Fimmtudagur 15. júlí 2004

197. tbl. 8. árg.

Það er töluvert til í sumu af því sem klifað hefur verið á í sambandi við meðferð svokallaðs fjölmiðlamáls. Við meðferð þess hefur komið fram óvenjuleg óbilgirni, ósáttvísi og væntanlega mikill flokksagi. Þetta hefur hins vegar einkennt framgöngu stjórnarandstöðunnar en – svo merkilegt sem það er, miðað við þá mynd sem reynt hefur verið að draga upp af málinu – ekki stjórnvalda. Þetta blasir við þegar skoðaður er gangur málsins, frá maíbyrjun og fram á þennan dag, og blasir eins við hvort sem menn deila þeirri „frumskógarlögmáls“-stefnu Vefþjóðviljans að í landinu eigi engin samkeppnislög að gilda og þar með hvorki Samkeppnisstofnun né fjölmiðlalög, eða ekki. En þó þetta blasi við, þá er eins og fjölmiðlamenn loki augunum skipulega fyrir þessari staðreynd. En hvað á Vefþjóðviljinn við – blað sem vill engar samkeppnisreglur – þegar það segir að stjórnarandstaðan hafi komið fram af óvenjulegri óbilgirni en ríkisstjórnin ekki?

Það er svo merkilegt, miðað við allt talið um „óbilgirni“, „einþykkni“ og „heift“, að það sé „vaðið áfram“, og „ekki hlustað á nein rök“, þá gerðu stjórnvöld nokkrum sinnum verulegar breytingar á frumvarpi sínu til „fjölmiðlalaga“, og voru þær breytingar greinilega gerðar til að koma til móts við þá gagnrýni sem stjórnarandstaðan og ýmsir aðrir höfðu í frammi. Auðvitað nægja þær ekki fyrir aðila eins og Vefþjóðviljann, sem vill engin samkeppnislög, en miðað við málflutning stjórnarandstöðunnar fyrir breytingar þá hefðu þær átt að hafa töluvert að segja. En hvað sem gert var, þá gerðist ætíð það sama. Fyrst komu fulltrúar tiltekinnar fjölmiðlasamsteypu fram og sögðu „þetta breytir engu“ og því næst komu forystumenn stjórnarandstöðunnar fram og sögðu „þetta breytir engu“. Og andstaðan breyttist ekkert.

Lítum aðeins á það sem haft var á móti fjölmiðlafrumvarpinu, þegar það var lagt fram.

Ég tel að það gangi mjög langt að segja að fyrirtæki í markaðsráðandi stöðu á einhverju sviði viðskipta megi ekki eiga eina einustu krónu í fjölmiðlafyrirtæki, í ljósvakamiðli. Það er stór spurning hvort menn eiga að fara þá leið að segja bara núll prósent. Því kann að vera ansi erfitt að koma fyrir vegna þess hversu samsett fyrirtæki eru í stórum stíl í landinu. Markaðsráðandi fyrirtæki lenda oft í því, eðli málsins samkvæmt, gegnum dótturfyrirtæki og víðtækt net að eiga í aðilum hér og þar. Þetta verður nú talsverður handleggur að fara yfir. Þarna er spurning um hvort setja mætti þak sem miðaðist við tiltölulega lága prósentu, hvort það væri ekki sanngjarnara og raunhæfara. Hið sama gildir um að fyrirtæki eða fyrirtækjasamsteypa sem tengist starfsemi á sviði ljósvakamiðla megi ekki eiga eina einustu krónu í útgefanda dagblaðs. Er ástæða til þess að ganga svo langt, jafnvel með fullri virðingu fyrir því sem var alveg gilt sjónarmið að skoða, að halda dreifðri eignaraðild? Hvað með að nota þar ákvæði laga um fjármálastofnanir, að þar séu mörkin dregin við virkan eignarhlut? Það mætti þess vegna nota sömu skilgreiningu og þar er, með leyfi forseta, það er að „með virkum eignarhlut er átt við beina eða óbeina hlutdeild sem nemur 10% eða meira af eigin fé eða atkvæðisrétti eða aðra hlutdeild sem gerir kleift að hafa veruleg áhrif á stjórnun viðkomandi“ fyrirtæki. Með öðrum orðum, mætti ljósvakafyrirtæki aldrei hafa veruleg áhrif á stjórnun hins fyrirtækisins, enda undir 10% þaki.

