Og það sem sagt var hér við alþjóð 14. maí var auðvitað samansafn af rangfærslum. Það var fullyrt að forstjóri Norðurljósa hefði verið formaður framboðsfélags míns, það er rangt, það er Guðrún heitin Katrín, eiginkona mín sem var það. |
– Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, í Ríkissjónvarpinu, 21. júní 2004. |
Forstjóri Norðurljósa, Sigurður G. Guðjónsson, er skráður forsvarsmaður félags sem hefur unnið að kosningu Ólafs Ragnars Grímssonar í embætti forseta Íslands. Félagið er skráð undir nafninu Stuðningsmenn Ólafs R. Grímss. „Ég vann að kosningum hans 1996 mjög ötullega. Ég vann að kosningunum hans árið 2000. Síðan hef ég bara haldið mig til hlés,“ segir Sigurður. Samtökin séu þó enn skráð en engir fundir verið haldnir. Ásamt því að halda utan um fjáröflun fyrir forsetaframboð Ólafs Ragnars var Sigurður einnig umboðsmaður gagnvart kjörstjórnum og dómsmálaráðuneytinu. Núverandi umboðsmaður Ólafs Ragnars fyrir forsetakosningarnar í júní er Gunnar Jónsson hæstaréttarlögmaður. Hann er jafnframt lögmaður Norðurljósa. |
– Frétt Morgunblaðsins, 15. maí 2004. |
Þ
Eins og þessi gamla úrklippa úr Lögbirtingarblaðinu minnir á, þá hefur Sigurður G. Guðjónsson lengi verið persónulegur lögmaður Ólafs Ragnars Grímssonar. Á milli þeirra eru hins vegar engin tengsl, muniði það. |
etta er alltaf eins. Þegar Ólafur Ragnar Grímsson alþingismaður barðist til forseta árið 1996 þá var þetta daglegt brauð. Maðurinn, sem skömmu áður hafði trúað „svona einna helst á manninn“ og verið „sannfærður um að guð væri ekki til“, var þá skyndilega mjög trúaður á þann guð sem „sérstaklega amma [hans] hafði kennt [honum] að trúa á“. Maðurinn sem áður hafði samkvæmt æviágripi verið „ritstjóri Þjóðviljans“ hafði svo bara aldrei verið það. Maðurinn sem hafði barist gegn öllum helstu alþjóðasamningum Íslendinga bauð sig nú fram sem sérstakur talsmaður alþjóðlegra viðskipta um allan heim. Og þeir sem vöktu athygli á rangfærslunum voru sakaðir um rógburð.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur sagt sem minnst í þessari kosningabaráttu og treyst því að njóta þeirrar helgi sem áratugahefð hefur sveipað það embætti sem hann komst yfir fyrir átta árum. En í vikunni gerðist það þó að hann sat fyrir svörum opinberlega, og það var eins og við manninn mælt. Málflutningur á borð við þann sem svo oft heyrðist árið 1996 lét ekki bíða lengi eftir sér. Nú var hann hins vegar ekki að andmæla eigin verkum, orðum eða skoðunum heldur tók Ólafur Ragnar Grímsson nú að fullyrða að það væri einfaldlega rangt sem sagt hefði verið opinberlega um tengsl hans við fyrir fyrirtækið Norðurljós, það fyrirtæki sem allra aðila mest barðist gegn þeim lagabreytingum sem Ólafur Ragnar Grímsson neitaði á dögunum að staðfesta – sem eins og allir vita er einsdæmi í lýðveldissögunni. Um þennan ótrúlega málflutning mætti segja mörg orð, en vandséð er hins vegar hvernig Vefþjóðviljinn ætti að gera það betur en Ólafur Teitur Guðnason gerði í ákaflega fróðlegri úttekt í Viðskiptablaðinu í gær:
Undanfarna daga hefur Ólafur Ragnar til dæmis fullyrt það í hverjum viðtalsþættinum á fætur öðrum, að það sé ALRANGT að Sigurður G. Guðjónsson hafi verið formaður félags um framboð hans; formaðurinn hafi verið Guðrún Katrín heitin, þáverandi eiginkona hans. Þannig hefur Ólafur Ragnar á mjög umdeilanlegan hátt afvopnað fréttamenn, sem vilja sýna minningu eiginkonu hans heitinnar tilhlýðilega virðingu og síst af öllu þræta þegar nafn hennar er nefnt.
