Ámorgun verður kjörinn nýr forseti Íslands. Undanfarna daga hefur af því tilefni töluvert verið um það að lesendur Vefþjóðviljans láti eins og þeir hafi heldur meiri trú á dómgreind blaðsins en málflutningur þess gefur almennt tilefni til, og hefur blaðið oft verið beðið um álit á því hvernig góður og gegn landsmaður ætti að ráðstafa kjörseðli sínum við þessar kosningar. Vefþjóðviljinn er að vísu jafnan ófús að svara skynsamlegum spurningum og helst ekki nema út í hött, en hér er að sönnu mikilvægt mál á ferð og því vill blaðið bregða vana sínum og hjálpa þeim lesendum sem alls ekki geta af eigin rammleik ráðið fram úr þessari þraut.
Ráð Vefþjóðviljans er þetta:
Takið með í kjörklefann hefðbundinn tening.
Þegar í klefann er komið kastið honum þá einu sinni og látið að því búnu þá hlið, sem veit upp, ráða niðurstöðunni, og er hér sem löngum best að láta stafrófsröð gilda.
Ef tölurnar 1 eða 2 koma upp, skilið þá auðum seðli.
Ef tölurnar 3 eða 4 koma upp, kjósið þá Ástþór Magnússon.
Ef tölurnar 5 eða 6 koma upp, kjósið þá Baldur Ágústsson.
Ef tölurnar 7 eða 8 koma upp, kjósið þá Ólaf Ragnar Grímsson.
Talandi um frambjóðendur. Sá þeirra sem mestan áhuga sýnir á því að ná kjöri er greinilega Baldur Ágústsson, sem virðist raunverulega telja að kjósendur eigi skilið að vita nokkuð um sig og sín stefnumál. Auglýsingar hans eru vandaðar og hafa vakið talsverða athygli, en Vefþjóðviljinn hefur þó tekið eftir því að fólk hefur nokkuð misskilið niðurlag þeirra. Auglýsingunum lýkur jafnan á orðunum „Baldur á Bessastaði“, og þau virðast sumir hafa skilið sem hefðbundið slagorð, jafnvel hvatningu til kjósenda. Svo er hins vegar alls ekki. Þetta er staðhæfing. Baldur á Bessastaði. Eins og ítrekað hefur komið fram, hefur Baldur einkum stundað fasteignaviðskipti undanfarin ár og meðal þess sem hann hefur eignast er jörðin Bessastaðir á Álftanesi, sem hann hefur hins vegar leigt íslenska ríkinu sem aftur hefur geymt þar Ólaf Ragnar Grímsson, fyrrverandi fjármálaráðherra. En nú vill Baldur sjálfur nýta eign sína sem auðvitað er skiljanlegt. Hann er því óðfús að ná kjöri sem fyrst, og sjálfsagt að verða honum innan handar við það.