Ég held reyndar, herra forseti, að það ættu að vera hæg heimatökin. Er ekki rétt munað hjá mér að helsti trúnaðarmaður ríkisstjórnarinnar, Hreinn Loftsson, formaður einkavæðingarnefndar, sé enn þá stjórnarformaður Baugs? Ef fortölur duga ekki til, herra forseti, þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni að Samkeppnisstofnun eigi að fá í hendur þau tæki sem hún þarf til þess að skipa fyrir um breytingar, þar á meðal að skipta upp slíkum einokunarrisum ef hún telur þess þörf til þess að vernda hagsmuni neytenda. |
– Össur Skarphéðinsson, formaður Samfylkingarinnar, á Alþingi 22. janúar 2002. |
T
„…þá er það skoðun okkar í Samfylkingunni…“ |
uttuguogsjö mánuðir. Það eru ekki nema rétt rúmlega tvö ár síðan formaður Samfylkingarinnar lýsti því hátíðlega yfir á Alþingi að það væri stefna flokksins að opinberri stofnun yrði fengin í hendur „þau tæki sem hún þarf“ til að skipta fyrirtækinu Baugi hf. upp. Þarna átti nú ekki að láta sér nægja að setja einhverjar skorður við útþenslu fyrirtækisins, nei það var nú hvorki meira né minna en „skoðun okkar í Samfylkingunni“ að hið opinbera ætti að fá þau tæki sem þyrfti til að skipta fyrirtækinu upp. Og það var eins og Baugur var þá. Það eru liðnir tuttuguogsjö mánuðir frá því að Samfylkingin vildi að hið opinbera skipti Baugi upp og hvað hefur breyst síðan þá? Jú það sem hefur helst breyst er þetta: 1. Baugssamsteypan hefur hagnast um milljarða króna með ýmsum viðskiptum. 2. Baugur hefur verið skráður af markaði og er því ekki lengur í undir reglum Kauphallarinnar. 3. Baugur hefur eignast tvö af þremur dagblöðum landsins og margar sjónvarps- og útvarpsstöðvar. 4. Samfylkingin má nú ekki heyra á það minnst að fyrirtækinu sé skipt upp.
Vefþjóðviljinn þarf vart að ítreka þá afstöðu sína að hans vegna mega fyrirtæki verða eins stór og neytendur kjósa að gera þau. Fyrirtæki eru ekki markaðsráðandi heldur neytendur. Það er því aldeilis fráleitt að stjórnmálamenn taki völdin af neytendum með því að setja „samkeppnislög“ um æskilega stærð og gerð fyrirtækja. En það er hin feiknarlega afstöðubreyting Samfylkingarinnar sem er raunverulegt rannsóknarefni. Hvernig má það eiginlega vera að næst stærsti stjórnmálaflokkur landsins kúvendi svo gersamlega í slíku máli, án þess að gera á nokkurn hátt grein fyrir því hvað valdi eiginlega þessum sinnaskiptum? Hvað veldur því að þessi stjórnmálaflokkur fer á skömmum tíma frá því að vilja brjóta upp tiltekna fyrirtækjasamsteypu, yfir í það að ekki megi orðinu halla á hana, hvað þá meira? Hvað getur eiginlega valdið því? Ekki hefur flokkurinn skipt um skoðun á öðrum svipuðum málum. Hann vill efla „samkeppnisyfirvöld“ að öllu leyti nema þessu. Og ekki hefur Baugur nú dregið saman seglin á þeim mánuðum sem liðnir eru síðan Samfylkingin sagðist vilja skipta fyrirtækinu upp. Hvernig stendur á því að fjölmiðlar velta þessu ekki einu sinni fyrir sér?
Fyrir nokkrum árum lögðu tveir þingmenn, Ásta Ragnheiður Jóhannesdóttir og Lilja Guðmundsdóttir, fram þingsályktunartillögu um „mótun opinberrar stefnu í fjölmiðlun“. Lilja sat þá sem varamaður og er horfin af þingi en Ásta Ragnheiður situr þar enn fyrir Samfylkinguna. Og hvað ætli þær hafi nú sagt í greinargerð tillögu sinnar?
Því er oft haldið fram að vald fjölmiðla hafi aukist í þjóðfélaginu, ekki síst vegna þess að þeir eru mikilvægasti gluggi samfélagsins, bæði okkar eigin samfélags og annarra fjarlægari. Víst er að notendum fjölmiðla og tölvutækni fjölgar stöðugt, hvort heldur er til afþreyingar, fræðslu eða tjáskipta. Fjölmiðlaþróunin býður upp á gífurlega möguleika, en hún á sér einnig neikvæðar hliðar. Virk fjölmiðlastefna getur því skipt sköpum ef við viljum hafa áhrif á þróunina á fjölmiðlamarkaðnum. Eignasamruni og samþætting fjölmiðlafyrirtækja og stýring fjölmiðla í hvaða formi sem er getur haft hættuleg áhrif á tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði í samfélaginu. Því hlýtur að vera verkefni hins opinbera að tryggja að fjölmiðlar bjóði upp á fjölbreytt efni. Huga þarf að eignarhaldi fjölmiðlafyrirtækja og koma í veg fyrir að einn eða fáir sterkir aðilar nái slíkum yfirburðum á markaðnum að tjáningarfrelsi og upplýsingaflæði sé ógnað. Jafnframt ber að rannsaka fjárhagslega tengingu fjölmiðlafyrirtækja við önnur fyrirtæki sem augljóslega gæti haft áhrif á tjáningarfrelsið. |
Já var það ekki einmitt svona sem Samfylkingarmenn töluðu alltaf, alltaf þar til nú nýlega að þeir urðu skýringalaust skyndilega sérstakir baráttumenn gegn þessum sjónarmiðum? Er það ekki þessi ótrúlega kúvending sem er rannsóknarefni? Hvað getur fengið fjölmiðlamenn – sem eru vitaskuld allir fagmenn en ekki að skrifa eins og eigendum fjölmiðlanna hentar – til að taka bara aldrei eftir því að heill stjórnmálaflokkur hefur á einni nóttu skipt um stefnu í öllum málum sem kunna að snerta helsta auðhring landsins?