Þ
Þrátt fyrir „atlögu“ og „herferð“ gegn sameiningartákni þjóðarinnar komu aðeins 42% landsmanna því til varnar í kosningum í gær. |
ær eru hreint út sagt sláandi, niðurstöður forsetakosninganna í gær. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson, og hringurinn í kringum hann, urðu augljóslega fyrir verulegu áfalli og síðan hefur verið samfellt spunahljóð úr öllum fréttatímum. En þó forsetinn og fjölmiðlamenn hans muni gera sitt besta til að draga athygli fólks frá tíðindum gærkvöldsins þá mun það ekki takast. Niðurstöðurnar blasa við. Og þegar frá líður, og sagan mun dæma Ólaf Ragnar Grímsson og verk hans, þá munu þessi úrslit blasa við öllum mönnum. Það vita nær allir hvílíka stöðu embætti forseta Íslands hefur haft meðal Íslendinga. Almennt hefur verið álitið að á Bessastöðum sitji „sameiningartákn þjóðarinnar“, maður sem óþarfi sé að gagnrýna, maður sem allir geti kallað „forsetann sinn“. Það hefur iðulega þótt óviðeigandi að halla orði á forsetann og fjölmiðlamenn umgengist embættið af gagnrýnisleysi. Sú almenna skoðun var jafnan ráðandi, að þegar búið sé að kjósa forseta, þá styðji allir þann sem kosinn hefur verið. Með sama hætti hefur það verið álitið hreinn dónaskapur að bjóða sig fram gegn forseta sem leitar endurkjörs og fáir nema Ástþór Magnússon og Rafn Geirdal látið sér það til hugar koma. Og hvernig sem Ólafur Ragnar Grímsson hefur hagað sér í embætti, hafa stuðningsmenn hans og þeir fjölmiðlar sem þeim fylgja fast að málum, tónað þann söng að þjóðin styðji „forseta sinn“.
Og nú liggja úrslit forsetakosninga fyrir. Tölurnar liggja fyrir svart á hvítu, hvað svo sem áróðursmenn eins og forseti Íslands og stuðningsmenn hans reyna að segja. Þrátt fyrir að forsetinn segi skyndilega sjálfur að „atlaga“ hafi verið gerð að sér, þá lýstu aðeins 42,45 % landsmanna yfir stuðningi við Ólaf Ragnar Grímsson sem forseta Íslands. Og það þrátt fyrir að enginn öflugur valkostur byði sig fram gegn honum og þeir menn teljandi á fingrum annarrar handar sem opinberlega hvöttu menn til að greiða forsetanum ekki atkvæði. Mótframbjóðendur Ólafs Ragnars voru tveir menn, Ástþór Magnússon og Baldur Ágústsson. Talsvert hefur farið fyrir Ástþóri undanfarin ár, en telja má að afar fáir landsmenn geti með nokkru móti hugsað sér að hann verði forseti Íslands. Hinn mótframbjóðandinn er vissulega annars eðlis og kom ágætlega fyrir í kosningabaráttunni og flutti mál sitt vel. Hann átti hins vegar við það að glíma, að enginn kunni á honum nokkur skil og enginn gaf sig fram opinberlega til að bera vitni um hugsanlega mannkosti hans. Það var aldrei við því að búast að slíkur einstaklingur ætti nokkra möguleika á fylgi, því væntanlega þarf mikið til að kjósandi sé reiðubúinn að gera nær algerlega óskrifað blað að þjóðhöfðingja. „Maður veit ekkert um þennan Baldur“, heyrðist víða sagt síðustu vikurnar. En þrátt fyrir þetta, ákvað á fjórtánda þúsund Íslendinga að greiða Baldri Ágústssyni atkvæði sitt, og óskaði þar með beinlínis eftir því að skipt yrði um forseta þegar eftir fimm vikur.
