Ó lafur Ragnar Grímsson rauf nú í lok síðustu viku þagnarbindindi sitt, sem staðið hafði allt frá 2. júní síðastliðnum þegar hann tók umdeildustu ákvörðun sem tekin hefur verið í krafti embættis forseta Íslands. Á þessum vikum hafði Ólafur Ragnar hvað eftir annað neitað fjölmiðlum um viðtöl og ekki með öðrum hætti gert tilraun til þess að skýra ákvörðun sína fyrir almenningi í landinu, jafnvel þótt allt þjóðfélagið hafi logað í umræðum og ágreiningi um málið. Hefur þögn hans verið sérstaklega athyglisverð í ljósi þess að þegar hann lýsti yfir framboði til embættis forseta í marsmánuði tók hann sérstaklega fram að hann hefði í huga að taka virkari þátt í umræðum um þjóðfélagsmál heldur en til þessa og að sér fyndist óeðlilegt að forsetinn svaraði ekki fyrir sig þegar hann yrði fyrir gagnrýni. Nú þegar hans eigin ákvörðun er tilefni harkalegra deilna í þjóðfélaginu og er gagnrýnd með málefnalegum hætti telur hann hins vegar vikum saman hvorki sérstaka ástæðu til að gerast virkur í umræðunni né að svara þeirri gagnrýni sem að honum er beint. Niðurstaðan er því með öðrum orðum sú, að Ólafur Ragnar vill vera virkur í umræðum um þjóðfélagsmál ef og þegar honum sjálfum hentar og hyggst ekki svara málefnalegri gagnrýni nema það þjóni hagsmunum hans sjálfs á þeirri stundu.
„Niðurstaðan er því sú, að Ólafur Ragnar ætlar að halda öllum möguleikum opnum á því að hafa með beinum hætti afskipti af lagasetningu í landinu þegar honum þóknast, án þess að nokkur leið sé á því að átta sig á því fyrirfram hvenær við því megi búast.“ |
En nú hefur Ólafur Ragnar sem sagt rofið þögn sína, fyrst í fjölmiðlum Norðurljósa og síðan í kjölfarið í þeim sem enn eru í eigu annarra aðila. Flaggskip faglegrar fjölmiðlaumfjöllunar á Íslandi, DV, fékk að sjálfsögðu að birta fyrstu ummælin á föstudaginn, á laugardagsmorgun voru birt drottningarviðtöl í sama blaði og jafnframt í Fréttablaðinu og síðdegis þann dag tjáði hann sig svo í beinni útsendingu hjá Ríkisútvarpinu. Í dag hafa svo birst viðtöl í sunnudagsblaði Morgunblaðsins og fréttaskýringaþætti Arnþrúðar Karlsdóttur á Bylgjunni. Hér hefur með öðrum orðum verið um mikla fjölmiðlaútrás að ræða og vera kann að meira bætist við áður en helgin er úti.
Flestir hefðu að óreyndu gert ráð fyrir að Ólafur Ragnar myndi fyrst og fremst nota þessi viðtöl til að skýra ákvörðun sína frá 2. júní nánar og gera ítarlegri grein fyrir hugmyndum sínum um hinn svokallaða málskotsrétt forseta og hvenær forseti geti og eigi að beita honum. Þeirra atriða er að vísu getið, en fá þó minna pláss í viðtölunum heldur en einkalíf hans, sem fjölmiðlar verða þó seint sakaðir um að hafa sveipað þagnarhjúpi á undanförnum árum. Hin takmarkaða umfjöllun um synjun hans varðandi staðfestingu fjölmiðlalaganna bætir í raun litlu við þá yfirlýsingu, sem hann las upp á blaðamannafundinum fræga, og almenningur í landinu er engu nær um forsendur þeirrar ákvörðunar, rökstuðning fyrir henni eða við hvaða aðstæður megi gera ráð fyrir að Ólafur Ragnar taki sambærilegar ákvarðanir í framtíðinni. Þögn hans og loðin svör um atriði af þessum toga eru ekki til þess fallin að skýra afstöðu hans í þessum efnum og gefa sterklega til kynna að hann vilji halda möguleikum sínum til að hlutast til um löggjafarmálefni sem opnustum. Í ljósi forsögunnar kemur það að sjálfsögðu ekki á óvart en hlýtur samt sem áður að vera talsvert umhugsunarefni, bæði fyrir kjósendur í landinu og aðra handhafa ríkisvaldsins.
