri steinsteypu á lægri vöxtum en sést hafa hér um árabil. Er það ekki dæmigert að þegar þessi keppni fjármálastofnana í Íslandi um að lána mönnum til húsnæðiskaupa er í algleymingi þá er það klagað til þar til bærrar eftirlitsstofnunar? Og hverjar skyldu klöguskjóðurnar vera? Hverjum dettur í hug að klaga þessa hörðu samkeppni sem neytendur taka með kostum og kynjum til ríkisins? Nei, ekki leiðarahöfundi Morgunblaðsins þótt hann komi auðvitað fyrst í hugann. Nú auðvitað sambandi alþýðunnar og samtökum neytenda. Alþýðusamband Íslands og Neytendasamtökin hafa klagað bankana fyrir keppnina. Já og hver skyldi taka vel á móti klögumálum gegn svo líflegri samkeppni? Nú auðvitað gamla verðlagsstofnun, samkeppnisstofnun ríkisins.

Það atriði sem samtökin hafa klagað er að einhverjir bankar bjóða mönnum að eiga kost á að greiða lánið upp hvenær sem er á landstímanum gegn 2% gjaldi. Þetta er auðvitað bara eitt af þeim atriðum sem lántakendur og bankarnir semja um og það liggur í hlutarins eðli að bankarnir geta boðið þeim best kjör sem binda sig í lengstan tíma og þeir eiga ekki á hættu að missa úr viðskiptum hvenær sem er. Því virðist ekki nema sanngjarnt að sett sé upp þóknun fyrir að binda enda á viðskipti sem til stóð að stæðu í 40 ár en lýkur eftir 5 ár að ósk lántakandans.

Neytendasamtökin og Alþýðusambandið hafa hins vegar ákveðið að við þetta samningsfrelsi megi neytendur og bankarnir ekki búa. Samtökin hafa því fundið óskýrt lagaákvæði sem hugsanlega takmarkar frelsi manna til að semja um kjör á lánum af þessu tagi. Það er hryggjarstykkið í klögumáli þeirra gegn frjálsri samkeppni.