„En þegar sú yfirþyrmandi niðurstaða liggur fyrir, þá kemur nú í fjölmiðla sama lið og fyrir mánuði varaði við því að Ólafur kynni að missa fylgi ef hann staðfesti lögin, og sér ekkert að því að bæði kjörsókn og fylgi hans hrynji eftir hann synjar lögunum staðfestingar, og telur ekkert óeðlilegt við það að fjari undan honum á einni nóttu. Ákvörðunin hafi sko verið umdeild og þá sé alltaf að búast við einhverju fylgishruni!“ |
En þó að þessi staðreynd segi töluvert um þann stuðning sem áframhaldandi seta Ólafs Ragnars Grímssonar á Bessastöðum nýtur, þá eru það hinar tölurnar tvær sem eru mun athyglisverðari og segja mikla sögu um hve lítið stendur að baki þeim staðhæfingum sem þangað til í gær voru algengar, að „þjóðin“ styðji Ólaf Ragnar Grímsson. Það er staðreynd að 57,55 % kjósenda greiddu Ólafi Ragnari Grímssyni ekki atkvæði sitt, þrátt fyrir að hann hefði í átta ár gegnt starfi forseta Íslands og mótframbjóðendur hans væru ýmist illa eða alls ekki kynntir meðal landsmanna. Og þvert á það sem Ólafur Ragnar og stuðningsmenn hans reyna nú í ofboði að halda fram, þá stóð enginn stjórnmálaflokkur og enginn fjölmiðill fyrir átaki í því skyni að fólk skilaði auðum seðli í kosningunum. Þegar forseti Íslands, forystumenn stjórnarandstöðunnar og leiðarahöfundar forsetapressunnar fullyrða að stjórnmálamenn eða jafnvel heilir flokkar hafi staðið fyrir slíku átaki, þá hlýtur að vera hægt að fara fram á að þeir sýni dæmin um það. Hvaða stjórnmálamaður hefur hvatt til þess að menn skili auðu? Hvaða fjölmiðill?
Og af því að enginn stjórnmálaflokkur og enginn fjölmiðill hefur hvatt til slíks, þá geta menn ekkert dæmi nefnt. Tilraun Ólafs Ragnars Grímssonar til þess sýnir best hversu lítið er á bak við þessar eftiráskýringar. Ólafur Ragnar Grímsson hefur nefnt tvennt; að fyrirsögn í Morgunblaðinu á kjördagsmorgni megi skilja sem hvatningu til að fólk skili auðu og að sama áskorun hafi heyrst á útvarpsstöð sem hann nefndi ekki á nafn! Fyrirsögn Morgunblaðsins var á þann veg að auð atkvæði yrðu talin sérstaklega, en yfirkjörstjórnir höfðu ákveðið það vegna mikils áhuga kjósenda á því. Skoðanakannanir, meðal annars birtar í Fréttablaðinu höfðu sýnt að um 20 % kjósenda hygðust skila auðu, og er því ekki að undra að kjósendur hafi óskað eftir þessu við kjörstjórnirnar. Og þegar menn horfa til þess, að skoðanakannanir höfðu lengi sýnt að 20 % kjósenda ætluðu að skila auðu, þá sjá flestir hvílík þvæla það er, að fyrirsögn í kjördagsblaði Morgunblaðsins hafi haft nokkuð með þessa ákvörðun þessara þrjátíuþúsund manna að gera. Af hverju sögðu 20 % svarenda í skoðanakönnunum að þau ætluðu að skila auðu? Vegna þess að hálfum mánuði síðar yrði sagt frá því í Morgunblaðinu að auð atkvæði yrðu talin sér? – Og hitt atriðið sem Ólafur Ragnar Grímsson nefnir, að í þætti á einhverri útvarpsstöð hafi fólk verið hvatt til að skila auðu, hvað er það eiginlega? Er það eitthvert komment frá Ingva Hrafni sem er atlagan að forseta Íslands?
