S umir vilja mikið til vinna að Ísland gangi í Evrópusambandið. Oft skortir þó á að færð séu trúverðug rök fyrir ágæti aðildar. Flest af því sem menn telja aðild til ágætis, eru kostir sem Ísland nýtur nú þegar með aðildinni að Evrópska efnahagssvæðinu. Vefþjóðviljinn mun ekki telja það eftir sér að benda annað slagið á galla við ESB sem gera það að verkum að hann telur aðild að sambandinu ekki koma til greina. Vefþjóðviljanum dettur ekki í hug að halda því fram að EES-samningurinn sé fullkominn eða besta hugsanlega lausnin fyrir Ísland. Þvert á móti hefur Vefþjóðviljinn bent á galla samningsins og að mörg mikilvæg framfaramál hafa komist í gegn án tilstuðlan hans, eins og til dæmis má lesa hér og hér. En hann kemst nærri því að vera besta raunsæja lausnin fyrir Ísland í samskiptum við ESB. Hann veitir landinu mikilvægan aðgang að innra markaði sambandsins án þess að þurfa að taka þátt í samstarfi á sviðum, svo sem sameiginlegu fiskveiðistefnunni og landbúnaðarstefnunni, sem hefðu enn fleiri ókosti í för með sér.
„Það er sum sé ekki verið að sníða grundvallar- reglurnar að vilja þegnana, heldur eiga þegnarnir að sætta sig við grundvallar- reglur sem elítan setur þeim.“ |
Enn einu sinni verðum við vitni að undarlegheitum í ESB, þegar afdrifaríkar ákvarðanir eru til umræðu. Um þessar mundir eru ríkisstjórnir ESB-landanna að rembast við að setja saman og semja um stjórnarskrá ESB, þó ekki sé ætlunin að leggja niður stjórnarskrár aðildarríkjanna, í bili að minnsta kosti. Á ýmsu hefur gengið í þessu ferli og hafa ríkin átt erfitt með að verða ásátt um bæði einstaka hluta væntanlegrar stjórnarskrár og heildarpakkann. Í desember síðastliðnum slitnaði meira að segja upp úr viðræðum þegar ríkin höfðu einsett sér að klára dæmið. Hugsanlega verður enn erfiðara að ná samkomulagi, nú þegar aðildarríkjum ESB hefur fjölgað um 10. En gífurlegur þrýstingur er á ríki sambandsins að málið verði klárað á fundi ríkjanna í júní. Ætlunin er síðan að senda samkomulagið til staðfestingar í aðildarríkjunum. Nú, þegar ýmislegt bendir til að samkomulag náist, eru leiðtogar einstakra ríkja byrjaðir að færa það í tal að leggja þennan viðamikla og áríðandi samning undir þjóðaratkvæðagreiðslu. Það er nú ekki alveg í ósamræmi við lýðræðislega hugsun, að leyfa borgurum, sem stjórnarskráin á að ná til, að greiða um hana atkvæði. Það þóknast þó ekki endilega hinni póltísku elítu. Enda er alls óvíst að stjórnarskráin verði samþykkt í þeim löndum sem boðað hafa þjóðaratkvæðagreiðslu. Tony Blair, forsætisráðherra Breta, lýsti því yfir um daginn að haldin verði þjóðaratkvæðagreiðsla um málið í Bretlandi. En þar sem það hefur oft reynst þrautin þyngri að sannfæra almenning aðildarríkjanna um ágæti nýrra samninga ESB, hafa flest ríkin forðast þjóðaratkvæðagreiðslu sem heitan eldinn. Enda var Tony Blair gagnrýndur nokkuð fyrir ákvörðunina. Það varð síðan til þess að hann gaf í skyn að ef ekki fæst viðunandi niðurstaða, þ.e. samþykkt, nú þá verði bara einfaldlega kosið aftur. Ekkert nýtt í því þegar ESB á í hlut. Bæði Danir og Írar hafa kynnst því hvernig kosið er um sömu samningana eða lítið breytta, þar til ásættanleg niðurstaða fæst fyrir ESB-elítuna, eins og Vefþjóðviljinn hefur bent á og lesa má hér.
