Helgarsprokið 11. júlí 2004

193. tbl. 8. árg.

F réttablaðið og umfjöllun þess um mál sem ritstjóri þess og aðrir eigendur telja brýnt hagsmunamál sitt, það er að segja fjölmiðlalögin og mál því tengd, hafa verið nokkuð til umræðu. Ástæðan er sú að mörgum sýnist blaðið ekki standa undir nafni þegar kemur að þessu máli, það flytji ekki aðeins fréttir af málinu heldur reyni það allt sem það geti til að hafa áhrif á gang málsins. Og þá ekki aðeins í leiðurum sínum heldur einnig með fréttaflutningi. Til að reyna að átta sig á því hvað væri til í þessum ásökunum á hendur Fréttablaðinu skoðaði Vefþjóðviljinn aðalfréttir á forsíðu og leiðaraskrif síðustu 50 daga og samantekt þess er að finna hér að neðan. Eins og sjá má nær samantektin til blaða frá 20. maí til gærdagsins 10. júlí og er hann efstur. Fyrirsagnir eru feitletraðar, en undirfyrirsagnir frétta á forsíðu og yfirfyrirsagnir leiðara eru með einföldu letri. Þar sem Fréttablaðið fjallar um fjölmiðlalögin eða málefni því tengd í annarri frétt á forsíðu en í aðalfréttinni er þess getið innan sviga.

„…telst Vefþjóðviljanum til að 20 daga af þeim 50 sem voru til skoðunar hafi fjölmiðlafrumvarpið og mál sem því tengjast beint verið aðalfréttin á forsíðu Fréttablaðsins. Aðra 15 daga voru minni fréttir um málið á forsíðunni…“

Mat á fréttaumfjöllun og leiðaraskrifum verður alltaf að einhverju leyti huglægt og í sumum tilvikum má deila um hvort að tiltekin frétt eða leiðari fjalla um tiltekið mál eða ekki og þess vegna gætu menn komist að ólíkum niðurstöðum þegar þeir færu að telja út hversu oft tiltekin mál eru til umfjöllunar. Til að gæta sanngirni hefur í þeim tölum sem hér verða lagðar fram verið reynt að telja ekki með annað en það sem flestum má þykja augljóst að fjalli um fjölmiðlalögin og það sem þeim tengist, en ýmsu sem segja má með góðum rökum að styðji sjónarmið Fréttablaðsins og tengist málinu því að minnsta kosti óbeint, er sleppt. Hér er til dæmis átt við allmarga leiðara þar sem deilt er hart á ríkisstjórnina, forystumenn hennar, einkum forsætisráðherra, og stjórnarflokkana. Þessir leiðarar geta nýst í baráttu blaðsins gegn fjölmiðlalögunum og færa má rök fyrir að þeir virðist aðeins ritaðir í þeim tilgangi, en engu að síður var talið rétt að sleppa að telja þá með til að síður yrði hægt að halda því fram að hallað væri á Fréttablaðið í þessari samantekt. Nokkrir leiðarar til stuðnings forsetanum og afstöðu hans til fjölmiðlalaganna eru hins vegar taldir með, enda ekki annað hægt miðað við umfjöllunarefnið og hvernig þeir eru skrifaðir. Ýmsar aðalfréttir á forsíðu sem sleppt er í þeirri tölu sem birt er hér að neðan mætti færa rök fyrir að tengist að minnsta kosti óbeint umfjöllun um fjölmiðlafrumvarpið og tengd mál. Þetta eru til dæmis fréttir um það sem kallað var óvenju hart átakaþing, fréttir um Ríkisútvarpið og stöðu þess gagnvart öðrum fjölmiðlum og frétt um óvinsældir ríkisstjórnarinnar. Rétt er að taka fram að í talningu á fréttaumfjölluninni eru fréttir af forsetakosningunum og túlkun þeirra ekki taldar með, ólíkt leiðurunum, enda eru fjölmiðlamálið og forsetakosningarnar tengd saman með mun augljósari hætti í leiðurum en fréttum.

