Harkalegasta aðferðin til að vinna gegn óæskilegum áhrifum samþjöppunar eigendavalds felst í því að brjóta fjölmiðlafyrirtæki, einsog Norðurljós upp með lögum. |
– Össur Skarphéðinsson, í grein í Fréttablaðinu, 20. júní 2004. |
Ég held reyndar, herra forseti, að það ættu að vera hæg heimatökin. Er ekki rétt munað hjá mér að helsti trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar, Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarnefndar, sé enn þá stjórnarformaður Baugs? Ef fortölur duga ekki til, herra forseti, þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda. |
– Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi 22. janúar 2002. |
Það er svo mikið að marka Samfylkinguna. Fyrir tveimur árum lýsti formaður hennar yfir því – og án þess að nokkur einasti þingmaður flokksins mótmælti – að það væri stefna Samfylkingarinnar að opinberri stofnun yrði fengið vald til að skipta fyrirtækinu Baugi upp. Nú þykist flokkurinn vera óður yfir því, að samkvæmt nýsettum lögum verða útvarpsleyfi, eins og þau sem Norðurljós ráða nú, ekki endurnýjuð þegar þau renna út í fyllingu tímans, ef fyrirtækið verður í eigu fyrirtækis sem jafnframt gefur út dagblöð eða er bæði gríðarstórt og svo það sem kallað er markaðsráðandi. Hvaða skoðun sem menn hafa á nauðsyn eða gagnsleysi, kostum og göllum, þeirra breytinga sem Alþingi gerði á dögunum á útvarpslögum og samkeppnislögum, þá hljóta menn að sjá að þau atriði eru miklu veigaminni en það sem var beinlínis stefna Samfylkingarinnar, yfirlýst á Alþingi, fyrir tveimur árum. Hin nýja lagabreyting verður til þess að í framtíðinni, þegar núverandi útvarpsleyfi verða útrunnin, þá verður öllum fyrirtækjum, Baugi sem öðrum, ekki unnt að reka útvarps- og sjónvarpsstöð ef þau jafnframt gefa út dagblað. Stefna Samfylkingarinnar var hins vegar að færa opinberri stofnun vald til að skipta Baugi – og öðrum „slíkum einokunarrisum“ ef þeir eru – einfaldlega upp. Hvaða skoðun sem menn hafa á lagabreytingunum á dögunum þá hljóta þeir að sjá hvað er mikið að marka gagnrýni Samfylkingarmanna eða hversu trúverðugir menn eru þar.
Annað atriði sem segir mikið um það hversu Samfylkingin meinar í raun mikið með hávaðanum sem hún gerir þessar vikurnar vegna lagabreytinganna. Það er þetta með tjáningarfrelsið. Þegar „fjölmiðlafrumvarpið“ var til umræðu á Alþingi hamaðist Samfylkingin á því að með frumvarpinu væri “tjáningarfrelsi” skert verulega. Allt í lagi, góð og gild skoðun sem sjálfsagt er að ræða. Með því er átt við það, að tjáningarfrelsi eiganda fyrirtækis, sem á dagblað, sé skert ef hann má ekki jafnframt eiga sjónvarpsstöð. Það sé nefnilega tjáning hans að eiga ótal fjölmiðla og birta þar það efni sem honum hentar. Allt í góðu. En svo skrifar formaður Samfylkingarinnar líka í Fréttablaðinu síðastliðinn sunnudag, og munum nú að það er spurning um „tjáningarfrelsi“ að maður megi eiga eins marga fjölmiðla og honum sýnist:
Önnur leið Samfylkingarinnar er að tryggja ritstjórnarlegt frelsi fréttastofa allra miðla gagnvart eigendavaldinu. Við höfum því lagt til á Alþingi að fjölmiðlar verði skyldaðir til að setja sér innri reglur sem tryggja sjálfstæði ritstjórna. |
En hvaða tjáningarfrelsi er það að mega eiga fjölmiðil en svo er einhver ritstjórn sem ræður þar ríkjum? Ef það að eiga fjölmiðil er spurning um tjáningarfrelsi, hvernig má þá skylda eigandann til að setja „innri reglur“ til að afsala sér valdi yfir efni fjölmiðilsins? Ef það er tjáningarfrelsi Jóns Jónssonar að eiga segjum bæði sjónvarpsstöð og útbreitt dagblað, hvernig er tjáningarfrelsi hans varið ef Jóna Jónsdóttir ritstjóri getur neitað að birta frá honum efnið? Hvernig tjáir hann sig þá?
Sjá ekki allir, að Samfylkingin meinar ekki neitt með stóryrðunum? Að minnsta kosti ekki það sem hún segist meina.