We Poles owe him freedom. |
– Lech Walesa, leiðtogi verkalýðshreyfingarinnar Samstöðu og síðar forseti Póllands. |
Þ
„Politics is supposed to be the second oldest profession. I have come to realize that it bears a very close resemblance to the first.“ Ronald Reagan, 1911-2004 |
að er sennilega fremur fátítt að menn þakki erlendum leiðtogum frelsi eigin lands. Lech Walesa, sem sjálfur lagði nú talsvert að mörkum til að Pólland mætti ná frelsi undan kommúnismanum, velkist hins vegar ekki í vafa um það hver það er sem Pólverjar standa í mestri þakkarskuld við. Sömu sögu segja ófáir þeirra sem andæfðu þeim kommúnísku stjórnvöldum sem stýrðu Austur-Evrópu með harðri hendi allt þar til fyrir hálfum öðrum áratug. Þó intelligensían á Vesturlöndum muni auðvitað ekki viðurkenna það fremur en annað, þá vita menn eins og Lech Walesa vel hvílíka þýðingu styrkur og staðfesta Ronalds Reagans Bandaríkjaforseta hafði á þá þróun mála á níunda áratug síðustu aldar, sem lauk með því að Austur-Evrópa fékk frelsi undan kommúnismanum. Alla forsetatíð Reagans talaði intellígensían á Vesturlöndum um hann sem stríðsótt fífl, mann sem varla gæti hugsað heila hugsun. Vinstrimönnum í Evrópu, einkum í hinum hefðbundnu kjaftastéttum, þótti heimsfriðnum ekki stafa meiri hætta af öðrum manni en þessum. Milljónir manna gengu „friðargöngur“ í Evrópu og kröfðust þess að dregið yrði stórlega úr vörnum Vestur-Evrópu. Þau mótmæli sem nú fara reglulega fram í sömu borgum gegn stefnu Bandaríkjanna í alþjóðamálum – og oft skipulögð af sömu mönnum og áður kröfðust einhliða afvopnunar Vesturveldanna – eru hreint grín hjá því sem fór fram á níunda áratugnum. En orðbragðið um Bandaríkjaforseta er að vísu svipað.
„Ronald Wilson Reagan var einn allra besti þjóðarleiðtogi sem tuttugasta öldin færði sögunni og hans mega lengi minnast með mikilli virðingu þeir sem raunverulega unna frelsi mannsins.“ |
Á sjöunda áratug síðustu aldar varð það mikil tíska í bandarískum háskólum að stúdentar einbeittu sér að pólitískri baráttu og það af mikilli heift. Í flestum fylkjum Bandaríkjanna forðuðust stjórnvöld að lenda í deilum við hina herskáu stúdenta sem jafnan létu eins og sér einum hefði verið útdeilt réttlætiskennd að nokkru marki. Í flestum fylkjum horfðu stjórnvöld aðgerðalaus upp á verkföll og uppþot og gerðu ekkert til að hjálpa þeim mikla fjölda stúdenta sem ekkert vildi af vita af hávaðanum í hinum ofstækisfulla minnihluta félaga sinna. Í Kaliforníu sat hins vegar ríkisstjóri sem sem hiklaust bauð forystumönnum stúdentahreyfinganna birginn, vefengdi málflutning þeirra kröftuglega og lét þá ekki komast upp með að taka völdin í skólunum. Ríkisstjórinn ávann sér virðingu fólks um öll Bandaríkin en hann ávann sér einnig hatur og heift stúdentanna sem enst hefur fram á þennan dag. Þeir sem virkastir voru í stúdentabaráttu sjöunda áratugarins eru nú sagnfræðingar, blaðamenn og „stjórnmálaskýrendur“ og þeir setja sig sjaldan úr færi að gera upp reikningana við sinn forna fjanda. Sama er að segja um vinstri intellígensíuna víðar. Hún veit að þessi væni maður hvorki tilheyrði henni né kærði sig hið minnsta um hana eða hennar álit. Og það sem meira var, um áratugaskeið var hann nokkurn veginn sá eini í hópi stjórnmálamanna sem ógnaði veldi hennar og benti óhikað á hve sjálfbirgingur hennar var innistæðulaus.