Þrátt fyrir að fréttir, sem vissulega má segja að tengist fjölmiðlamálinu að minnsta kosti óbeint, séu ekki taldar með, telst Vefþjóðviljanum til að 20 daga af þeim 50 sem voru til skoðunar hafi fjölmiðlafrumvarpið og mál sem því tengjast beint verið aðalfréttin á forsíðu Fréttablaðsins. Aðra 15 daga voru minni fréttir um málið á forsíðunni og þess vegna komst málið á forsíðu Fréttablaðsins í 35 daga af 50, eða í 70% útgáfudaga. Menn mega vera ákafir talsmenn Fréttablaðsins til að telja að þetta flokkist aðeins undir eðlilegt fréttamat en sé ekki til marks um að ekki aðeins leiðararnir heldur einnig fréttaflutningurinn hafi litast af skoðunum ritstjóra og annarra eigenda blaðsins. Hvað ætli menn segðu ef hlutfallið væri svipað á forsíðu Morgunblaðsins? Ef Morgunblaðið, sem hefur ólíkt Fréttablaðinu lýst stuðningi við fjölmiðlalögin í leiðurum sínum, hefði slegið upp jákvæðum fréttum tengdum fjölmiðlaumræðunni í 20 af síðustu 50 tölublöðum sínum og fjallað um málið í minni forsíðufréttum í ein 15 skipti, ætli þá hefði ekki heyrst hljóð úr horni? Ætli þeir sem töldu eina saklausa fyrirsögn Morgunblaðsins á kjördag vera „atlögu að forseta Íslands“ hefðu ekki uppi talsvert stór orð ef fréttamat Morgunblaðsins hefði litast jafn mjög í þessu máli og fréttamat Fréttablaðsins? Þá má ekki gleyma því að þessi samantekst nær einungis til síðustu 50 daga, en þá hafði þessi umræða staðið yfir í nokkrar vikur og Fréttablaðið hafði þær vikur ekki síður beitt sér í málinu en á því tímabili sem hér um ræðir.

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri og einn eigenda Fréttablaðsins, ritaði að minnsta kosti 25 leiðara um fjölmiðlalögin og tengd mál á síðustu 50 dögum.

Gunnar Smári Egilsson, ritstjóri og hluthafi í Norðurljósum, átti 34 af þeim leiðurunum sem ritaðir voru þessa 50 daga. Af þessum 34 leiðurum ritstjórans fjölluðu ekki færri en 25 um fjölmiðlalögin og málefni sem þeim tengjast. Þar með taldir nokkrir sem um leið voru til stuðnings Ólafi Ragnari Grímssyni í tengslum við synjun forsetans, kosningarnar og og túlkun þeirra, eins og komið er inn á hér að ofan. Annan hvern dag tókst ritstjóranum að setja saman leiðara um þetta eina mál og þau hugðarefni hans sem hann tengir því. Eru þá ekki taldir með í það minnsta tveir leiðarar hans sem að minnsta kosti óbeint virðast eiga að styðja málstað hans og fjalla um meint vandræði ríkisstjórnarinnar. Þetta verða að teljast ótrúlega mikil skrif um þetta eina mál og má í því sambandi aftur benda á samanburðinn við Morgunblaðið og á þá staðreynd að fyrir þessa samantekt hafði ritstjórinn í nokkrar vikur ritað fjölda leiðara um þetta sama mál. Aðrir leiðarahöfundar áttu 16 af leiðurunum 50. Þeir voru ekki alveg jafn uppteknir af þessu eina máli, þótt litlu muni að vísu, og að leiðurum þeirra meðtöldum er óhætt að fullyrða að yfir 30 leiðarar af þessum 50 hafi fjallað um mál sem tengjast beint baráttu Fréttablaðsins og eigenda þess gegn fjölmiðlalögunum. Þá eru ekki taldir með leiðarar sem fjalla með almennari hætti um valdablokkir í atvinnulífinu eða annað af því tagi sem tengist málinu að minnsta kosti óbeint og færa má rök fyrir að eigi að þjóna svipuðum tilgangi og það sem skrifað er um fjölmiðlalögin með beinni hætti.

Þessi samantekt um umfjöllun Fréttablaðsins í tengslum við fjölmiðlafrumvarpið staðfestir það sem haldið hefur verið fram, þ.e. að umfjöllun blaðsins sé mjög lituð af skoðunum ritstjóra þess og annarra eigenda. Ekki er af sanngirni hægt að halda því fram að einungis sé um eðlilegt fréttamat að ræða. Og það þarf raunar ekki að koma á óvart að það bitni á fréttamatinu þegar ritstjóri og aðrir leiðarahöfundar eru jafn uppteknir af einu máli og raun ber vitni. Fátt annað en voveifleg mannslát, stærstu fyrirtækjakaup sem um getur hér á landi, leiðtogafundur með Bandaríkjaforseta, lyktir stærsta fjársvikamáls sem upp hefur komið eða forsetakosningar duga til að ýta hugðarefni ritstjórans úr heiðurssæti á forsíðunni. Það þarf ekki næmt fréttanef til að finna að umfjöllunin um fjölmiðlamálið er langt umfram tilefni á forsíðu Fréttablaðsins. Þeir sem ráða ferðinni á blaðinu virðast líta svo á að rétt sé og eðlilegt að beita því öllu, bæði fréttum og leiðurum, til að hafa áhrif á helstu áhuga- og hagsmunamál sín. Þeir hafa vitaskuld fullan rétt til að gefa út blað sem hefur þann tilgang að berjast gegn tilteknum lögum, gegn ríkisstjórninni eða gegn einstökum stjórnmálamönnum, en þeir ættu þá að kannast við að það sé tilgangurinn í stað þess að reyna að halda því fram að það sé einungis gefið út til að vera hefðbundið fréttablað. Í þessu sambandi má minna á að blaðið er á hverjum morgni sett óumbeðið inn um bréfalúguna á flestum heimilum landsins. Menn geta því ekki sagt blaðinu upp og þeim mun sérkennilegra er að blaðið villi á sér heimildir og segist vera fréttablað en ekki áróðursrit.

