Mánudagur 21. júní 2004

173. tbl. 8. árg.

U ndanfarið hefur talsvert verið rætt um hvaða reglur réttast sé að setja vegna væntanlegrar þjóðaratkvæðagreiðslu vegna lagasynjunar Ólafs Ragnars Grímssonar. Óhætt virðist að segja að skoðanir séu mjög skiptar. Landbúnaðarráðherra hefur minnt á þær reglur sem borgaryfirvöld settu vegna kosningar borgarbúa um framtíð Reykjavíkurflugvallar og á hinn bóginn hafa stjórnarandstæðingar sett fram gerólíkar hugmyndir. – Guðjón A. Kristjánsson, formaður Frjálslynda flokksins, hefur til dæmis sagt að sér þyki eðlilegt að krefjast að minnsta kosti 25% kjörsóknar og þannig mætti áfram telja. Í forystugrein Viðskiptablaðsins var fjallað um þetta álitamál í síðustu viku og þar bent á að ef nokkur ætti að vilja slík skilyrði þá væri það Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands. Skýringin á því er einföld. Ástæðan sem Ólafur Ragnar gaf fyrir ákvörðun sinni þegar hann synjaði lögunum staðfestingar. Hann sagðist ekki vera að taka afstöðu til laganna og ekki til stjórnvalda. Það væri hins vegar gjá milli þingsins og þjóðarinnar í málinu og þá gjá yrði að brúa.

Vissulega er þjóðaratkvæðagreiðsla undarleg leið til að „skapa sátt“ um mál, því hún er líkleg til að skipta fólki í fylkingar og æsa þær með og móti málefninu sem kosið er um. En gott og vel, ákvörðunarástæða forsetans var sú að það væri svo mikil óánægja þjóðarinnar með hin nýju lög. En ef svo er, þá hlýtur að vera eðlilegt að gera kröfu um að verulega margir landsmenn lýsi andstöðu sinni við lögin í atkvæðagreiðslunni. Ástæðan fyrir því að lögin fá ekki staðfestingu er ekki sú að forsetinn sé á móti lögunum, að hann telji lögin slæm, heldur sú að hann telur að þjóðin sé mjög á móti lögunum. Þegar það er ástæðan, þá er augljóst að mjög óeðlilegt er að lögin falli úr gildi nema sú kenning forsetans sannreynist í atkvæðagreiðslunni með því að mikill fjöldi landsmanna mæti og greiði atkvæði á þann hátt. Það gengur augljóslega ekki að lögum sé synjað staðfestingar vegna þess að „þjóðin“ sé ósátt við þau og svo komi kannski bara 25% landsmanna og greiði atkvæði um þau. Óánægja þjóðarinnar var ákvörðunarástæða forsetans, segir hann sjálfur, og þá þarf hún að koma fram í kosningunni. Forsetinn sjálfur, sem synjar lögunum vegna þess sem hann heldur að sé mikil óánægja þjóðarinnar, hann myndi ekki vilja að lögin féllu úr gildi ef aðeins lítill hluti þjóðarinnar lýsti sig andvígan þeim í kosningum. Eða eins og segir í áðurnefndum leiðara:

Skiptar skoðanir eru um réttmæti þess að setja skilyrði um þátttöku í fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu um lög um eignarhald á fjölmiðlum. Einn er sá maður, sem hlýtur að vera eindregið hlynntur því að slík skilyrði verði sett. Sá maður er forseti Íslands, herra Ólafur Ragnar Grímsson. Meginrök forsetans fyrir að neita að staðfesta lögin voru á þá [l]eið, að ekki væri nægileg sátt um þau. Myndast hefði gjá á milli þingvilja og þjóðarvilja; gjá sem þyrfti að brúa með þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta er álit forsetans. Hann hefur ekki talað við hvern einasta Íslending og spurt um afstöðu til fjölmiðlalaganna. Hann veit ekki fyrir víst, að gjá sé á milli þings og þjóðar í þessu máli. Það kemur ekki í ljós fyrr en gengið verður til atkvæða hvort kjósendur láta þetta mál einhverju varða – hvort þeir telji nauðsynlegt að byggja brú með því að fara á kjörstað og greiða atkvæði.

Setjum sem svo, að þátttaka í fyrirhugaðri þjóðaratkvæðagreiðslu verði í kringum 50%. Það gefur augaleið að forseta Íslands yrði bilt við þá niðurstöðu, enda fæli hún í sér að þjóðin sjálf teldi ekki slíka gjá á milli sín og Alþingis að nauðsynlegt væri að brúa hana með þjóðaratkvæðagreiðslu. Niðurstaðan fæli í sér, að forseti Íslands hefði haft rangt fyrir sér, metið stöðuna vitlaust, beitt synjunarvaldinu í fyrsta sinn á röngum forsendum! Hún fæli með öðrum orðum í sér, að ákvörðun forsetans um að synja lögunum staðfestingar hefði verið algjört slys. Auðvitað hlýtur Ólafur Ragnar Grímsson að vilja koma í veg fyrir slíkt slys. Það er þess vegna nauðsynlegt, forsetans vegna, að tryggja að ákvörðun hans hafi ekki áhrif ef í ljós kemur að Íslendingar láti sig málið litlu varða, að þeir telji ekki ástæðu til að byggja brúna sem forsetinn taldi nauðsynlegt að byggja – og ákvörðun forsetans hafi því verið reist á röngu mati á aðstæðum.
Koma þarf í veg fyrir að forseti Íslands þurfi að sjá eftir ákvörðun sinni og skirrist af þeim sökum hugsanlega við að taka slíka ákvörðun í framtíðinni. Undir þetta hljóta þeir að geta tekið, sem vilja að forsetinn beiti synjunarvaldi sínu þegar tilefni er til.