Ronald Wilson Reagan varð síðar einn ágætasti og vanmetnasti forseti sem Bandaríki Norður-Ameríku hafa eignast. Hann var óvenjulegur forseti á fjölmargan hátt og skipti þá ekki öllu hvort hann var borinn við forvera sína úr Repúblikanaflokknum eða þá forseta sem demókratar höfðu lagt til. Þeir flokksbræður hans sem setið höfðu í Hvíta húsinu um skeið áratugina á undan, Ford, Nixon og Eisenhower, voru til dæmis annarrar gerðar. Fyrir hálfu fjórða ári, á níræðisafmæli Reagans leyfði Vefþjóðviljinn sér að bera þessa fjóra forseta, Reagan og svo hina þrjá, saman með þessum hætti:
Eisenhower, Nixon og Ford, voru til dæmis allir annars eðlis. Þeir höfðu allir áhyggjur af því hve ríkiskerfið var orðið þungt í vöfum og óskilvirkt og þeir vildu endurbæta það, ná kostnaði niður og gera kerfið einfaldara. Reagan hins vegar, hann beinlínis efaðist um og vefengdi hlutverk ríkisins við að auka „velferð“ þegnanna. Hann var áratugum saman talsmaður þess að ríkið ætti sem mest að sjá borgarana í friði og treysta þeim sjálfum til að leita hamingjunnar, hverjum með þeim hætti sem hann kysi, svo lengi sem þeir gengju ekki á sama rétt annars. Hann hafnaði því hins vegar ekki að ríkið hjálpaði þeim sem ekki gætu hjálpað sér sjálfir en vildi að hjálpin beindist að því að gera menn sjálfbjarga. Þá var hann eins og menn vita þeirrar skoðunar að tryggja bæri öryggi borgaranna og að sterkar landvarnir væru Bandaríkjunum nauðsynlegar. Reagan hafði einnig sínar skoðanir á skattamálum. Hann vildi að borgarnir fengju að halda sem mestu eftir af tekjum sínum en að ríkið stillti sig sem mest um að skattleggja þá. Strax á ríkisstjóraárum Reagans kom svo í ljós hvað hann taldi gera ætti við fjárlagaafgang: Skila honum aftur til þegnanna. Ráðgjafar Reagans og félagar hans í hópi stjórnmálamanna vissu fyrst ekki hvaðan á þá stóð veðrið þegar ríkisstjórinn hélt því fram að fjárlagaafgangi ætti að skila aftur í stað þess að finna fyrir ný og „verðug framfaramál“ sem „allir“ hefðu getað orðið ánægðir með. En Reagan stóð fastur á sínu eins og löngum síðar og þegar hann síðar varð forseti Bandaríkjanna stóð hann fyrir myndarlegri skattalækkun sem átti mikinn þátt í þeirri uppsveiflu sem síðar varð í landinu og sem Bandaríkjamenn njóta enn þann dag í dag. |
Fólk hefur ýmsar hugmyndir um Reagan og stjórnartíð hans, enda vantar það ekki að margar hafa verið dregnar upp í áranna rás og í misjöfnum tilgangi. Ein kenningin er sú, að að Reagan hafi staðið fyrir þá hugsun að hver sé sjálfum sér næstur, betur stætt fólk loki sig af í sérstökum hverfum, hinir haldi til í skemmtigörðum með dagblöð sér til skjóls og enginn vilji af þeim vita. Þessi kenning er hins vegar ekki rétt, þó mönnum kunni að vera nokkur vorkunn sem leggja trúnað á hana. Vera má að kenningin hafi fengið vængi vegna þess að það gerðist í stjórnartíð Reagans að dómstólar úrskurðuðu að fólki væri heimilt að hafast við á götum borganna. Lögreglan fjarlægir því ekki þá sem það gera, eins og hún gerir til dæmis víða í Evrópu. Húsnæðislausir urðu því sýnilegri en áður þó þeim hafi ekki fjölgað.
Þá sýna tölur að árin 1955-1980 jukust heildarframlög Bandaríkjamanna til mannúðarmála um 3,3% á ári. Í stjórnartíð Reagans jukust þau aftur á móti um 5,1% ári. Vitaskuld er erfitt ef mögulegt að mæla mannúð sérstaklega en ef hana má mæla í fjárútlátum til mannúðarmála þá jókst hún í Bandaríkjunum í stjórnartíð Reagans.
Þeir sem hafa áhuga á tölum – því slíkt fólk er til – geta svo velt fyrir sér ýmsum öðrum tölum og borið við tölur um sama frá stjórnartíð annarra en Reagans. Á tíunda áratug síðustu aldar lækkuðu meðal fjölskyldutekjur í Bandaríkjunum um 5,5% að raunvirði, frá hámarki sínu árið 1989. Í tíð Reagans höfðu þessar tekjur vaxið um 11%. Framleiðni óx um 0,4% á ári í stjórnartíð Williams Clintons, svo dæmi sé tekið, en um 1,5% í tíð Reagans. Í tíð Reagans fjölgaði störfum um 2% á ári, en um 1,1% á valdaárum Clintons. En þá óttast kannski einhver að skattalækkanir Reagans hafi orðið til þess að skatttekjur hafi vaxið hægar á níunda áratugnum en eftir skattahækkanir tíunda áratugarins. Raunin er hins vegar sú, að skatttekjur jukust hraðar eftir skattalækkanir Reagans en skattahækkanir tíunda áratugarins. Það kann að koma á óvart að lægri skattar hafi skilað meiri tekjum, en ástæðan er meðal annars sú að skattalækkun hleypir krafti í atvinnulífið, eykur hagvöxt og gerir fólk viljugra til að greiða skattinn en dregur úr líkum þess að það reyni að bjarga fjármunum sínum frá skattheimtumönnunum.
Menn geta auðvitað alltaf deilt um tölur. Þó mikill árangur hafi náðst á mörgum sviðum í stjórnartíð Ronalds Reagans, þá er mikilvægasti árangurinn sjálfsagt ekki mældur í þeim tölum sem hagstofur senda frá sér og hagfræðingar skilja og misskilja fram og til baka. Það sem skiptir máli er að Ronald Reagan breytti viðhorfum manna til hins opinbera. Og ekki skipti staðfesta hans í varnarmálum – þvert ofan í þaulskipulagðar úrtöluraddir vinstri manna um allan heim – minna máli. Hún flýtti fyrir falli Sovétríkjanna og frelsun íbúa Austur-Evrópu. Þó kommúnisminn, rétt eins og vægari hliðarstefnur hans, hefði vafalítið að lyktum skilað sér þangað sem hann á heima, þá er enginn vafi á því að það var vegna staðfestu Ronalds Reagans, manns sem aldrei lét undan stórfelldum árásum þeirra sem jafnan þóttust tala í nafni þjóðanna, sem hundruð milljóna manna losnuðu friðsamlega undan oki hans, löngu fyrr en ella hefði orðið. Ronald Wilson Reagan var einn allra besti þjóðarleiðtogi sem tuttugasta öldin færði sögunni og hans mega lengi minnast með mikilli virðingu þeir sem raunverulega unna frelsi mannsins.