En nóg um álit Vefþjóðviljans á Fréttablaðinu, forsíðu þess og leiðurum. Hér að neðan getur hver séð fyrir sig – og lagt eigið mat á – hvernig helsta umfjöllun blaðsins hefur verið síðustu 50 daga:

Fréttablaðið 20. maí til 10. júlí 2004
– forsíðufréttir og leiðarar

10. júlí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Þrír af hverjum fjórum andvígir nýju frumvarpi
Andstaða við nýtt fjölmiðlafrumvarp er álíkamikil og hún var við hið fyrra samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins. Um 66 prósent telja að forsetinn eigi að synja nýjum lögum staðfestingar.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Ný skoðanakönnun Fréttablaðsins sýnir að ríkisstjórninni tekst ekki að afla fjölmiðlafrumvarpi sínu stuðnings.
Gjáin dregst ekki saman

9. júlí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Útiloka ekki breytingar á frumvarpi
Innan ríkisstjórnarinnar er það ekki útilokað að fjölmiðlafrumvarpið muni taka breytingum í meðferð allsherjarnefndar. Fjármálaráðherra boðaði það í ræðu á Alþingi. Stjórnarþingmenn telja að stjórnarandstaðan muni hafna hvaða breytingartillögum sem er.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Tilefni fjölmiðlalaganna ekki í samræmi við herkostnað ríkisstjórnarinnar.
Ferð án fyrirheits

8. júlí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Blóð fannst í jeppa hins handtekna
Maður sem var handtekinn vegna mannshvarfs hefur verið úrskurðaður í tveggja vikna varðhald. Maðurinn neitar að hafa komið nálægt hvarfi konunnar. Blóð fannst heima hjá honum og í bíl hans.
(Á forsíðunni er einnig lítil frétt um fjölmiðlafrumvarpið þar sem vísað er á bls. 2.)

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Hvers vegna setur ríkisstjórnin lög sem afnema sig og endurvekja?
Einkamál Davíðs

7. júlí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Engin niðurstaða
Engin ákvörðun um framtíð varnarliðsins á Íslandi var tekin á fundi Davíðs Oddssonar og Bush Bandaríkjaforseta á fundi þeirra í Hvíta húsinu í gær. Bush sagðist ætla að skoða málið með opnum huga. Íslendingar þurfa að taka aukinn þátt í kostnaði við Keflavíkurflugvöll.
(Á forsíðunni er einnig lítil frétt um fjölmiðlafrumvarpið þar sem vísað er á bls. 2.)

Sjónarmið: Guðmundur Magnússon
Vonir um tímamótafund Davíðs og Bush um varnarmálin brugðust:
Vonbrigði í Washington

6. júlí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Lætur kanna hvort nýtt frumvarp sé þinglegt
Fyrsta fundi sumarþings lauk með háreysti í þingsölum í gær. Stjórnarandstaðan deildi hart á ríkisstjórnina. Forseti Alþingis lætur kanna hvort nýtt fjölmiðlafrumvarp sé þinglegt.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Ríkisstjórnin virðist ekki ráða við að marka skýrra og skynsamlega stefnu samhliða yfirvofandi stólaskiptum.
Formenn án framtíðar

5. júlí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Nýtt frumvarp – engin þjóðaratkvæðagreiðsla
Ríkisstjórnin hefur ákveðið að afturkalla fjölmiðlalögin sem forseti Íslands hafði skotið til þjóðarinnar. Forsætisráðherra segir forsetann ekki hafa neinar forsendur til að hafna nýju lögunum. Formaður Samfylkingarinnar gagnrýnir málsmeðferðina.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Ríkisstjórnin gafst upp á að ná samkomulagi um fyrirkomulag þjóðaratkvæðagreiðslu.
Óvenjuleg lending – en ekki snjöll

4. júlí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Enn ríkir óvissa
Formenn Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks reyna að ná samkomulagi um þátttökuskilyrði í þjóðaratkvæðagreiðslu. Ríkisstjórnarfundur í dag. Þingmenn Framsóknar harðir á sínu.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Forystumenn Sjálfstæðisflokksins virðast hafa misst sjónar af grundvallarleikreglum samfélagsins
Þjóðin er þinginu æðri

3. júlí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Framsókn vill 30%
Formaður framsóknarflokksins hefur umboð frá þingflokknum um að semja um að 30 prósent kosningabærra þurfi til að fella lög úr gildi. Þingmenn Sjálfstæðisflokksins vilja þó ekki hvika frá 44 prósentum.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Enn og aftur er kominn[!] upp sú staða í ríkisstjórninni að Davíð Oddsson notar Halldór Ásgrímsson til að fá framsóknarmenn til að kyngja því sem þeim býður við
Kunnugleg staða í ríkisstjórninni

