Mánudagur 12. júlí 2004

194. tbl. 8. árg.

H

Þingstörfin eiga ekki að lúta sömu lögmálum og hver önnur framleiðsla.

vað segja þeir nú sem hingað til hafa séð ofsjónum yfir „löngu sumarfríi“ þingmanna? Það er mátulegt á þá sem haldið hafa því fram að þingmenn séu of lítinn hluta ársins að störfum að horfa á þau ósköp sem dundu yfir eftir að samfylkingartákn þjóðarinnar synjaði lögum frá Alþingi staðfestingar í þeirri von að koma mætti höggi á gamla pólitíska andstæðinga.

Í kjölfarið var þing boðað saman til að ræða tilhögun þjóðaratkvæðagreiðslu og síðar nýja útgáfu svonefndra fjölmiðlalaga. Þrátt fyrir að þingmenn stjórnarandstöðu hafi kvartað mjög undan tímaskorti við umræðu um fyrra fjölmiðlafrumvarp ríkisstjórnarinnar hafa þeir enn ekki séð sér fært að ræða efnisatriði málsins á sumarþinginu en það gleymdist raunar einnig í vor. Eins og frægt er var tímaskorturinn svo mikill þinginu í vor, þegar umræðan um fyrri útgáfu laganna stóð sem hæst, að þingmenn þurftu að sameina lestur bóka af náttborði sínu og ræðuhöld á þinginu.

Það fer vel á því að nú sé haldið sérstakt þing þar sem stjórnarfrumvarp er til umfjöllunar sem hvorki er skiljanlegt að stjórnin leggi fram né að stjórnarandstaðan leggist gegn. Ætli það renni ekki upp fyrir einhverjum að það er ekki sama magn og gæði í þingstörfunum?

Þingið er fjölmennara nú og situr lengur en það hefur áður gert í sögunni. Er það breyting frá því sem áður var þegar þing kom saman annað hvert ár, sex til átta vikur í senn. Langar setur á þingi eru auðvitað engin trygging fyrir því að ákvarðanir þingsins séu betri en áður. Ef ekki þyrfti annað að fjölmenni og langar setur við lagafæribandið til að tryggja góð lög væri lífið einfalt.