Ekki er laust við að reynt hafi verið að hafa áhrif á almenning, því eflaust þætti mönnum best ef stjórnarskráin yrði samþykkt strax í fyrstu atrennu. Hefur því verið gripið til gamalkunnugra aðferða þegar sannfæra þarf almenning í einhverju aðildarríkinu, hótana. Eftir að tvær skoðanakannanir í Bretlandi sýndu að yfirgnæfandi meirihluti Breta er á móti væntanlegri stjórnarskrá ESB lýsti Bretinn Chris Patten, sem fer með utanríkismál í framkvæmdastjórn ESB, því yfir við blaðið Observer hinn 25. apríl, að hafni Bretar stjórnarskránni í þjóðaratkvæðagreiðslu jafngildi það úrsögn úr sambandinu. Þetta er ekki í fyrsta skipti sem kjósendum er hótað á þennan hátt. Skemmst er að minnast að Romano Prodi, forseti framkvæmdastjórnar ESB, sagði í desember síðastliðnum að ef eitthvert ESB-ríkjanna samþykkti ekki stjórnarskrárdrögin, gæti viðkomandi ríki þurft að segja sig úr ESB. Það hrutu jafnframt stuðandi orð af vörum Gerhard Schröder, kanslara Þýskalands, við þýska tímaritið Focus hinn 26. apríl. Þar sagði hann að ESB yrði að finna einhverja leið til þess að tryggja gildistöku stjórnarskrárinnar enda þótt einstök ríki hafi ekki lokið við að staðfesta hana eða hafni henni í þjóðaratkvæðagreiðslu. Þetta eru góð dæmi um lýðræðislega hugsun hjá ESB elítunni: „Leyfum almenningi að kjósa um hlutina, en þar sem við erum dómbærust á hvað ríkjunum er fyrir bestu, eða af því að við höfum persónulegra hagsmuna að gæta, þá tökum við vitanlega ekkert mark á niðurstöðum sem ekki eru í samræmi við vilja okkar. Þá látum við bara kjósa aftur, fleygjum leiðindapúkunum út, eða finnum upp á einhverju öðru snjallræði.“
Þetta er þeim mun alvarlegra þar sem leiðtogar Þýskalands og Bretlands eiga í hlut, en þessi ríki auk Frakklands eru oftast talin valdamestu ríkin í ESB. Enda hittast leiðtogar þeirra reglulega til að reyna að komast að fyrirfram samkomulagi og reyna þannig að auka enn áhrif ríkjanna í samstarfinu. Þetta hefur ekki heldur alveg farið fram hjá áhrifaminni ríkjum ESB, sem oft eru óspör á gagnrýni á þessi þrjú ríki fyrir að reyna að stýra stefnu ESB á þennan hátt.
Það er sum sé ekki verið að sníða grundvallarreglurnar að vilja þegnana, heldur eiga þegnarnir að sætta sig við grundvallarreglur sem elítan setur þeim. Svona hrokafull skoðun á lýðræðinu og framkoma gagnvart því, gerir alla lýðræðissinna órólega. Þegar við bætist að menn eru að tala um framtíðarstjórnarskrá sambandsins, hornstein samskipta almennings sem og ríkjanna í sambandinu, breytist óróleiki í ótta.
Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar, vill hækka skatta í nýjum aðildarríkjum ESB til að auka samkeppnishæfni Svíþjóðar. |
Annað mál, skattheimta, segir margt um áhrifamikla póltíska hugmyndafræði í ESB og ber jafnframt ótrúlegu samskiptamynstri í ESB slæmt vitni og lýsir hroka elítunnar í sumum gömlu aðildarríkjunum. Í mörgum gömlu aðildarríkjum ESB eru skattar mun hærri en í nýju aðildarríkjunum. Sérstaklega skattar á fyrirtæki. Það verður til þess, og hefur þegar orðið til þess, að mörg fyrirtæki í gömlu aðildarríkjunum flytja sig og/eða framleiðslu sína til nýju aðildarríkjanna og njóta þar lægri skattheimtu og oftast ódýrara vinnuafls í ofanálag. Þetta skerðir vissulega samkeppnistöðu gömlu aðildarríkjanna. Það eiga leiðtogar ýmissa þeirra erfitt með að sætta sig við. Og hvernig bregðast gömlu aðildarríkin við til að bæta stöðu sína? Vinna að lækkun skatta og niðurskurði hins opinbera dettur nú ýmsum í hug. Nei, ekki aldeilis. Þegar líða fór að stækkun ESB fóru leiðtogar einstakra eldri aðildarríkja að viðra þá hugmynd að réttast væri að samræma betur skatta ESB-ríkjanna, ergó hækka skatta í þeim löndum þar sem skattheimtan er lægri. Meðal þeirra voru Göran Persson, forsætisráðherra Svíþjóðar og Gerhard Schröder. Þetta ber þess merki að meðal leiðtoga gömlu aðildarríkjanna sé að finna menn sem þykir nýju ríkin mega prísa sig sæl að vera komin í „góðra ríkja klúbbinn“. Það sé þeirra að leggja eitthvað á sig en ekki gömlu aðildarríkjanna. Þetta bendir líka til þess að meðal forystumanna gömlu aðildarríkjanna þyki hið risavaxna ríki og há skattheimta sjálfsagt mál og engin ástæða sé til að skera niður. Þó er ekki eins og um sé að ræða eitthvað lögmál, enda er þessi skoðun ekki allsráðandi. Samkvæmt fréttum Aftenposten íhuga bæði Spánn og Austurríki að bregðast við aukinni samkeppni með því að lækka fjármagnstekjuskatt og skatta á fyrirtæki.