2. júlí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Skilyrði verða sett
Drög að frumvarpi um þjóðaratkvæðagreiðslu verða lögð fram á ríkisstjórnarfundi í dag. Þar verða sett skilyrði um að ákveðið hlutfall kosningabærra manna þurfi til að fella lög úr gildi. Framsóknarmenn segjast sættast á kröfur Sjálfstæðisflokksins um skilyrði en vilja að þau verði sem hóflegust.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Það er erfitt að sjá hvernig ríkisstjórnin ætlar að ná niðurstöðu í fjölmiðlamálið sem hún er sátt við og hefur sóma af.
Réttast af ráðherrunum að afnema lögin

1. júlí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Lögregla sökuð um aðgerðarleysi
Skuldarar sagðir hunsa boðun sýslumanns í fjárnám. Formaður Lögmannafélags Íslands segir lögregluna ekki sinna skyldum sínum. Dæmi eru um að kröfur hafi glatast vegna dráttar á framkvæmd fjárnáms.
(Niðri á forsíðunni er einnig frétt um fjölmiðlafrumvarpið þar sem vísað er á bls. 18)

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Íslendingum gengur vel á alþjóðlegum vettvangi á sviðum sem fæstir teldu að við ættum mikið fram að færa.
Atorka einstaklinganna brýst fram á óvæntum sviðum

30. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Enn óvissa í varnarmálum Íslendinga
Halldór Ásgrímsson segir að staða varnarliðsins á Miðnesheiði hafi ekki breyst á fundi aðildarríkja NATO. Ísland tekur sífellt aukinn þátt í öryggisstarfi NATO en er ekki að hervæðast, segir ráðherra.
(Á forsíðunni er einnig lítil frétt um fjölmiðlafrumvarpið þar sem vísað er á bls. 6.)

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Það er augljóst af viðbrögðum ráðherra að ríkisstjórnin vill skerða rétt kjósenda í komandi þjóðaratkvæðagreiðslu eins og frekast er unnt.
Vilji þjóðarinnar er æðri vilja þingsins

29. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Stjórnarflokkar ekki sammála um skilyrði
Starfshópur leggur til að sett verði skilyrði í lög um þjóðaratkvæðagreiðslu sem kveða á um að 25-44% atkvæðisbærra manna þurfi að synja lögum. Sjálfstæðisflokkur er hlynntur efri mörkunum en Framsóknarflokkurinn þeim neðri. Frumvarp tilbúið í lok vikunnar.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Það er undarlegt að borgaralegir lýðræðissinnar í Sjálfstæðisflokknum skuli efast um að Ólafur Ragnar Grímsson starfi í umboði íslensku þjóðarinnar.
Varðstöðumenn í uppreisnarham

28. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Harðar deilur um túlkun úrslitanna
Æðstu ráðamenn þjóðarinnar eru á öndverðum meiði um hvernig túlka beri niðurstöðu forsetakosninga. Forsetinn segir úrslitin afgerandi á alla mælikvarða en forsætisráðherra segir að úrslitin hljóti að vera forsetanum áfall.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Undarleg viðbrögð forystu Sjálfstæðisflokksins við úrslitum forsetakosninga benda til að flokkurinn sé nú á valdi harðlínumanna með minnihlutaskoðanir.
Flokkur í álögum

27. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Ólafur sigraði – fimmti hver skilaði auðu
Ólafur Ragnar Grímsson endurkjörinn með um tveimur þriðju greiddra atkvæða. Rúmur fimmtungur kjósenda skilaði auðu. Kjörsókn í forsetakosningum hefur aldrei verið minni.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Eftir úrslit kosninganna munu margir segjast hafa unnið kosningabaráttuna en það var aðeins einn sem vann kosningarnar.
Sigur fyrir Ólaf Ragnar

26. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Margt ungt fólk í fjárhagskröggum
Árangurslausum fjárnámum hjá ungu fólki hefur fjölgað um 100% á milli áranna 2003 og 2004. Um er að ræða fólk á aldrinum 21-30 ára sem á litlar eignir til að mæta skuldunum. Þyngst vega bílalán og greiðslukortaskuldir.
(Á forsíðunni er einnig minni frétt um fjölmiðlafrumvarpið.)

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Þótt forsetakosningarnar í dag séu einfaldar á yfirborðinu kraumar æði margt undir og deilt mun verða um túlkun úrslitanna.
Hinn huldi frambjóðandi

25. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Meirihluti andvígur aðild að ESB
Rúmur helmingur þeirra sem afstöðu tóku í nýrri skoðanakönnun Fréttablaðsins kvaðst andvígur umsókn um aðild að Evrópusambandinu. Hlutfall óákveðinna hærra en andvígra og fylgjandi. Niðurstaðan undirstrikar sterkt fylgi við umsókn, segir formaður Samfylkingarinnar.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Herfræði forystu Sjálfstæðisflokksins hentar illa stórum og breiðum flokki.
Breiðfylking fellur fyrir minnihlutaviðhorfum

24. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Þyngsti dómur í fjársvikamáli til þessa
Fyrrum aðalféhirðir Landssímans var dæmdur í fjögurra og hálfs árs fangelsi. Saksóknari segir dóminn vera einsdæmi. Fyrrum eigendur Skjás eins voru dæmdir í tveggja ára fangelsi.

