V
Er holdafar landsmanna meira vandamál en spikið sem hleðst utan á ríkið vegna hárra skatta? |
efþjóðviljinn hefur stundum nefnt það í hálfkæringi að fái „manneldissjónarmið“ að grassera áfram við lagasetningu verði þess stutt að bíða að algengar matvörur verði ýmist bannaðar eða skattlagðar út af borðum landsmanna í þeim tilgangi sporna gegn offitu. Þá verði settir innflutningskvótar á hægindastóla og sjónvarpssófa til að koma í veg fyrir kyrrsetur. Ástæðan er sú að sömu rök og notuð hafa verið til að leggja sérstaka skatta á áfengi og tóbak. Sömu rök eru notuð til að banna mönnum að reykja í eigin húsum. Sömu rök eru notuð til að banna mönnum að tala um tóbak, nema illa. En slíkar hugmyndir um algengar matvörur eru ekki broslegar lengur. Vefþjóðviljinn hélt reyndar lengi að það yrði feitmeti sem fyrst fengi að kenna á slíkri skattlagningu. Manneldisiðnaðurinn hefur ekki haft lítið á móti fitu undanfarna áratugi. En nú er víst í tísku að leggja fæð á kolvetnaríka fæðu.
Ný ríkisstofnun hefur því gert það að fyrstu tillögu sinni að sykur verði skattlagður og skatturinn renni til stofnunarinnar sjálfrar! Stofnunin, sem kennd er við heilsu lýðsins og á væntanlega að veita honum góð ráð um mat og drykk, mun þannig hafa fjárhagslega hagsmuni af því að sykurríkur matur sé skattalagður. Þegar hatrið á kolvetnum gengur yfir og prótein eða vatn verða tekin fyrir er hætt við að Lýðheilsustöð verði orðin það háð tekjum af sykurskattinum að hún geti ekki hætt að mæla gegn honum.
Þessi nýja ríkisstofnun er dæmi um það hve mikilvægt það er að lækka skatta án frekari tafar svo eyðsluklær á Alþingi hafi eitthvað aðhald. Þetta er ósköp einfalt. Á meðan menn minnka ekki skammtinn þá heldur ríkið áfram að þenjast út?