Þó að þeir hjá Samkeppnisstofnun hafi gert atvinnufyrirtækjunum marga skáveifu, bannað sameiningar þeirra, bannað þeim að tilnefna menn í stjórnir eigin félaga, sektað þau fyrir að vera ekki með nægilega marga verðmiða í gluggunum og hver veit ekki hvað, þá má stofnunin þó eiga það að hún hefur löngum séð fyrirtækið Baug að miklu leyti í friði, og er það auðvitað fagnaðarefni fyrir eigendur þess sem og væntanlega alla þá sem eru andvígir samkeppnisreglum, eins og til dæmis þetta blað. Þannig gerðu samkeppnisyfirvöld ekkert til að hindra það er verslunarkeðjan, sem kennd var við vörumerkið 10-11 rann saman við þær keðjur sem nú eru innan Baugs og í gær tilkynntu samkeppnisyfirvöld hátíðlega að þau myndu ekki hindra þann samruna sem nýlega varð og er ýmist kenndur við Norðurljós eða Frétt. Ljómandi gott, þykir þessu blaði, enda er það andvígt samkeppnisreglum, og treystir því að Samkeppnisstofnun gæti samræmis í ákvörðunum sínum . En hugsum okkur nú að Samkeppnisstofnun hefði kveðið upp gagnstætt álit við það sem hún birti í gær. Segjum að Samkeppnisstofnun hefði metið samkeppnislögin þannig að henni bæri að banna þennan samruna. Hvað þá?
Já hvað þá? Hvað hefði stjórnarandstaðan gert? Eða forseti lýðveldisins? Undarlegar spurningar? Ekki svo. Þegar svokallað fjölmiðlafrumvarp var til umfjöllunar þá spöruðu stjórnarandstæðingar og tilteknir fjölmiðlar ekki stóru orðin. Ef lög yrðu með þeim hætti að ekki yrði hægt að reka fjölmiðlasamsteypuna Norðurljós í óbreyttri mynd, þá væri þar með búið að brjóta atvinnufrelsi, skoðanafrelsi, tjáningarfrelsi og – eins og það var meira að segja orðað oftar en einu sinni – allar greinar stjórnarskrárinnar nema trúfrelsið. Gott og vel, þetta eru allt góðar og gildar skoðanir sem menn mega halda fram og rökstyðja fram og aftur. Allt í góðu. En hvað ef Samkeppnisstofnun hefði í gær ákveðið að banna en ekki heimila umrædda sameiningu fjölmiðlafyrirtækjanna – og það hefði ekki tekið gildi eftir nein tvö ár, engin leyfi fengið að renna út, eða slíkt, það hefði bara komið bréf frá Guðmundi Sigurðssyni, hvað hefðu stjórnarandstæðingar þá sagt? Hefði Lúðvík Bergvinsson ætt í pontu alþingis með stóryrðum um starfsmenn Samkeppnisstofnunar? Hefði Björgvin G. Sigurðsson farið niður á Samkeppnisstofnun og lesið Frelsið fyrir starfsmenn? Hefði Ólafur Ragnar Grímsson krafist þjóðaratkvæðagreiðslu um fyrirmæli Samkeppnisstofnunar, þar sem að það yrði að vera þjóðarsátt um þær leikreglur sem gilda á fjölmiðlamarkaði og þjóðaratkvæðagreiðsla, með tilheyrandi deilum og flokkadráttum væri einmitt rétta leiðin til að ná almennri sátt um mál?
Nú komust samkeppnisyfirvöld að þeirri niðurstöðu að þeim bæri ekki að hindra þennan samruna. En þau lögðust yfir málið og kváðu svo upp úrskurð. Hann hefði getað orðið á hinn veginn. Og hvað þá? Hversu samkvæmir sjálfum sér hefðu stjórnarandstöðuþingmenn þá verið? Hefðu þeir í raun látið eins og slíkur úrskurður væri aðför að tjáningarfrelsi á Íslandi? Eða hefði komið í ljós að stóryrðin voru bara hluti af pólitískri leiksýningu?