Laugardagur 8. maí 2004

129. tbl. 8. árg.

S tyrkjasambandið, sem í daglegu tali er stundum nefnt Evrópusambandið, berst nú gegn því að ríkisstyrkir til sjávarútvegs verði lagðir niður. Um þetta má lesa í grein á vefnum 200milur.is, þar sem einnig kemur fram að ríkisstyrkir til sjávarútvegs séu um 20 milljarðar dala, eða yfir 1.400 milljarðar króna. Evrópusambandið er stórtækt í þessum styrkjum eins og öðrum og vill halda þeim áfram, en stuðningur við að fella niður styrkina, sem er tillaga frá Nýja-Sjálandi, kemur meðal annars frá Bandaríkjunum, Noregi og Íslandi. Í greininni er bent á að bann við ríkisstyrkjum myndi styrkja samkeppnisstöðu Íslendinga og þar með að ríkisstyrkirnir geri hana veikari. Um leið er bent á að hér á landi er það ekki aðeins svo að sjávarútvegur verði að standa undir sjálfum sér, sem er vitaskuld eðlileg krafa, heldur standi til að leggja aukinn kostnað á íslensk sjávarútvegsfyrirtæki með auðlindaskatti.

H ið opinbera hefur víðtækt eftirlit með starfsemi einkafyrirtækja – eða öllu heldur of víðtækt eftirlit. Ari Edwald framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins gerði eftirlitið að umtalsefni á aðalfundi samtakanna í vikunni og benti á mikilvægi þess að gæta hófs við setningu reglna og ákvörðun eftirlits og halda kostnaði og umstangi vegna eftirlitsins í lágmarki. Hann benti á að fyrirtæki gætu þurft að leita til fjölda opinberra eftirlitsstofnana, en það vill oft gleymast að í öllu þessu eftirliti felst mikill kostnaður fyrir fyrirtækin.

Kröfur um aukið eftirlit eru meðal þeirra krafna sem stjórnmálamönnum gengur hvað verst að standa gegn. Skýringin á því er sú að þegar fram kemur hugmynd um aukið eftirlit hljómar hún yfirleitt afar sannfærandi  enda lítið rætt um kostnaðinn af því, aðeins hættuna af því að auka ekki eftirlitið. Það sem stjórnmálamenn óttast sennilega er að ef þeir hafni eftirlitinu kunni eitthvað að koma fyrir sem hægt sé að halda fram að eftirlitið hefði hindrað og þeir fái skammir fyrir. Enginn er hins vegar skammaður fyrir að vera „ábyrgur“ og styðja aukið eftirlit. Þetta veldur því að fyrirstaðan er lítil og hugmyndir um aukið eftirlit renna greiðlega í gegn. Engin einföld lausn er til á þessum vanda. Stjórnmálamenn og aðrir verða hins vegar að vera meðvitaðir um að hann er til staðar og taka öllum hugmyndum um aukið eftirlit með miklum fyrirvara. Ein leið til að draga úr aukningunni er að reyna alltaf að áætla kostnað við eftirlitshugmyndir, en þá er vandinn þó sá að margir stjórnmálamenn hafa ítrekað sýnt að þeir bera lítið skynbragð á nauðsyn þess að draga úr sköttum og gjöldum á atvinnulífið.