Göran og Gerhard hafa fylgt skoðunum sínum eftir með hótunum, eins og við var að búast og í besta ESB-stíl, um að fjárstyrkir til nýju aðildarríkjanna verði skornir niður makki þau ekki rétt varðandi skattheimtuna. Og það er áhyggjuefni fyrir þessi ríki þegar eitt áhrifamesta ríki ESB, sem jafnframt er það ríki sem greiðir mest nettó til ESB, viðrar svona skoðun. Og það er ömurlegt þegar ríki, í krafti yfirburðastöðu sinnar, reyna að þvinga fram vilja sinn með hótunum. Þetta er sérstaklega umhugsunarvert fyrir Ísland, því að á Íslandi eru mun lægri skattar á fyrirtæki en í mörgum löndum ESB, eins og til dæmis Þýskalandi og Svíþjóð, og örríkið Ísland ætti ákaflega erfitt að standast þrýsting í þessa veru.
Frjálst flæði vinnuafls innan ESB hefur verið nokkuð áberandi í fréttum undanfarið og er það síðasta atriðið sem komið verður inn á að þessu sinni. Einn af hornsteinum hugmyndarinnar að baki innri markaðinum, og þar með ESB, er að fólk geti unnið hvar sem er innan sambandsins, án sérstakra leyfa. Þegar stækkun ESB var ákveðin byrjuðu ýmsir í gömlu aðildarríkjunum að hafa áhyggjur af því að fólk myndi flykkjast frá nýju aðildarríkjunum til hinna gömlu, til að sækja þangað vinnu, fyrir hærri laun en byðust í heimalandinu, en sætta sig jafnframt við lægri laun en gengi og gerðist í gestalandinu. Óttuðust þeir að þessu myndi fylgja fjöldaatvinnuleysi ef ekki bara heimsendir. Og hvernig hafa mörg gömlu aðildarríkin brugðist við? Jú með því að nýta sér aðlögunartíma, sem boðið er upp á, og gengur út á að takmarka frjálst flæði vinnuafls frá nýju aðildarríkjunum í allt að sjö ár. Pólland hefur meðal annarra gagnrýnt þetta og bent hefur verið á að þetta gangi gegn kjarna hugmyndarinnar að baki ESB. En til hvers eru prinsípin ef ekki til að fórna þeim þegar það gagnast manni?
Stundum er erfitt að skilja af hverju sumir loka algerlega augunum fyrir göllum ESB. Hér að ofan hefur aðeins verið snert á örfáum fjölmargra atriða sem eiga þátt í því að aðild Íslands að ESB kemur ekki til greina. Og í því sambandi skiptir engu máli hvaða hugsanlegu undanþágur landið fengi frá hinum og þessum þáttum samstarfsins eða kröfum ESB. Það er um að ræða slík grundvallarsjónarmið, að hagkvæmir samningar myndu þar engu breyta um. Þau dæmi sem nefnd hafa verið, renna stoðum undir þá skoðun að ESB sé ekki samstarf jafningja, að í ESB séu sumir jafnari en aðrir. Þessi dæmi styðja líka þá skoðun að ESB sé fremur gæluverkefni elítunnar og eigi síður uppruna sinn meðal alþýðunnar. Það hefur líka verið sýnt fram á að ástand lýðræðisins er ekki upp á sitt besta í ESB og ólíkt því sem þekkist í flestum aðildarríkjunum. Það er stundum notað af elítunni til að slá ryki í augu fólks. Sjaldan eru haldnar þjóðaratkvæðagreiðslur í aðildarríkjunum um meiriháttar breytingar hjá sambandi og niðurstöður þeirra ráða oftast litlu um framvindu mála hjá sambandinu.
Flestir þeir kostir, sem fylgismenn ESB-aðildar Íslands nefna, eru atriði sem landið nýtur nú þegar með aðildinni að EES-samningnum. Það fer hins vegar fyrir brjóstið á mörgum hversu lítil áhrif Ísland hefur á EES-samstarfið. Fylgismenn ESB-aðildar eru margir haldnir þeim misskilningi að aðild að ESB myndi breyta þar miklu um. Örríki eins og Ísland hafa hins vegar sáralítil áhrif á sambandið. Ókostirnir sem hlytust af aðildinni yrðu hins vegar fjölmargir, eins og til dæmis að þurfa að taka þátt í sameiginlegri sjávarútvegs- og landbúnaðarstefnu ESB.