Sjónarmið: Guðmundur Magnússon
Ritstjóri Morgunblaðsins segir átökin um fjölmiðlalögin barnaleik í samanburði við átök sem fram undan séu.
Nýtt stríð í undirbúningi?

23. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Ólafur Ragnar með 70 prósenta fylgi
Ólafur Ragnar fær 72% greiddra atkvæða í forsetakosningum ef tekið er mið af afstöðu þeirra sem ætla að mæta á kjörstað, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins. Fimmtungur ætlar að skila auðu.

Sjónarmið: Guðmundur Magnússon
Ástæða er til að breyta reglum um skipun hæstaréttardómara til að taka af öll tvímæli um að hæfni umsækjenda ráði úrslitum um valið.
Val á dómurum í Hæstarétt

22. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Upplausnarástand í aðdraganda valdaskipta
Fjórir bandarískir hermenn féllu í launsátursárás í Írak í gær. Skæruliðar hótuðu að hálshöggva suður-kóreskan gísl ef stjórnvöld í Suður-Kóreu hættu ekki við fyrirhugaða liðsflutninga til Írak. Upplausnarástand í öryggismálum varpar skugga á komandi valdaskipti.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Við viljum stundum gleyma hversu mikilvæg og stórhuga tilraun Evrópusambandið er.
Stórhuga leið til friðar og hagsældar

21. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Hrun loðnustofnsins kostar þjóðarbúið ellefu milljarða
Örvænting hefur gripið um sig meðal útvegsmanna enda líður nú hver dagurinn án þess að vart verði við loðnu á miðum landsins. Sé stofninn hruninn munu áhrifin vara um langa hríð og kosta þjóðarbúið tugi milljarða króna.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Það er vandfundið stríðsástandið sem forysta Sjálfstæðisflokksins og leiðarahöfundur Morgunblaðsins boðuðu ef forseti Íslands synjaði lögum staðfestingar.
Kjarkur nauðsyn á Bessastöðum

20. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Kona fannst látin í fjörunni í Fossvogi
Vegfarandi fann lík konunnar og lét lögreglu vita. Ekki er talið að um glæp hafi verið að ræða.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Framtíðin er ekki fyrr orðin að nútíð en ný framtíð verður til.
Óttinn býr til íhaldssemi

19. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Tilbúinn að axla ábyrgð á kostnað vinsælda
Ólafur Ragnar Grímsson segir ekki hægt að bera fjölmiðlalögin saman við Kárahnjúka- eða öryrkjamál. Forsetinn megi ekki láta undan þrýstingi einstakra forystumanna stjórnmálaflokka.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Til að túlka úrslit forsetakosninganna eftir viku þarf að leita samanburðar við kosningarnar 1988.
Ólafur keppir við árangur Vigdísar

18. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
KB banki kominn á sænska úrvalslistann
KB banki kominn í hóp 40 stærstu á sænskum markaði. Mjög stór áfangi í útrásarstefnu bankans. Eykur áhuga fjárfesta á bankanum, segir forstjóri KB.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Þrátt fyrir áform um veigamiklar skattalækkanir heyrist lítið af því hvernig ríkisstjórnin vill minnka ríkisútgjöld.
Ríkið þarf að spara til að lækka skatta

17. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Sameining auðveldari en viljinn mun minni
KB banki verður með yfirburðastöðu gagnvart stærstu viðskiptavinum eftir sameiningu við danska bankann FIH. Stærð KB banka gerir sameiningu hinna bankanna auðveldari, en áhuginn á því hefur minnkað í bili.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Íslendingar geta búið við meiri auðlegð og velferð en nokkur önnur þjóð.
Horfum björtum augum til framtíðar

16. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Hóta starfsfólki lífláti og líkamsmeiðingum
Tveir menn sem segjast vera Hvítrússar og hafa beðið um pólitískt hæli hér á landi hafa haft uppi alvarlegar hótanir í garð starfsmanna Félagsþjónustunnar í Reykjanesbæ.
(Á forsíðunni er einnig minni frétt um „málskotsrétt“.)