Svo talaði Steingrímur J. Sigfússon, formaður VG, á alþingi Íslendinga hinn 3. maí 2004. Eins og „fjölmiðlafrumvarpið“ var þá úr garði gert þá var ekki gert ráð fyrir að svokölluð markaðsráðandi fyrirtæki mættu eiga nokkurn skapaðan hlut í útvarps- eða sjónvarpsstöð. Steingrímur gagnrýndi þetta og taldi að það ætti að leyfa nokkurn hlut, sem þó yrði undir 10 %. Eins og menn vita þá gerðu stjórnvöld í framhaldinu þá breytingu að leyfa slíkum fyrirtækjum að eignast hlut í ljósvakamiðlum og er nú miðað við 10 % hlut.

Og Steingrímur J. Sigfússon hafði aðra efnislega athugasemd:

Að síðustu vil ég segja, herra forseti, um gildistökuákvæði frumvarpsins, að þau tel ég alls ekki ganga eins og þau eru úr garði gerð. Mér finnst lágmark að þegar útgefin útvarpsleyfi haldi gildi sínu og lagaskilin séu með þeim hætti að menn hafi hið minnsta tveggja til þriggja ára aðlögunartíma óháð þeim leyfum sem þeir hafa í höndunum en til viðbótar gildi öll þegar útgefin útvarpsleyfi þar til þau renna úr gildi og þarf að endurnýja þau, þá á grundvelli hinna nýju reglna. Mér finnst til dæmis fáránlegt ef höggvið verður eitt ár aftan af útgefnu leyfi næststærstu sjónvarpsstöðvarinnar í landinu, eins og frumvarpið gerir ráð fyrir. Stöð 2 hefur samkvæmt fylgiskjölum í frumvarpinu útvarpsleyfi fram í ágúst á árinu 2007 og mundi þar af leiðandi missa eitt ár aftan af þegar útgefnu leyfi. Auk þess ímynda ég mér, hvað sanngirni varðar og málsástæður fyrir dómstólum ef á slíkt mundi reyna, að hyggilegra væri að fara þá leið sem ég tala hér fyrir.

Og hvað gerðu stjórnvöld, þessi „óbilgjörnu“, þessi sem „böðlast áfram“? Jú, frumvarpinu var breytt þannig að enginn er sviptur leyfi sínu, þau renna öll út á þeim tíma sem þau hefðu gert að óbreyttum lögum. Og Steingrímur J. Sigfússon, þessi málefnalegi, hvernig brást hann við? Jú, það hafði „ekkert breyst“.

Annar þingmaður hafði sínar athugasemdir við frumvarpið. Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, hafði þetta fram að færa:

Það hlýtur líka að verða að spyrja þeirrar spurningar hvort uppsetningin á 1. grein, einkanlega a-liðnum, teljist eðlileg eins og hún er sett fram. Að fyrirtæki, þó þau eigi markaðsráðandi stöðu í einhverri starfsemi hér á landi, megi ekki eiga nokkurn hlut í fjölmiðlum. Einnig er áleitin spurning hvort tvö ár séu eðlilegur aðlögunartími í því sambandi þegar ætlast er til þess að fyrirtæki sem nú eiga í frjálsri fjölmiðlun hér á landi fari algjörlega út úr þeirri starfsemi. Ég tel að slík umgjörð í lagasetningu sé ekki ásættanleg og ekki eðlileg framsetning á málinu. Ef niðurstaða manna við yfirferð og skoðun á málinu verður sú að nauðsynlegt sé að breyta eignarhaldinu verulega frá því sem nú er tel ég að í fyrsta lagi þurfi lengri aðlögunartíma og í öðru lagi sé órökrétt að banna fyrirtækjum, þó stór séu og markaðsráðandi, að eiga aðild í útvarps- og sjónvarpsrekstri. Mér finnst að skoða þurfi vandlega hvaða reglur menn ætla að setja í því sambandi og ítreka að eins og frumvarpið er fram sett tel ég það óásættanlegt og of harkalega að verki staðið og hef að mínu mati ekki fengið sannfærandi rök fyrir því að markaðsráðandi fyrirtæki megi ekki með neinum hætti eiga í útvarpsrekstri.

