Þriðja umræða má eigi fara fram fyrr en einni nóttu eftir aðra umræðu. Þá skal ræða breytingartillögur og greinar er þær eiga við, svo og frumvarpið í heild. Þá er umræðum er lokið skal leita atkvæða um breytingartillögur og síðan um frumvarpið í heild sinni eins og það þá er orðið. |
1. mgr. 40. gr. laga nr. 55/1991 um þingsköp Alþingis |
Þ
Skýringar Ólafs Ragnars Grímssonar á fjarveru sinni úr brúðkaupi ríkisarfa Danmerkur standast ekki. |
að er sjálfsagt afsakanlegt þó að fréttamenn þekki ekki þingsköp alþingis, þó að það sé reyndar ekki sérstaklega hrósvert hjá þingfréttamönnum. En þó fréttamenn þekki ekki þingsköpin þá þekkja þingmenn þau, og þá ekki síst þeir þingmenn sem lengi hafa verið formenn þingflokka, formenn stjórnmálaflokka, málþófsmeistarar og þingskapavígamenn. Ólafur Ragnar Grímsson, svo dæmi sé tekið, hann veit vel hvaða venjur og reglur gilda á Alþingi, þó fréttamenn séu misvel að sér í því, eins og sjálfsagt er eðlilegt. Og af hverju er þetta nefnt hér? Jú, vegna ótrúlegs umræðuþáttar í Ríkissjónvarpinu í fyrrakvöld, þar sem Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands og fyrrverandi formaður Alþýðubandalagsins, sat loks fyrir svörum um forsetaembættið og meðferð sína á því. Talið barst vitaskuld að því þegar forsetinn ákvað skyndilega, einn morgun í maímánuði, að sækja ekki brúðkaup ríkisarfa Danmerkur sem haldið var í Kaupmannahöfn sama dag. Ólafur Ragnar gaf þá skýringu, að hann hefði ekki getað treyst því að stjórnarandstaðan héldi uppi málþófi. Og þetta tóku spyrjendurnir gott og gilt, kannski af því að þeir vissu ekki betur, kannski af því að þeir urðu svo forviða við svarið.
Lagafrumvörp þurfa þrjár umræður á alþingi. Þegar Ólafur Ragnar ákvað skyndilega að mæta ekki í brúðkaup ríkisarfa hinnar gömlu sambandsþjóðar Íslendinga, hafði önnur umræða um „fjölmiðlafrumvarpið“ þegar staðið í þrjá daga og enn voru átján þingmenn á mælendaskrá. Á eftir hverjum og einum sem talaði í málinu voru linnulaus andsvör og svör við andsvörum. Auk þess stundaði stjórnarandstaðan það að „kveðja sér hljóðs um fundarstjórn forseta“, en þannig gat hver stjórnarandstöðuþingmaður talað á eftir hverri einustu ræðu sem flutt var um málið. Allir vissu að önnur umræða myndi standa von úr viti. Og svo varð að líða nótt frá annarri umræðu yfir í þriðju umræðu og þar gátu menn talað og talað. Það blasti við öllum mönnum sem nokkuð vita til þingstarfa að Alþingi lyki meðferð sinni á frumvarpinu ekki fyrr en löngu seinna. Menn þurftu ekki einu sinni að vera í sambandi við forystu stjórnarandstöðunnar til að vita það. Auðvitað vissi Ólafur Ragnar Grímsson, maður sem árum saman var formaður þingflokks og síðar formaður Alþýðubandalagsins, vel að frumvarpið sem til meðferðar var yrði ekki afgreitt á þeim stutta tíma sem það tekur að skjótast til Kaupmannahafnar, sitja þar brúðkaup og fljúga aftur heim. Hvað eru eiginlega mörg flug daglega milli Keflavíkur og Kaupmannahafnar? Það er ekki eins og Ólafur hefði þurft að fara til Vínarborgar til að sitja brúðkaup Fígarós. Með viðkomu í Sevilla til að skjótast til rakara.
Ólafur Ragnar Grímsson reyndi að halda því fram að enginn viti hvenær umræðum ljúki. Hugsanlega hefðu allir þingmenn stjórnarandstöðunnar getað skráð sig af mælendaskránni og þá væntanlega enginn talað við þriðju umræðu! Og spyrlarnir létu sér hvergi bregða. Örfáum mínútum áður hafði Ólafur Ragnar lýst málinu sem gríðarlega umdeildu. Og ber það svo á borð fyrir fólk, að honum hafi í raun dottið í hug, að stjórnarandstöðuþingmenn, sem undanfarna sólarhringa höfðu rætt fundarsköp fram undir morgun, efnt til andsvara og svara við andsvörum og voru enn tæplega tuttugu á mælendaskrá, að þeir hefðu allir sem einn skráð sig af mælendaskránni og greitt fyrir málinu jafnskjótt og þeirra gamli félagi, Ólafur Ragnar Grímsson, stigi upp í flugvél. Það er hreinlega einstök ósvífni að halda þessu fram. Að Ólafur Ragnar Grímsson hafi trúað þessu og að þetta hafi verið ástæðan fyrir því að Danadrottning fékk að vita með nokkurra klukkustunda fyrirvara að þjóðhöfðingi Íslands myndi ekki sitja brúðkaup ríkisarfans!
Nei þetta hljóta að vera tóm ósannindi hjá Ólafi Ragnari. Miklu líklegri skýring er sú að hann hafi verið að beita embætti sínu til að reyna að hafa áhrif á störf Alþingis, auka þrýstinginn sem ákveðnir fjölmiðlar reyndu að setja á þingmenn til að hræða þá frá stuðningi við tiltekið þingmál. Látum vera þó að fjölmiðlar geri slíkt, jafnvel í máli sem þeir segja að varði eiganda sinn allra manna mest, en að forseti Íslands taki þátt í því – það er eitthvað allt annað og ekki eðlilegt.
Og ætli fréttamenn, sem enginn getur svo sem ætlast til að þekki þær reglur og venjur sem gilda um meðferð mála á þingi, ræði þetta nú frekar við forsetann, eftir að þeir hafa fengið tíma til að hugsa sinn gang?