Sjónarmið: Guðmundur Magnússon
Listamenn atvinnulífsins

15. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Tveir íslenskir bankar bitust um danskan
KB banki keypti í gær danska bankann FIH fyrir 84 milljarða króna. Landsbankinn var einnig að skoða kaup á bankanum auk stærsta banka Norðurlanda. KB banki liðlega tvöfaldast að stærð við kaupin.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Það er þraut sjálfstæðismanna að halda samstöðu hægrimanna í gegnum hörð átök í samfélaginu.
Hugmyndakreppa til hægri

14. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Hafna fullyrðingum um forystukreppu
Borgarfulltrúar Reykjavíkurlistans segja samstarfið innan hans gott. Borgarstjóri hefur ekki ákveðið hvort hann tekur að sér pólitískt forystuhlutverk. Sjálfstæðismenn segja ummæli Helga Hjörvar staðfesta að R-listinn standi á veikum grunni.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Gagnrýni sjálfstæðismanna á Ólaf Ragnar Grímsson setur nokkra spennu í komandi forsetakosningar.
Átök í kringum átakalausar kosningar

13. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Reykjavíkurlistinn að verða lítil klíka
Einn af upphafsmönnum Reykjavíkurlistans segir að hann sé ekki lengur sú breiða hreyfing sem hann var. Hann hefur áhyggjur af því að R-listinn sé að verða lítil klíka í Ráðhúsinu.
(Á forsíðunni er einnig lítil frétt um fjölmiðlafrumvarpið þar sem vísað er á bls. 6.)

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
28 milljarða samningur ríkisins við mjólkurbændur viðheldur háu matarverði.
Fjárfest í fortíðinni

12. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Skattalækkun gegn verðbólgu
Hagvöxtur er á fleygiferð og Seðlabankastjóri segir bólgu í öllum tölum. Varaformaður fjárlaganefndar vill bregðast við með lækkun virðisaukaskatts.
(Á forsíðunni er einnig minni frétt um þjóðaratkvæðagreiðslu þar sem vísað er á bls. 12.)

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Skattalækkanir komnar til umræðu aftur – en á skrítnum forsendum.
Lækkun skatta bætir samfélagið

11. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Forsendur kjarasamninga í hættu
Formaður Verkalýðsfélags Húsavíkur telur forsendur kjarasamninga í hættu þar sem verðbólga sé langt umfram þau mörk sem sett hafi verið. Vísitala neysluverðs hefur hækkað um 3,9 prósent síðastliðna tólf mánuði og jafngildir hækkunin undanfarna þrjá mánuði níu prósenta verðbólgu á ársgrundvelli.
(Á forsíðunni er einnig lítil frétt um fjölmiðlafrumvarpið þar sem vísað er á bls. 4.)

Sjónarmið: Guðmundur Magnússon
Álitsgerð umboðsmanns Alþingis um fréttavef Ríkisútvarpsins er rökrétt frá lagasjónarmiðið en óviðunandi fyrir fjölmiðil sem starfar í samkeppnisumhverfi.
Hraða þarf endurskoðun útvarpslaga

10. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Sjómenn og útvegsmenn bera ábyrgðina
Sjávarútvegsráðherra segir niðurstöðu Alþjóðavinnumálastofnunarinnar áfellisdóm yfir samningsferli sjómanna og útvegsmanna. Stofnunin átaldi afskipti stjórnvalda af gerð kjarasamninga.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Mikill meirihluti vill greiða atkvæði gegn fjölmiðlalögunum.
Skýr niðurstaða – en um hvað verður kosið?

9. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Þátttökuskilyrði eru til skoðunar
Nefnd sem undirbýr þjóðaratkvæðagreiðslu skoðar hvaða takmarkanir hægt er að setja með tilliti til þátttöku í atkvæðagreiðslunni. Stuttum samráðsfundi stjórnar og stjórnarandstöðu lauk í ósætti.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Fylgi við forsetann minnkar í könnunum en er enn traust.
Forsetinn stendur af sér gagnrýni

8. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Rannsókn beinist að stofnun Baugs
Samkvæmt frumskýrslu skattrannsóknarstjóra hefur vanmat á verðgildi fyrirtækja við stofnun valdið því að skattgreiðslur hafi verið lægri en lög segja til um. Frestur er til 25. júní til þess að svara frumskýrslunni.
(Á forsíðunni er einnig lítil frétt um fjölmiðlafrumvarpið þar sem vísað er á bls. 8.)

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Sjálfstæðisflokkurinn braggast en andstaðan enn mikil við ríkisstjórnina.
Erfiðir 100 dagar fyrir Halldór

7. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Tveir af þremur eru sammála forsetanum
Samkvæmt niðurstöðu nýrrar skoðanakönnunar Fréttablaðsins eru tveir af hverjum þremur Íslendingum sammála ákvörðun forseta um að vísa fjölmiðlalögunum til þjóðaratkvæðagreiðslu. „Styrkir stöðu Ólafs Ragnar,“ segir prófessor í stjórnmálafræði.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Mikill meirihluti þjóðarinnar vill að forsetinn hafi vald til að skjóta einstökum málum í þjóðaratkvæðagreiðslu.
Þjóðin vill að forsetinn hafi valdið

6. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Ekkert samráð við stjórnarandstöðu
Halldór Ásgrímsson taldi forsætisráðherra hafa haft samráð við formenn allra stjórnmálaflokka um breytingu stjórnarskrár, ekki bara við sig. Formenn stjórnarandstöðuflokkanna kannast ekki við það.
(Á forsíðunni er einnig lítil frétt um fjölmiðlafrumvarpið þar sem vísað er á bls. 4.)