Það sem liggur fyrir eftir viðtölin við Ólaf Ragnar er í stuttu máli það, að hann telur að forseti Íslands hafi sjálfstætt mat á því hvort hann staðfestir lög eða synjar þeim. Það eru ekki nýjar upplýsingar enda byggði yfirlýsingin 2. júní á þeim skilningi. Í annan stað liggur fyrir að hann synjaði á grundvelli þess að hann teldi að gjá hefði myndast í málinu milli þings og þjóðar. Það kom líka fram 2. júní. Í þriðja lagi kom fram, að hann telur að meta verði hvert mál út af fyrir sig og ómögulegt sé að bera saman aðstæður í mismunandi málum. Þetta er að því leyti nýtt, að hann hefur ekki sagt þetta berum orðum áður, en er hins vegar ekki til þess fallið að gefa almenningi skýrari mynd af því hvenær hann geti hugsað sér að beita þessu ákvæði stjórnarskrárinnar aftur. Í fjórða lagi segir Ólafur Ragnar að hann hafi ekki ráðfært sig við neinn um ákvörðun sína, hvorki stjórnmálaleiðtoga, embættismenn eða fræðimenn, sem er líka nýtt, en vekur að sjálfsögðu spurningar um hversu vel og faglega var staðið að undirbúningi þessarar ákvörðunar, sem átti sér engin fordæmi í lýðveldissögunni, byggði á umdeildu stjórnarskrárákvæði og hefur leitt af sér harkalegur deilur um ýmis grundvallaratriði stjórnskipunarinnar. Í fimmta lagi gerir hann afar lítið úr tengslum sínum við Norðurljós og aðaleiganda þess Baug, þótt öllum sé ljóst að þau hagsmunatengsl myndu leiða til vanhæfis væri hann til dæmis ráðherra. Honum finnst til dæmis engu máli skipta að forstjóri Norðurljósa hafi allt frá 1996 verið lykilmaður á bak við framboð hans og reynir þess í stað að snúa sig út úr málinu með því að benda á að í einhverjum blaðagreinum hafi ekki verið rétt frá því greint hvaða titil viðkomandi maður bar nákvæmlega í kosningabaráttunni. Aðalatriðið er því ekki að forstjóri Norðurljósa hafi verið innsti koppur í búri í kosningabaráttunni, heldur spurningin um það hvort hann hafi verið formaður stuðningsmannafélagsins, formaður fjáröflunarráðs, kosningastjóri, umboðsmaður hans gagnvart kjörstjórnum eða einfaldlega skráður forsvarsmaður félagsins „Stuðningsmenn Ólafs Ragnars Grímssonar“ í félagaskrá Hagstofu Íslands. Þetta er auðvitað útúrsnúningur, enda fela öll þessi tengsl að sjálfsögðu í sér hagsmunaárekstra í sambandi við fjölmiðlamálið. Ekkert víkur hann að þeirri sérkennilegu tilviljun, að lögmaður Norðurljósa skuli jafnframt vera umboðsmaður hans sjálfs í kosningunum næstkomandi laugardag. Varðandi stöðu dóttur sinnar sem lykilstjórnanda hjá Baugi, aðaleiganda Norðurljósa, reynir hann að gera fjölskyldu sína að fórnarlambi og lætur í veðri vaka að með því að benda á þetta sé verið að ráðast á hana með ósæmilegum hætti. Ekkert er fjær sanni. Það að vanhæfi sé fyrir hendi vegna fjölskylduástæðna felur í sjálfu sér ekki í sér neinn áfellisdóm yfir þeim einstaklingum sem í hlut eiga. Vanhæfisreglur af þessu tagi, til dæmis í stjórnsýslulögum og réttarfarslögum, byggja einfaldlega á því að þegar fjölskyldutengsl milli aðila séu orðin svo náin, sé ekki við hæfi að viðkomandi embættismaður taki ákvörðun heldur beri einhverjum öðrum að gera það.
Ólafur Ragnar lét þessu til viðbótar ógert að svara mörgum lykilspurningum, sem fram hafa komið í opinberum umræðum að undanförnu. Í því sambandi skiptir mestu að hann getur þess í engu hvernig hann hafi komist að þeirri niðurstöðu að gjá væri milli þings og þjóðar í þessu máli. Byggði það mat á fjölmiðlaumfjöllun um málið? Byggði það á deilum milli stjórnar og stjórnarandstöðu á Alþingi? Byggði það á einhverjum skoðanakönnunum? Byggði það á kennitölusöfnun Róberts Marshalls og félaga? Eftir stendur að enginn, hvorki ríkisstjórn, alþingismenn né kjósendur í landinu, hafa nokkra hugmynd um það hvenær Ólafi Ragnari Grímssyni gæti dottið í hug að synja lögum frá Alþingi staðfestingar. Niðurstaðan er því sú, að Ólafur Ragnar ætlar að halda öllum möguleikum opnum á því að hafa með beinum hætti afskipti af lagasetningu í landinu þegar honum þóknast, án þess að nokkur leið sé á því að átta sig á því fyrirfram hvenær við því megi búast. Helsta vísbendingin sem fjölmiðlamálið veitir í þeim efnum, er að búast megi við synjun af hans hálfu ef lagasetning hafi með einhverjum hætti áhrif á fyrirtæki eða einstaklinga, sem tengjast honum sjálfum sérstaklega.