Þ að er alltaf verið að fullyrða eitthvað. Í gær fjallaði Vefþjóðviljinn um grein sem Fréttablaðið hafði birt daginn áður eftir Herdísi Helgadóttur, en Herdís fór mikinn vegna skipunar nefndar til að fara yfir álitamál vegna þjóðaratkvæðagreiðslu um tiltekna lagabreytingu. Í gær birti DV svo grein eftir Egil Helgason, þar sem ekki vantar fullyrðingarnar heldur. Egill fjallar talsvert um lögfræðinganefndina sem skipuð var, en er ekki hrifinn af þeim sem þar sitja.
Maður staldrar líka við útnefningarnar í lögfræðinganefndina sem á að fjalla um þjóðaratkvæðagreiðsluna. Þetta eru menn sem taka við fyrirmælum, hugsa ekki sjálfstætt nema þeir séu sérstaklega beðnir um það, tæknimenn en ekki fræðimenn. |
Menn sem taka við fyrirmælum, hugsa ekki, tæknimenn, ekki fræðimenn. Hvað ætli Egill Helgason hafi nú fyrir sér í þessu? Formaður nefndarinnar, Karl Axelsson hæstaréttarlögmaður, situr nú til dæmis í óbyggðanefnd, sem hefur það hlutverk eins og menn vita að úrskurða um landakröfur vegna þjóðlendulaganna en þar eru miklir hagsmunir í húfi og takast þar einkum á ríkið og bændur. Skemmst er frá því að segja, að óbyggðanefndin, þar sem Karl er einn þriggja manna, hefur fram að þessu hafnað nær öllum kröfum ríkisins og fjármálaráðherra hefur nú höfðað mál til að fá hnekkt úrskurðum þess manns sem Egill Helgason hins vegar veit að hugsar ekki heldur tekur við fyrirmælum. Annar fulltrúi í lögfræðinganefndinni er Andri Árnason hæstaréttarlögmaður. Hann er einnig formaður kærunefndar jafnréttismála sem hefur undir formennsku hans ítrekað komist að þeirri niðurstöðu að stjórnvöld hafi ekki uppfyllt ákvæði jafnréttislega, og hafa þau álit nefndarinnar vakið takmarkaða hrifningu stjórnvalda eins og menn vita, það er að segja aðrir menn en Egill Helgason, því hann veit að Andri Árnason hugsar ekki heldur tekur við fyrirmælum. Og hinir lögfræðingarnir tveir, Kristinn Hallgrímsson hæstaréttarlögmaður og Jón Sveinsson hæstaréttarlögmaður, hvernig ætli þeim hafi gengið í lögmennsku um áratugaskeið, gangandi hugsunarlaust fyrir skipunum? Látum þetta nægja að sinni um þessa fullyrðingu Egils en snúum okkur að þeirri næstu:
Tveir þessara manna stunda kennslu við Háskólann í Reykjavík, annar sem lektor, hinn sem stundakennari. Við Háskóla Íslands, æðstu menntastofnun landsins, er ekkert talað – það virðist vera óþarfi að akademískir lögskýrendur komi að þessu máli. Forsætisráðherrann hefur raunar lengi haft illan bifur á Háskólanum – og svo vill hann kannski ekki mikið hlusta á skoðanir lærðustu lögfræðinga Íslands, Jónatans Þórmundssonar, Eiríks Tómassonar, Bjargar Thorarensen og Sigurðar Líndals. |
Það er sem sagt verið að sækja kennara úr Háskólanum í Reykjavík en ekkert gefið fyrir Háskóla Íslands. Ekki er reyndar gott að segja af hverju Egill er fyrirfram þeirrar skoðunar að kennarar Háskólans séu verri en þeir úr Háskóla Íslands, enda eru ýmsir kennarar við Háskólann í Reykjavík fyrrum kennarar við lagadeild Háskóla Íslands. Við lagadeild Háskólans í Reykjavík kennir til dæmis bæði fyrrverandi prófessor og fyrrverandi lektor lagadeildar Háskóla Íslands. En horfum nú fram hjá því en lítum á annað. Formaður lögfræðinganefndarinnar, Karl Axelsson, er einmitt lektor við lagadeild Háskóla Íslands og hefur kennt þar árum saman, þó Egill Helgason fullyrði hið gagnstæða og dragi svo ályktanir af eigin fullyrðingu.
Eins taldi Egill upp lærðustu lögfræðinga Íslands, Jónatan Þórmundsson, Eirík Tómasson, Björgu Thorarensen og Sigurð Líndal sem reyndar hefur látið af prófessorsstarfi fyrir þremur árum. Þessir lærðustu lögfræðingar landsins eiga það meðal annars sameiginlegt að enginn þeirra hefur lokið doktorsprófi í lögum, eins og margir íslenskir lögfræðingar hafa gert, þar á meðal samkennarar þessara manna. Og hvað með annað og minna framhaldsnám? Björg Thorarensen hefur lokið svokallaðri LLM gráðu en hvað með hina af þessum þó lærðustu lögfræðingum Íslands? Samkvæmt því æviágripi sem þeir gefa sjálfir af sér, þá hafa þeir stundað framhaldsnám á einhverju sviði lögfræðinnar en ekki kemur fram hvort því hefur lokið með prófgráðu. Sem er vitaskuld alveg í góðu lagi og engin ástæða til að efast um að þetta séu mætir lögfræðingar, hver og einn fær á sínu sviði, Jónatan í refsirétti, Eiríkur í réttarfari og Sigurður í hinu og þessu. En að þetta séu lærðustu lögfræðingar landsins, það er tóm vitleysa. – Og auðvitað dettur Agli Helgasyni ekki í hug að skýringin á því að þessir menn séu ekki í hópnum sé sú að þeir hafi verið búnir að tala sig hása um þau álitaefni sem nefndin á að taka lögfræðilega afstöðu til.