Mál manna: Sigurjón M. Egilsson
Stjórnarliðar undirbúa endurskoðun stjórnarskrárinnar. Þeir vilja koma í veg fyrir að forseti geti framvegis tekið framfyrir hendur Alþingis með því að synja lögum og senda þau til þjóðaratkvæðagreiðslu.
Vilja breyta stjórnarskránni

5. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Lögregla leitaði skotvopna
Húsleitir voru gerðar á höfuðborgarsvæðinu og í Borgarfirði. Tveir menn á fertugsaldri voru handteknir. Lagt var hald á skotfæri, sprengiefni og kannabisplöntur. Við húsleitir í Reykjavík fundust kannabisefni og hvítt efni sem talið er vera amfetamín eða kókaín.
(Niðri á forsíðunni er einnig frétt um „málskotsrétt“ þar sem vísað er á bls. 2.)

Nokkur orð: Jón Kaldal
Þjóðaratkvæðagreiðsla um fjölmiðlalög forsætisráðherra mun ekki síður snúast um áhuga og vilja þjóðarinnar til að eiga lokaorðið í umdeildum málum. Má jafnvel færa rök fyrir því að tilefnið sjálft falli þar í skuggann.
Þjóðaratkvæði um þjóðaratkvæði

4. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Forsætisráðherra heitir þjóðaratkvæðagreiðslu
Forsetinn gangi erinda Norðurljósa. Þjóðaratkvæðagreiðsla verður um fjölmiðlalögin við fyrsta tækifæri. Ríkisstjórnin mun ekki beita sér í kosningabaráttu vegna fjölmiðlalaga. Þetta kom fram í máli forsætisráðherra í Kastljósi í gær.

Mál manna: Sigurjón M. Egilsson
Íslendingar eru spyrjandi. Hvað varð til þess að móðir varð barni sínu að bana og annað barn hennar komst undan við illan leik? Við höfum engin svör en verðum öll að sýna aðgát.
Harmleikur í Reykjavík

3. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Til þjóðarinnar
Forseti neitaði lögum staðfestingar í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins. Fjölmiðlalögunum verður vísað til þjóðaratkvæðagreiðslu en kalla þarf saman Alþingi til að setja lög um þjóðaratkvæðagreiðslu.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Forseti Íslands hafnaði fjölmiðlalögum Davíðs Oddssonar og ríkisstjórnar hans. Alþingi fær framvegis aukið aðhald frá forseta.
Gjá sem varð að brúa

2. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Játning móðurinnar liggur ekki fyrir
Konan sem grunuð er um að hafa banað dóttur sinni og stórslasað son sinn aðfararnótt mánudags var yfirheyrð í gær. Játning liggur ekki fyrir. Móðirin og drengurinn eru komin úr gjörgæslu.
(Á forsíðunni er einnig minni frétt um fjölmiðlafrumvarpið.)

Sjónarmið: Guðmundur Magnússon
Almenningur á rétt á að vita hvort ágreiningur sé innan stjórnarflokkanna um skattalækkanir.
Óviðunandi tafir á skattafrumvarpi

1. júní 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Ellefu ára stúlka stungin til bana
Móðir stúlkunnar grunuð um verknaðinn og úrskurðuð í gæsluvarðhald. Fjórtán ára bróðir stúlkunnar komst særður undan. Móðirin talin hafa reynt að svipta sig lífi eftir verknaðinn.

Nokkur orð: Jón Kaldal
Tíu ára valdaafmælisgjöf R-listans til borgarbúa er færsla og stækkun Hringbrautar.
Hringbrautin og fjölmiðlafrumvarpið

29. maí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Óvenju hörðu átakaþingi lokið
Stjórnarandstaðan segir að sprungur vegna skjálftans sem reið yfir þingið í vetur séu ekki einungis milli stjórnar og stjórnarandstöðu heldur teygi sig inn í stjórnarliðið. Ekki er áætlað að þingið hittist fyrr en á haustdögum þegar Halldór Ásgrímsson tekur við forsætisráðuneytinu af Davíð Oddssyni.

Sjónarmið: Guðmundur Magnússon
Rétturinn til að ákveða þjóðaratkvæðagreiðslu um umdeild málefni verði færður frá forsetanum til kjósenda.
Í fyrsta og síðasta sinn

28. maí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Frumvarp um Ríkisútvarp tilbúið fyrir næsta þing
Stefnt er á að frumvarp um endurskipulagningu RÚV verði lagt fram fyrir haustþing. Menntamálaráðherra vill leggja niður afnotagjöld og gjörbreyta hlutverki útvarpsráðs, jafnvel afnema íhlutun stjórnmálaflokka í ráðinu.
(Á forsíðunni er einnig lítil frétt um fjölmiðlafrumvarpið þar sem vísað er á bls. 2.)

