Föstudagur 18. júní 2004

170. tbl. 8. árg.

Undanfarið hafa fréttamenn í sífellu leitað til eins af varaþingmönnum Samfylkingarinnar, Eiríks Bergmanns Einarssonar að nafni, og fengið skoðanir hans á ýmsum málum. Vitaskuld er ekkert út á að það að setja að leitað sé sjónarmiða hans eins og annarra stjórnmálamanna. Hitt er sérkennilegra, að þegar hann er kynntur þá er aldrei minnst á að hann sé varaþingmaður Samfylkingarinnar heldur er hann kynntur sem „Eiríkur Bergmann, sérfræðingur í Evrópumálum“. Nú er alveg rétt að Eiríkur hefur talað máli Evrópusambandsins hér á landi undanfarin ár, en eitthvað er nú einkennilegt við þessar kynningar, eða kynningarleysi á honum. Sérstaklega þegar horft er til þess, að iðulega er verið að leita til hans til að fá skoðun á umdeildum málum en ekki verið að biðja hann um einfalda uppflettingu í gögnum, eitthvað sem ekki verður deilt um. Þannig fóru fréttamenn til þessa „sérfræðings í Evrópumálum“ og fengu frá honum mikil sjónarmið um þjóðaratkvæðagreiðslur og hvaða skilyrði ætti að setja og ekki setja fyrir gildi þeirra, og allt án þess að þess yrði getið aukateknu orði að sérfræðingurinn er jafnframt varaþingmaður eins stjórnmálaflokksins.

Önnur kynning, reyndar fremur nýbyrjuð að því er virðist, er að kalla Sigurð Líndal fyrrverandi prófessor, „sérfræðing í stjórnskipunarrétti“. Stöð 2 er farin að nota þessa kynningu upp á síðkastið og því oftar sem skoðanir hans þykja æskilegri. Síðan hvenær er Sigurður Líndal sérfræðingur í stjórnskipunarrétti? Hefur hann eitthvert próf í honum umfram aðra lögfræðinga? Þótt próf segi auðvitað fátt út af fyrir sig. Var hann kannski prófessor í stjórnskipunarrétti? Þótt slíkar stöður segi auðvitað fátt út af fyrir sig. Eða getur verið að stjórnskipunarréttarprófessorinn hafi verið Gunnar G. Schram en ekki Sigurður? Getur verið að „sérfræðingurinn í stjórnskipunarrétti“ hafi kennt „almenna lögfræði og ágrip af réttarsögu“?