En ef þeir hefðu unnið heimavinnuna sína hefði Ólafur Ragnar ekki komist upp með þetta bragð. Fyrir rúmum mánuði, þann 15. maí, birti Morgunblaðið nefnilega frétt þess efnis að Sigurður G. Guðjónsson væri skráður forsvarsmaður félags sem hefði unnið að kosningu Ólafs Ragnars Grímssonar og væri skráð undir jafninu „Stuðningsmenn Ólafs R. Grímss.“ Þann 15. janúar árið 2000 birti Morgunblaðið frétt um fjárhagsuppgjör forsetaframboðs Ólafs Ragnars, sem hófst svona: „Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og formaður félags um forsetaframboð Ólafs Ragnars Grímssonar, segir að heildarkostnaður við framboð Ólafs Ragnars hafi numið tæpum 42 milljónum króna með vöxtum og öðrum kostnaði.“ Rætt er við Sigurð, sem upplýsir m.a. að eftir kosningarnar hafi vantað 28 milljónir kr. til þess að endar næðu saman. Félagið hefði unnið að því þar til í árslok 1999 að safna peningum frá einstaklingum og fyrirtækjum upp í skuldir. Í nýlegri, vandaðri úttekt Árna Þórarinssonar á Ólafi Ragnari í Tímariti Morgunblaðsins, segir: „[Fyrir kosningarnar 1996] var stofnað Félag um forsetaframboð Ólafs Ragnars Grímssonar til að halda utan um fjármálin og var [það] undir formennsku Sigurðar G. Guðjónssonar, …“ Í Forsetabókinni, sem helstu stuðningsmenn Ólafs Ragnars gáfu út í fjáröflunarskyni eftir kosningarnar 1996, er mynd á bls. 33 sem er merkt svona: „Stjórn félags um forsetaframboð Ólafs Ragnars á heimili hans.“ Á myndinni eru, auk Ólafs Ragnars, Sigurður G. Guðjónsson, Ólafía B. Rafnsdóttir, Már Guðmundsson, Þórólfur Árnason og Kristján Einarsson. (Guðrún Katrín er ekki á myndinni.) Tvennt virðist helst koma til greina: 1) Að Sigurður G. Guðjónsson hafi tekið við formennsku í framboðsfélaginu af Guðrúnu Katrínu, eða 2) að þau Sigurður G. og Guðrún Katrín hafi gegnt formennsku hvort í sínu félaginu og að einhver ruglingur sé uppi um nákvæm heiti félaganna. Þetta er í sjálfu sér ekkert aðalatriði, heldur hitt: Afdráttarlausar yfirlýsingar Ólafs Ragnars um að „meint tengsl“ við Norðurljós séu öll úr lausu lofti gripin er hreinn blekkingarleikur, sem fréttamenn hafa látið eftir honum að leika. Ólafur Ragnar hefur meira að segja gengið svo langt í þessum leik, að halda því blákalt fram að hann hafi engin tengsl við forstjóra Norðurljósa! Þegar hann bjóst til að fara yfir „ósannindi“ Davíðs Oddssonar lið fyrir lið í viðtali í Sjónvarpinu á mánudagskvöld greip Jóhanna Vigdís Hjaltadóttir fram í og sagði: „En tengslin eru til staðar.“ Ólafur Ragnar svaraði blákalt: „Nei, þau eru ekki til staðar.