Hér er sama sagan. Formaður Frjálslynda flokksins gerir sömu athugasemd og formaður Vinstrigrænna. Markaðsráðandi fyrirtæki svokölluð máttu ekkert eiga og lögin áttu að taka gildi of fljótt. En þegar stjórnvöld breyttu hvoru tveggja í samræmi við málflutning flokksformannanna beggja, þá hafði það hins vegar ekkert að segja. Það hafði „ekkert breyst“, þó fallist hefði verið á efnisleg andmæli flokkanna. Vefþjóðviljinn var sammála flokksformönnunum tveimur um þessi atriði, en ólíkt þeim þá viðurkennir blaðið fúslega að stjórnvöld komu til móts við þessa gagnrýni að fullu og engin ástæða til að gera lítið úr því. Þó þessar breytingar nægi auðvitað ekki til þess að Vefþjóðviljinn, blað sem vill engar samkeppnisreglur, taki að styðja frumvarpið, þá er með ólíkindum að þær hafi ekki haft áhrif á þessa flokka tvo, flokka sem allt þar til nýlega hafa látið eins og þeir séu sérstakir baráttumenn gegn „hringamyndun“ og „samþjöppun“.

Guðjón A. Kristjánsson hafði fleira að segja:

Ég tel að tíminn verði í fyrsta lagi að vera lengri og í öðru lagi tel ég óeðlilegt að mönnum sé algjörlega ýtt út úr atvinnurekstrinum. Varðandi útfærslu á þessum atriðum væri spurning hvort trappa mætti þetta niður og á lengri tíma. Ég teldi miklu ásættanlegra að stór og öflug fyrirtæki mættu eiga allt að 30% í útvarpsfyrirtæki og að hámarkseignaraðild hvers fyrirtækis væri 15% eða 10%.

Hér var gerð sú breyting að hámarkseignarhlutur í ljósvakafyrirtæki var færður í 35 % og hámarkseignarhlutur svokallaðra markaðsráðandi fyrirtækja er nú á leið í 10 %. Og enn þykir stjórnarandstöðunni ekkert hafa breyst. Stjórnarandstaðan og þeir fjölmiðlar sem hafa verið í að minnsta kosti óformlegu bandalagi með henni, hafa undanfarnar vikur spunnið sama stefið, sem Guðjón A. Kristjánsson orðaði einna skýrast á alþingi hinn 3. maí:

Það er eins og háttvirtir stjórnarliðar hafi ekkert með neina sátt að gera og vilji enga sátt í málinu. Það á bara að keyra áfram á þeirri merinni sem sett var undir þetta mál. Það er nákvæmlega þannig. Afstaða okkar er skýr að þessu leyti.

Og eftir að Guðjón A. Kristjánsson, málefnalegur þjóðmálaleiðtogi, mælti þessi orð þá gerðist það að háttvirtir stjórnarliðar breyttu frumvarpi sínu til móts við málflutning Guðjóns, en honum þótti ekkert hafa breyst og var alltaf jafn harður og stóryrtur. Eins og aðrir í stjórnarandstöðunni. Og sami söngur er sunginn um allt. Stjórnvöld eru „óbilgjörn“. Þau „þjösnast áfram“. Þau „vilja engar sættir“.

En hvar eru svokallaðir fréttamenn landsins? Af hverju hefur þeim á tveimur og hálfum mánuði aldrei dottið í hug að spyrja: Hvað er stjórnarandstaðan tilbúin að gera til að ná sáttum?

Það er þetta sem er óhugnanlegast við málið, einnig frá sjónarhóli þeirra sem engin samkeppnislög vilja. Það er framganga heilu stjórnmálaflokkanna sem segja eitt í dag, annað á morgun og gera ekkert með það sem sannanlega gerist þó fyrir framan augun á þeim. Og það er samfelld þögn svokallaðra fjölmiðlamanna um slík atriði, sem eru verulegt áhyggjuefni, hvaða skoðun sem menn kunna að hafa á þeirri spurningu hvort einhverjar og þá hverjar samkeppnisreglur skuli gilda á fjölmiðlamarkaði.

Hin ótrúlega staðreynd er sú, að stjórnarandstaðan hefur ekkert gert með það sem sannanlega hefur verið gert til að koma til móts við hana. Stjórnvöld hafa hins vegar slegið af þeim tillögum sem þau komu fyrst með. Vefþjóðviljinn er vissulega ósammála þeim um það hvort samkeppnisreglur, eins og þær sem „fjölmiðlalögin gera ráð fyrir“ eigi að gilda á íslenskum fjölmiðlamarkaði, en það er einfaldlega venjulegur pólitískur ágreiningur. En í því er engin óbilgirni fólgin. Hún er hins vegar allsráðandi hinumegin, þar sem ekkert er gert með neitt sem gert er.