En, segjum nú að það sé rétt hjá Ólafi Ragnari Grímssyni og fjölmiðlafulltrúum hans, að það hafi í raun verið „herferð“ gegn forsetanum. „Atlaga“. En ef það er rétt, hvað segir það þá um stuðning hans meðal landsmanna að 57,55 % styðji hann ekki? Það er, að sögn Ólafs og fjölmiðlafulltrúa hans, stórfelld atlaga gerð að forsetanum og 57,55 % kjósenda ákveða að koma honum ekki til stuðnings. Ef þetta með atlöguna er rétt hjá Ólafi og fjölmiðlamönnum hans, þá eru úrslitin ennþá meira áfall en menn myndu ætla fyrirfram. Hér má ekki gleyma því, að kjósendur hafa að sjálfsögðu gert sér ljóst að einungis einn af þessum þremur, Ástþór, Baldur eða Ólafur Ragnar, yrði næsti forseti, hvort sem mönnum líkaði það betur eða verr, og þar sem nær enginn þekkir Baldur og nær enginn vill Ástþór, þá hafði fólk, sem ekki vill hafa Ólaf Ragnar Grímsson sem forseta, nær ekkert raunverulegt val. Ríflega þrettán þúsund manns ákváðu að mæta og greiða Baldri Ágústssyni bara atkvæði sitt – og leyfir Vefþjóðviljinn sér að gera því skóna að mjög mikinn meirihluta þeirra atkvæða verði að skoða sem mjög sterka andstöðu við áframhaldandi setu Ólafs Ragnars Grímssonar á forsetastóli – en tuttuguogsjöþúsund sexhundruð tuttuguogsjö manns gerðu sér ferð á kjörstað til þess að leggja auðan seðil í kjörkassann. Áttahundruð þrjátíu og fjórir gerðu svo seðil sinn ógildan með öðrum hætti, en þeir geta augljóslega ekki talist til stuðningsmanna Ólafs Ragnars heldur. Alls eru það, eins og áður segir, 57,55 % landsmanna sem ekki greiða Ólafi Ragnari Grímssyni atkvæði sitt, ýmist með því að kjósa hina frambjóðendurna tvo, skila auðum seðli eða ógildum, eða þá með því að sitja heima. Það eru 42,45 % kjósenda sem lýsa stuðningi við Ólaf Ragnar Grímsson sem forseta Íslands. Það er staðreynd gærkvöldsins sem innhaldslaust tal „djúpt snortinna“ og „auðmjúkra“ manna getur ekki breytt.
Muna menn eftir umræðunni fyrir rúmlega mánuði? Þá var hamrað á því, að ef Ólafur Ragnar Grímsson myndi nú gera það sem allir forsetar hafa alltaf gert, og staðfesta umdeild lög frá alþingi, þá myndi það sko verða til þess að einhverjir myndu hætta við að kjósa hann í komandi forsetakosningum. Þetta var sett fram sem mikil röksemd fyrir því að Ólafur Ragnar neitaði að staðfesta svokölluð „fjölmiðlalög“. Fyrir mánuði var það með öðrum orðum röksemd að fylgi forsetans myndi minnka ef hann tæki tiltekna ákvörðun, og það meira að segja ákvörðun sem hefði verið í fullkomnu samræmi við það hvernig allir forsetar höfðu farið með embætti sitt fram að því. En ef það var röksemd í þessu máli, hvað má þá segja um niðurstöðu gærkvöldsins? En þegar sú yfirþyrmandi niðurstaða liggur fyrir, þá kemur nú í fjölmiðla sama lið og fyrir mánuði varaði við því að Ólafur kynni að missa fylgi ef hann staðfesti lögin, og sér ekkert að því að bæði kjörsókn og fylgi hans hrynji eftir að hann synjar lögunum staðfestingar, og telur ekkert óeðlilegt við það að fjari undan honum á einni nóttu. Ákvörðunin hafi sko verið umdeild og þá sé alltaf að búast við einhverju fylgishruni!
Og svo eru Ólafur Ragnar og hans menn farnir að halda því fram að það sé nú þróunin hér að kjörsókn fari minnkandi. Það séu því engin tíðindi í því hversu fáir komu í gær að velja forseta. Um þá kenningu – sem fréttamenn gera engar athugasemdir við – er það að segja að í alþingiskosningunum í fyrra var þátttakan 87,8 % og hafði þar með vaxið frá kosningunum 1999, en þá var þátttakan 84,1 %. Það er nú sú þróun til minnkandi þátttöku sem Ólafur Ragnar Grímsson heldur fram að sé ráðandi hér á landi.
Ólafur Ragnar Grímsson hefur endurnýjað frasa sinn frá því fyrir átta árum og sagst taka úrslitum kosninganna „af auðmýkt“. Í hverju felst sú auðmýkt hans? Með því að gera ekkert úr því hvernig tugþúsundir Íslendinga ráðstafa atkvæði sínu? Með því að gera ekkert úr því hversu fáir koma til þess að lýsa stuðningi við hann, og það þrátt fyrir að hann sjálfur telji mikla atlögu hafa verið að sér gerða? Með því að gera ekkert úr því að þrátt fyrir átta ára setu í virðulegasta embætti landsins, er hann fjarri því að fá stuðning meirihluta kjósenda?