Þriðjudagur 11. maí 2004

132. tbl. 8. árg.

Áárum áður var það alvanalegt að íslenska krónan félli mjög skarpt í verði. Nú eru tímar sífellds gengisfalls gjaldmiðilsins liðnir, en í staðinn virðist stundum sem tímar gengisfalls orðanna séu runnir upp. Skýrt dæmi um gengisfall orðs og misskilning hrópenda, er þegar menn grípa til hinnar vinsælu upphrópunar, „bananalýðveldi! bananalýðveldi!“. Ímyndum okkur til gamans, að tekist sé á um hvernig skipa skuli leikreglum í tilteknu landi, og í deilum séu þar annars vegar lýðræðislega kjörin stjórnvöld og hins vegar alþjóðlegt stórfyrirtæki – hvar í veröldinni gæti það gerst að það þætti til marks um „bananalýðveldi“ ef hin lýðræðislega kjörnu stjórnvöld létu ekki undan kröfum stórfyrirtækisins? Er það ekki einmitt til marks um bananalýðveldi ef ríkisvaldið er í raun ekki hjá þeim sem borgararnir hafa kosið sem fulltrúa sína? Er það ekki til marks um bananalýðveldi ef önnur öfl, yfirleitt í krafti auðs, hafa ríkisstjórnina og löggjafann í raun „í vasanum“? Er þetta ekki nokkuð ljóst allt saman? Getur verið að það sé í raun þveröfugt; að í dæmigerðu „bananalýðveldi“ séu völdin hjá lýðræðislega kjörnum stjórnvöldum en ekki hjá stórfyrirtækjunum?

Nei, það getur varla verið. Menn geta alveg haft sínar skoðanir, neikvæðar, jákvæðar eða sitt lítið af hvoru, á frumvörpum sem lögð eru fyrir alþingi. Það er einfaldlega álitamál í hvert sinn. En það er ekkert ólýðræðislegt við það að lýðræðislega kjörið alþingi taki ákvörðun um það hvaða frumvörp verði að lögum og hver ekki. Það væri mun fremur ólýðræðislegt ef hið réttkjörna alþingi yrði hindrað í lagasetningu sinni. Það væri fremur til marks um „bananalýðveldi“ ef rétt kjörin stjórnvöld hygðust beita sér fyrir tiltekinni lagasetningu en kæmust ekkert áfram fyrir utanaðkomandi öflum sem beittu auð og aðstöðu til að lama hinn lýðræðislega kjörna löggjafa. Það hljómar heldur ekki sem gott undirspil við bananasönginn þegar landið fær hæstu einkunn fyrir frelsi fjölmiðla, landsmenn búa við bestu lífskjörin á flesta mælikvarða, svonefnd samkeppnishæfni er óvíða meiri og efnahagslegt frelsi hefur verið aukið verulega. Hitt er svo annað mál að þeir sem fara með ríkisvaldið hverju sinni eiga almennt að halda sig til hlés. Hér á landi ættu til dæmis ekki að vera „samkeppnislög“, hvorki þau sem nú eru í gildi né með þeim breytingum á þeim sem nú liggja fyrir alþingi.

Löggjafinn hverju sinni hefur heldur ekki alfrjálsar hendur. Hann er að því leyti bundinn af stjórnarskrá að lagaákvæðum verður ekki beitt ef þau teljast ganga gegn stjórnarskrá. Það er því fagnaðarefni fyrir andstæðinga tiltekinnar löggjafar ef ákvæði hennar ganga gegn stjórnarskrá; þá þurfa þeir ekki að hafa neinar áhyggjur af því að löggjöfin verði þeim til meins. Ef dómstólar eru þeim sammála þá munu þeir einfaldlega ekki beita lögunum. Slík deila verður hins vegar einungis útkljáð fyrir dómstólum. Það er til dæmis alger misskilningur ef einhver heldur að stjórnskipunarlegur vafi á gildi laga geti leitt til þess að forseti Íslands – eða ráðherra sem fer með vald hans samkvæmt stjórnarskránni – eigi að bera lögin undir þjóðaratkvæði. Og hví er það misskilningur? Stjórnarskránni er ekki breytt með þjóðaratkvæðagreiðslum. Ef lagagrein stenst ekki stjórnarskrárákvæði, þá verður henni ekki veitt gildi með þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er einfaldlega dómstóla að meta gildi einstakra lagagreina gagnvart stjórnarskrá.

Segjum að Alþingi samþykki tiltekna lagagrein. Því sé hins vegar haldið fram að hún standist ekki stjórnarskrá og eftir að synjað hefur verið um staðfestingu laganna sé greinin borin undir þjóðaratkvæði. Þar er hún svo samþykkt með yfirgnæfandi meirihluta atkvæða. Hvað ættu dómstólar þá að gera þegar lagagreinin kemur á þeirra borð? Er „þjóðin“ þá búin að „úrskurða“ um það að lagagreinin standist í raun stjórnarskrána og dómstólar sitja uppi með orðinn hlut? Ef „já“, er þá allt í einu í raun hægt að breyta stjórnarskrá án þess að rjúfa þing? Stjórnvöld myndu þannig samþykkja lagagrein sem bryti gegn stjórnarskrá, forseti myndi synja um staðfestingu og þannig mætti í raun breyta stjórnarskránni án þess að rjúfa þing, eins og stjórnarskráin þó krefst. En ef „nei“, ef þjóðaratkvæðagreiðslan breytir engu um gildi greinarinnar gagnvart stjórnarskránni, hver er þá afsökun forsetans fyrir að efna til atkvæðagreiðslunnar? Þá er atkvæðagreiðslan ekki um stjórnarskrána eða einhvern vafa henni tengdan, heldur hreint og klárt um eitthvert pólitískt deilumál. Og hefur nokkur nema Ástþór Magnússon og Sigrún Þorsteinsdóttir viljað það?

Nei, það blasir við að þjóðaratkvæðagreiðsla vegna synjunar um staðfestingu skiptir engu máli þegar kemur að stjórnarskránni. Og stjórnarskrárdeila getur þannig aldrei orðið afsökun fyrir því að ekki séu staðfest þau lög sem lýðræðislega kjörið alþingi hefur samþykkt með löglegum hætti.