Þ eir fjölmiðlar sem segja fréttir, eða að minnsta kosti segjast segja fréttir, eru afar áhrifamiklir. Þeir hafa mikil áhrif á þær skoðanir sem fólk myndar sér á mönnum og málefnum, enda ráða fjölmiðlarnir miklu um það frá hverju er sagt og hverju ekki, við hverja er talað og hverja ekki, hvað er sagt til skýringar og hvað ekki, og svo framvegis og svo framvegis. Það er hrein firra að hinn almenni áhorfandi eða lesandi hafi nokkra aðstöðu til að meta sjálfur gildi þess sem sagt er, hugsanlegar skýringar þess að ekki er eitthvað annað sagt, eða kanna gildi staðhæfinga blaða- og fréttamanna. Vegna hinna miklu áhrifa sem fjölmiðlar hafa, þá er mikilvægt að þeir veiti hver öðrum aðhald, en á því hefur verið verulegur skortur undanfarin ár, og ekki batnar það við það er fleiri og fleiri fjölmiðlar komast í eigu sama aðilans. Mikilvæg undantekning frá þeirri að-því-er-virðist óskráðu reglu, eru fjölmiðlapistlar Ólafs Teits Guðnasonar sem birtast í hverju föstudagsblaði Viðskiptablaðsins. Þar er fjallað um íslenska fjölmiðla með þeim hætti að það er mjög rík ástæða til að hvetja allt áhugafólk um þjóðfélagsmál til að kynna sér þessa pistla Ólafs Teits.
Á fimmtudagskvöldið talaði fréttastofa Stöðvar 2 við Jónatan Þórmundsson, prófessor í refsirétti, sem gagnrýndi harðlega skoðanir Þórs Vilhjálmssonar, fyrrverandi forseta Hæstaréttar, prófessors í réttarfari og dómara við mannréttindadómstól Evrópu um áratugaskeið, á svokölluðu synjunarvaldi forseta Íslands. Fréttastofa Stöðvar 2 tók sérstaklega fram, þá væntanlega sem mikilvægt innlegg í málið, að Jónatan hefði verið samherji Þórs í undirskriftasöfnuninni Vörðu landi, fyrir 30 árum. Alveg rétt – hvaða máli sem það skipti nú – að Jónatan var samherji Þórs í því máli. En fyrst það var skyndilega orðið atriði í þessari frétt, af hverju sleppti fréttastofa Stöðvar 2 þá að nefna það að Jónatan barðist með Ólafi Ragnari Grímssyni í Möðruvallahreyfingu Framsóknarflokksins og þeir eru góðir félagar? Hvorug staðreyndin gerir sjónarmið Jónatans röng – og ekki rétt heldur – en af hverju þótti Stöð 2 aðeins önnur þeirra koma áhorfendum við? Og hvað halda menn að hátt hlutfall áhorfenda hafi nú með sjálfum sér rifjað upp vinskap þeirra Jónatans og Ólafs Ragnars á sama tíma og þeir hafa kinkað kolli og hugsað „jahá, meira að segja félagar Þórs styðja hann ekki í þessu, þetta er bara eitthvert rugl í manninum“?
Í þessari frétt Stöðvar 2 var svo sem ekkert rangt út af fyrir sig. Það var bara sögð ein staðreynd en annarri sleppt. Þetta smáatriði – og svona smáatriði eru daglegt brauð í íslenskum fjölmiðlum, þó þau séu vissulega mun algengari í sumum en öðrum, leiðir svo aftur hugann að hinum fróðlegu pistlum Ólafs Teits Guðnasonar í föstudagsblöðum Viðskiptablaðsins. Í nýjasta pistlinum segir hann meðal annars:
Fæst af því sem er að í vinnubrögðum fjölmiðla vekur minnstu athygli, enda er nánast ómögulegt að vera á varðbergi gagnvart því öllu. Jafnvel sérstakar athuganir fræðimanna, líkt og sú sem Háskólinn á Akureyri, gerði á fréttaflutningi Stöðvar 2 og Sjónvarpsins af fjölmiðlafrumvarpinu, segja ekki alla söguna. Dæmi: Á föstudaginn var sagði fréttamaður Stöðvar 2 frá því, eins og ekkert væri sjálfsagðara, að skattalækkanir stjórnarflokkanna hefðu ekki verið kynntar á Alþingi fyrir þinglok eins og fjármálaráðherra hefði þó lofað í eldhúsdagsumræðum. Það var sem sagt fullyrt, að minnsta kosti tvisvar, að stjórnin hefði svikið nýgefið loforð með því að kynna ekki þessi plögg. Í mælingu af því tagi sem Háskólinn á Akureyri framkvæmdi yrði ekki gerð minnsta athugasemd við þessa frétt. Rannsóknin var framkvæmd þannig, að tveir nemendur við skólann voru fengnir til að meta hvort tilteknar fréttir væru hlutdrægar. Engin hlutdrægni blasir við í frétt Stöðvar 2 um skattalækkanirnar. Og líklega muna fáir ræðu fjármálaráðherra orðrétt. Menn treysta því einfaldlega sem fullyrt er um málið. Í inngangi fréttarinnar á Stöð 2, sem var næstfremsta frétt (enda svikin loforð talsverð tíðindi), sagði Páll Magnússon: „Skattalækkunartillögur ríkisstjórnarinnar, sem fjármálaráðherra hafði lofað fyrir þinglok, hafa ekki enn verið lagðar fram.“ Í fréttinni sagði svo fréttamaður: “Á lokadegi [þingsins] hafa ekki enn verið lagðar fram tillögur til skattalækkunar. Geir Haarde fjármálaráðherra lofaði tillögum um skattalækkanir fyrir þinglok í eldhúsdagsumræðum á mánudaginn.“
Gerði hann það, já? Það sem Geir Haarde sagði var þetta: „Ríkisstjórnarflokkarnir vinna nú að lokagerð tillagna um skattalækkanir og verður vonandi hægt að kynna Alþingi þau áform á næstu dögum.“ Það gengur því meira á en margan grunar. |
Margt fleira og meira sláandi er í pistli Ólafs Teits í Viðskiptablaðinu og minna hinir vikulegu pistlar hans á það tvennt, hversu margt er að í vinnubrögðum á íslenskum fjölmiðlum og svo það hversu ofboðslega lítið aðhald hinu svokallaða „fjórða valdi“ er sýnt á Íslandi. Flestir fjölmiðlamenn láta sér nægja að tala hver við annan um eigin „fagmennsku“.