Mál manna: Sigurjón M. Egilsson
Stjórnmálaflokkar gefa ekki upp hverjir veita þeim styrki. Stjórnmálamenn saka blaðamenn um að ganga erinda eigenda sinna. En hvað um stjórnmálamenn?
Stjórnmálamenn, eyðið óvissunni

27. maí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
RÚV í rannsókn hjá Eftirlitsstofnun EFTA
Íslenska ríkinu hefur borist kæra frá Eftirlitsstofnun EFTA, ESA, vegna áskriftargjalda. Sendinefnd frá ESA fundaði með fjármálaráðuneyti í gær. Kannað verður hvort innheimta megi áskriftargjöld og selja auglýsingar. Hlutverk RÚV þarfnast skilgreiningar.

Mál manna: Sigurjón M. Egilsson
Áhugamenn og þeir sem hafa hagsmuna að gæta innan sjávarútvegsins hafa haft mikil áhrif innan Alþingis
Hagsmunagæsla eða stjórnmál

26. maí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Ákvörðunar forseta Íslands beðið
Varaforseti Alþingis og skrifstofustjóri settu nöfn sín á fjölmiðlafrumvarpið í gær. Frumvarpið bíður staðfestingar forseta Íslands. Undirskriftir tæplega 32 þúsund Íslendinga voru afhentar forseta í gær þar sem skorað er á hann að synja staðfestingu.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Davíð Oddsson segir mikil og illleysanleg vandamál fylgja synjun forsetans á staðfestingu fjölmiðlalaganna.
Ástæðulaus verkkvíði

25. maí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Fjölmiðlalög samþykkt
Framsóknarmennirnir Kristinn H. Gunnarsson og Jónína Bjartmarz studdu ekki frumvarpið. Umræða um fjölmiðlafrumvarpið stóð í 84 klukkustundir samfleytt á Alþingi. Lögin bíða nú staðfestingar forseta Íslands. Hart deilt um fjölmiðlalög í eldhúsdagsumræðum.

Sjónarmið: Guðmundur Magnússon
Sjálfstæðisflokkurinn 75 ára

24. maí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Sjálfstæðismenn vildu hemja vöxt Baugs
Sjálfstæðisflokkurinn ræddi í janúar hvernig bregðast ætti við vaxandi styrk Baugs. Ekki væri lengur hægt að ráða við fyrirtækið. Þetta sagði Pétur Blöndal. Hann segist ekki taka mark á skoðanakönnunum Fréttablaðsins.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Í dag mun Alþingi sveigja af braut vestrænna lýðræðisríkja.
Lög gegn frjálsri pressu

23. maí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Ríkisstjórnin á rangri braut
Kristinn H. Gunnarsson þingmaður Framsóknarflokks segir flokk sinn hafa villst af leið, áhrif einstakra þingmanna hafi minnkað til muna. Kristinn segir ríkisstjórnina á rangri braut.

Mál manna: Sigurjón M. Egilsson
Davíð Oddsson hefur ekki farið leynt með andúð sína á fjölmiðlum Norðurljósa.
Spyr fólk í sjoppum

22. maí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Stjórnin aldrei óvinsælli
Nær 70% landsmanna eru andvíg ríkisstjórninni, samkvæmt skoðanakönnun Fréttablaðsins, og hafa aldrei verið fleiri. Samfylkingin nýtur meira fylgis en stjórnarflokkarnir til samans.
(Á forsíðunni er einnig lítil frétt um fjölmiðlafrumvarpið þar sem vísað er á bls. 2.)

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Fylgi við ríkisstjórnina og stjórnarflokkana mælist fádæma lítið.
Sérlunduð stefna án stuðnings

21. maí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Sjö af hverjum tíu vilja þjóðaratkvæðagreiðslu
Um 71 prósent þjóðarinnar vill að forseti Íslands neiti að skrifa undir fjölmiðlalögin. Tæplega 87 prósent telja forsetann hafa það vald. Formaður Samfylkingarinnar segir fólk vera að herðast í andstöðunni. Þingmaður Framsóknar segir opinbera umræðu hafa verið einhliða.

Mín skoðun: Gunnar Smári Egilsson
Andstaða þjóðarinnar við fjölmiðlafrumvarpið er mikil og staðföst.
Þjóðin hafnar frumvarpinu

20. maí 2004
Forsíða – aðalfrétt:
Margra ára martröð lokið
Hæstiréttur sýknaði Pétur Þór Gunnarsson og Jónas Freydal Þorsteinsson í stóra málverkafölsunarmálinu. Tveir dómarar skiluðu sératkvæði. Dómurinn þykir áfellisdómur yfir rannsókn málsins, sem tók sjö ár og kostaði um 50 milljónir. Ég get loks byrjað að tjasla lífinu aftur saman, segir Pétur Þór.
(Niðri á forsíðunni er einnig frétt um fjölmiðlafrumvarpið þar sem vísað er á bls. 12-13.)

Sjónarmið: Guðmundur Magnússon
Meiri fjölbreytni í atvinnulífinu en nokkru sinni fyrr
Ástæðulausar áhyggjur