Föstudagur 11. júní 2004

163. tbl. 8. árg.

Ígær birti Fréttablaðið grein eftir Herdísi Helgadóttur nokkra. Greinin er stutt, en engu að síður er margt í henni dæmigert fyrir þjóðmálaumræðu sem sumir stunda þessa dagana. Greinin nefnist „Vér mótmælum allar“ og hefst á þessum varfærnu orðum: „Öllum íslenskum konum er nú misboðið enn og aftur vegna skipunar þeirrar nefndar sem ráða skal hvernig komandi þjóðaratkvæðagreiðslu skal háttað“. Varla þarf að eyða mörgum orðum á upphafsfullyrðinguna, en væntanlega sjá flestir hversu fráleitt það er að öllum íslenskum konum misbjóði nokkur skapaður hlutur, og auðvitað ekki einhver nefndarskipan. En þetta með allar íslenskar konur er ekki eina ranga fullyrðingin í fyrstu setningunni, þótt setningin sé stutt. Herdís segir nefnilega að nefnd þessi eigi að ráða því „hvernig komandi þjóðaratkvæðagreiðslu skal háttað“, en það er vitaskuld rangt þar sem löggjafinn mun taka þá ákvörðun, þó hann muni vafalaust líta til sjónarmiða nefndarinnar þegar hann gerir upp sinn hug. Í næstu málsgrein fullyrðir Herdís að ekki aðeins séu í nefndinni fjórir karlmenn heldur verði þeim „til aðstoðar sá fimmti, aðstoðarmaður forsætisráðherra“. Einnig þetta er rangt, þó það sé ekkert stórmál, því samkvæmt fréttum þá er starfsmaður nefndarinnar ekki aðstoðarmaður ráðherrans heldur ópólitískur embættismaður.

Herdís kvartar yfir því að engin kona hafi verið fengin í lögfræðinganefndina og fullyrðir að „margar konur“ séu „vel lærðar í lögum, stjórnmálum, mannréttindamálum ofl., sumar jafnvel betur að sér í ýmsum málaflokkum en karlar, sjá t.d. Herdísi Þorgeirsdóttur og margar aðrar.“ Því miður nefnir Herdís ekki þessar mörgu aðrar, því þó að þær séu vissulega til þá hefði verið heppilegt ef nöfn þeirra hefðu verið nefnd, því ábendingin um Herdísi Þorgeirsdóttur hefur þann smávægilega galla að Herdís er ekki lögfræðingur, þó hún sé eflaust hinn mesti fræðimaður, en gera má ráð fyrir að helst hafi verið sóst eftir lögfræðingum í nefndina.

Því næst gagnrýnir Herdís harðlega þá „misbresti“ sem verði á lýðræðinu „þegar ráðherrar horfa framhjá niðurstöðum opinberra stofnana sem gegna því hlutverki að gæta réttlætis eins og Siv Friðleifsdóttir gerði þegar hún undirritaði Kárahnjúkasamninginn á sínum tíma“. Það virðist ekki fara á milli mála að Herdís er afar ósátt við embættisverk Sivjar Friðleifsdóttur og allt í lagi með það vitaskuld, þó fremur erfitt sé að átta sig á því hvernig sú gagnrýni verður sérstök röksemd fyrir auknum áhrifum kvenna í stjórnmálum, svona þannig lagað. Annað sem einnig er fremur óljóst, er „Kárahnjúkasamningurinn“ sem Siv „undirritaði á sínum tíma“. Hvaða samningur var það? Af hverju undirritaði umhverfisráðherra hann? Og hvenær var sá tími?

Kennarar hafa með sér samtök. Sveitarfélög hafa einnig með sér ýmis samtök, þar á meðal launanefnd. Samtök kennara hafa það að yfirlýstu markmiði að kennarar hafi verðsamráð um þjónustu sína. Samráðið er styrkt með skylduaðild að samtökum kennara svo enginn kennari hlaupist nú undan merkjum og fari að biðja um meira eða minna fyrir kennsluna en samráðið segir til um. Launanefnd sveitarfélaga hefur það sömuleiðis að markmiði að sveitarfélögin bjóði kennurum öll sömu greiðslu fyrir þjónustuna sem þeir veita.

Öllu meira verður samráðið ekki. Og enginn segir neitt við því. Sem er merkilegt á tímum sjö ára rannsókna á verðsamráði fyrirtækja.