Laugardagur 19. júní 2004

171. tbl. 8. árg.

N eðanjarðarhagkerfið, óformlega hagkerfið, svarti markaðurinn eða hvað menn nú vilja kalla þann hluta hagkerfisins sem ekki er undir eftirliti hins opinbera, er til umfjöllunar í nýjasta tölublaði tímaritsins The Economist. Þar er sagt frá rannsóknum á umfangi þess hluta hagkerfisins sem ekki greiðir skatta og fylgir settum opinberum reglum og afleiðingunum af miklu umfangi þessa hluta hagkerfisins. Í The Economist kemur fram að neðanjarðarhagkerfi OECD-ríkjanna er talið vera um 18% af hagkerfinu í heild, en í ýmsum öðrum ríkjum sé það mun hærra, jafnvel meirihluti hagkerfisins. Ástæðurnar fyrir því að menn kjósa neðanjarðarhagkerfið fremur en opinbera hagkerfið eru tiltölulega einfaldar. Skattar eru stærsti hluti skýringarinnar, en auk þeirra skipta ýmsar reglur hins opinbera máli, því að kostnaðarsamt getur verið að fylgja þessum reglum, ekki síður en að greiða skatta.

The Economist veltir því upp hvort neðanjarðarhagkerfið sé ekki bara hið besta mál, en vísar svo í nýlega rannsókn eftir Diana Farrell hjá McKinsey Global Institute sem sýnir að fylgifiskur umfangsmikils neðanjarðarhagkerfis geti verið lægri framleiðni í hagkerfinu í heild. Neðanjarðarfyrirtækin séu gjarnan lítil til að hið opinbera verði þeirra ekki vart, jafnvel þó að hagkvæmara væri að fyrirtækin væru stærri. Afleiðingin af háum sköttum og umfangsmiklum reglum er samkvæmt þessu ekki aðeins sú að draga úr þrótti þeirra fyrirtækja sem starfa uppi á yfirborðinu og þar með að spilla lífskjörum. Önnur afleiðing er að draga óbeint kraft úr hagkerfinu með því að þvinga framleiðsluna inn í fyrirtæki undir yfirborðinu þar sem framleiðni er minni en uppi á yfirborðinu. Neikvæðu afleiðingarnar eru því í raun tvöfaldar, bæði beinar og óbeinar. Lausnin á þessu vandamáli, sem er raunverulegt hér á landi eins og annars staðar, er afar einföld, en mörgum er hún þó mjög á móti skapi. Lausnin er að lækka skatta og einfalda regluverkið sem fyrirtækjunum er gert að starfa eftir.