“ Bíðum við: Hvað sem formennsku í einhverjum félögum líður liggur það einfaldlega fyrir, að Sigurður G. Guðjónsson var umboðsmaður Ólafs Ragnars gagnvart kjörstórnum 1996 og 2000. (Núna heitir umboðsmaðurinn Gunnar Jónsson og er lögmaður Norðurljósa. Hann hefur sagt að Sigurður G. hafi beðist undan því að gegna starfinu í þetta sinn. Hvers vegna skyldi það vera?) Það er líka óumdeilt að Sigurður var talsmaður forsetaframboðsins í fjölmiðlum um fjárhagsleg málefni og sá um fjáröflun fyrir Ólaf Ragnar, sbr. áðurnefnt viðtal við hann í Morgunblaðinu árið 2000. Og hann var a.m.k. í stjórn félags um forsetaframboð Ólafs Ragnars, samkvæmt bókinni sem stuðningsmenn hans gáfu sjálfir út. Hvernig í veröldinni dettur forseta Íslands í hug að segja: „Nei, tengslin eru ekki til staðar“? Annar fréttamaður, Broddi Broddason á Útvarpinu, gerði heiðarlega tilraun til að koma Ólafi Ragnari niður á jörðina með því að segja eitthvað á þá leið, að hvað sem öllu liði vissu auðvitað allir að Sigurður G. hefði verið einn helsti stuðningsmaður Ólafs Ragnars. Þessu svaraði Ólafur Ragnar á sama hátt og hann gerði síðar í Sjónvarpinu: Jú, vissulega hefði Sigurður G. verið ötull stuðningsmaður, en bara einn af mörgum! Og svo taldi hann upp einhverja þrjá eða fjóra aðra, sem hefðu einnig stutt sig dyggilega. Þar með virtist hann bara hafa unnið málið! Nú, voru þeir margir? Eitt núll fyrir Ólaf Ragnar! Enginn fréttamaður virtist átta sig á hvílík firra þessi rök eru. Má dómari dæma í máli bróður síns, bara ef hann á fleiri bræður, kannski svona þrjá eða fjóra? Þetta er ævintýralegt rugl. En Ólafur Ragnar þaggaði niður í hverjum fréttamanninum á fætur öðrum með þessari þvælu – eins og að drekka vatn. Förum aðeins yfir þetta: Sigurður G. var í innsta hring Ólafs Ragnars, sat í stjórn framboðsfélagsins, stjórnaði fjáröflun og vann að því í mörg ár að brúa þá 28 milljóna kr. skuldagjá sem hafði myndast á milli útgjalda framboðsins og tekna þess. Hann stóð eins nálægt Ólafi Ragnari og er fræðilega mögulegt óskyldum manni. Næst gerist það, að Ólafur Ragnar beitir synjunarvaldi forseta í fyrsta sinn í sögu lýðveldisins, vegna laga sem fullyrt er að bitni eingöngu á fyrirtæki þar sem þessi sami Sigurður G. er forstjóri. En það er sko í góðu lagi, vegna þess að nokkrir aðrir unnu líka fyrir Ólaf Ragnar! Og það eru „engin tengsl til staðar“! Það sem meira er: fólk virðist bara taka þetta gott og gilt – og fréttamenn snúa sér að næstu spurningu. Málið tekið af dagskrá. |
Viðskiptablaðið birti þessa mynd úr „Forsetabókinni“, bók sem stuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímssonar gáfu út til styrktar framboði hans. Textinn undir myndinni er úr sömu bók, og þar segir „Stjórn félags um forsetaframboð Ólafs Ragnars á heimili hans. Frá vinstri: Sigurður G. Guðjónsson, Ólafía B. Rafnsdóttir skrifstofustjóri, Már Guðmundsson, Þórólfur Árnason og Kristján Einarsson.“ En það er samt rangt að Sigurður G. Guðjónsson hafi verið formaður þessa félags, muniði það.
|