Það er síðan útfærsluatriði hvort ríkið tekur þátt í þeim kostnaði, en ekki má gleyma því að á endanum ber almenningur kostnaðinn, hvort sem það verður í hlutverki neytanda eða skattgreiðanda |
Morgunblaðið, leiðari, 30. júlí 2004. |
Þ að er alltaf gott þegar menn átta sig á því að óskir þeirra eða kröfur kosta peninga. Og enn betra er þegar þeir skilja að þessir peningar koma aldrei af himnum ofan. Fyrir þetta má hrósa leiðara Morgunblaðsins í gær þar sem fjallað var um farsímasamband í dreifðum byggðum landsins og það öryggi sem í því fælist að hafa símasamband sem víðast. Verra er að í leiðaranum virðist vera hvatning til stjórnvalda að tryggja meiri útbreiðslu farsímanetsins en orðið er, en útfærsluatriði sé hvort ríkið láti skattgreiðendur greiða fyrir aukna útbreiðslu eða hvort notendur farsímanna verði látnir gera það í gegnum hærri símgjöld sem óneitanlega hlytu að fylgja dýrara og verr nýttu dreifikerfi.
Ef fallist væri á það, rökræðunnar vegna, að eitt af hlutverkum ríkisins ætti að vera að tryggja meiri útbreiðslu farsímakerfis vegna þess öryggis sem því geti fylgt, hvers vegna skyldi ríkið láta staðar numið þar? Hvers vegna skyldi ríkið ekki gera sambærilega kröfur á hendur fleiri fyrirtækjum? Þeir sem ekið hafa um hálendi Íslands vita að þar geta ferðalangar þurft að aka langar vegalengdir án þess að koma að bensín- eða díseldælu, enda hafa eldsneytissalar landsins ekki séð sér hag í að koma upp slíkum búnaði um allt hálendi líkt og þeir hafa gert í byggðum landsins. Þetta hefur í för með sér að menn stingja gjarnan aukabrúsa af eldsneyti í skottið á jeppanum, sem er heldur illa séð og getur valdið hættu. En það sem verra er, þá getur þetta orðið til þess að menn verði eldsneytislausir í óbyggðum, jafnvel í afleitu veðri, og þá er voðinn vís. Ef ríkið grípur inn í og tekur ákvörðun um þéttara farsímanet í öryggisskyni, hvers vegna skyldi það þá ekki líka ákveða að tryggja þéttara net bensínstöðva? Er nokkur ástæða til annars en skylda olíufélögin til að halda úti nokkrum bensínstöðvum á hálendi Íslands í öryggisskyni, svona að minnsta kosti yfir háannatímann? Þetta er jú öryggisatriði og öryggið verður aldrei of dýru verði keypt, eða hvað?
Já, eða hvað, eru ef til vill einhver takmörk fyrir því hvað eðlilegt er að greiða fyrir aukið öryggi? Já, vitaskuld eru einhver takmörk, enda er auðvelt að sjá að ella væri unnt að eyða öllum fjármunum landsmanna í að tryggja öryggi á ýmsum sviðum án þess þó að öryggið yrði nokkru sinni tryggt. Öryggi ferðalanga í dreifðari byggðum landsins hefur aukist mikið á undanförnum árum með farsímasambandi víða um land, en vissulega eru blettir víða þar sem ekki næst samband. Smám saman verður farsímanetið þéttara og bætt tækni mun hjálpa til í þessu efni. Það sem mun ekki hjálpa til er ef ríkið fer að skylda símafyrirtækin til að þétta dreifikerfið eða ef ríkið fer sjálft að greiða fyrir þéttara dreifikerfi. Það gleymist nefnilega í þessu sambandi að ef ríkið ákveður að þétta farsímanetið er það um leið að taka ákvörðun um að minnka fjármuni til annarra verkefna. Þessi verkefni velur almenningur sjálfur í dag vegna þess að þannig telur hann hag sínum best borgið. Neikvæðu afleiðingarnar af of dýru farsímaneti kæmu aldrei í ljós, því að þær væru ekki mælanlegar. En þær væru engu að síður raunverulegar. Afleiðingarnar gætu til að mynda verið að vegna dýrari símgjalda ækju einhverjir um á verr útbúnum bílum, frestuðu kaupum á reykskynjurum á heimili sitt eða nytu lífsins bara aðeins verr en áður. Og allt það sem fólk yrði að hætta að njóta vegna þéttara farsímakerfis er nokkuð sem það metur í dag meira en þéttara farsímakerfi. Meginniðurstaðan verður þess vegna alltaf sú, að þegar ríkið ákveður að tryggja meira öryggi á einu tilteknu sviði en almenningur er reiðubúinn að greiða fyrir án ríkisafskipta, þá dregur það meira úr lífsgæðum almennings á öðrum sviðum en svo að það geti réttlætt ríkisafskiptin. Almenningur verður þá verr settur eftir en áður.