Miðvikudagur 5. maí 2004

126. tbl. 8. árg.

Í árlegri ræðu forsætisráðherra á aðalfundi Samtaka atvinnulífsins var meðal annars vikið að skattamálum og lýsti forsætisráðherra þeirri skoðun sinni að ef ætlunin væri að halda forystuhlutverki Íslands þegar kemur að sköttum á fyrirtæki þyrfti að stefna að því að þessir skattar væru ekki yfir 15%. Þetta var nefnt í sambandi við kröfur innan Evrópusambandsins um samræmingu í skattamálum, en eins og við er að búast koma þær kröfur frá þeim ríkjum sem leggja á þyngsta skatta og yrði samræmingin því vafalítið samræming upp á við. Skattar á fyrirtæki hafa verið lækkaðir úr 50% í 18% á síðustu árum og hugmyndin um inngöngu í Evrópusambandið felur meðal annars í sér hættuna á því að þessir skattar myndu hækka verulega vegna vilja innan sambandsins til samræmingar. Samræming af þessu tagi kæmi sér vitaskuld vel fyrir þau ríki sem hafa háa skatta og vilja halda þeim háum, en fyrir samkeppnisstöðu Íslands væri slík breyting afleit. Vel samkeppnishæf skattlagning er eitt það helsta sem erlendir fjárfestar og fyrirtæki velta fyrir sér þegar þeir líta til Íslands – og lágir skattar eru jafnvel það eina sem fær erlenda fjárfesta eða fyrirtæki til að líta til Íslands. Og þetta á ekki aðeins við um erlend fyrirtæki, mörg innlend fyrirtæki hafa nú alla burði til að flytja starfsemi sína til útlanda, en sjá sér ekki síst hag í að vera hér á landi vegna lágra skatta. Markmiðið um enn lægri skatta í framtíðinni er þess vegna ákaflega þýðingarmikið.

Annað sem forsætisráðherra vék að í ræðu sinni eru þau sjónarmið sem sumir hafa haldið fram – meðal annars alls konar Talsmenn sem ekki studdu samninginn á sínum tíma – að allar framfarir hér á landi á síðustu árum megi þakka EES-samningnum. Um þetta sagði forsætisráðherra meðal annars: „Ég er jafn sannfærður og áður um að hver sé sinnar gæfu smiður. Það var gæfa að ná samningnum um evrópska efnahagssvæðið, en sá samningur var einungis tækifæri. Samningurinn um evrópska efnahagssvæðið gerði enga kröfu um það að Íslendingar næðu tökum á ríkisfjármálum sínum. Skuldir hins opinbera hafa lækkað mjög á undanförnum árum. Þær voru komnar í rúm 50% af þjóðarframleiðslu en verða á næsta ári komnar í rúm 15%. Viðsnúningurinn er alger. Tekjuskattur fyrirtækja hefur lækkað úr 50% í 18% á nokkrum árum. Skattar á einstaklinga hafa lækkað og munu lækka mjög á þessu kjörtímabili. Engin krafa var gerð um slíkt í EES samningnum. Hugur manna í Brussel stefnir í aðra átt, eins og fram hefur komið. Einkavæðingin hefur nú staðið yfir í rúman áratug. Búið er að selja mikinn fjölda ríkisfyrirtækja á þeim tíma. Áður var til dæmis allur fjármálamarkaðurinn bundinn af eignarhaldi ríkisins á viðskiptabönkunum. Nú hafa þeir allir verið seldir og verið er að undirbúa sölu á Landssíma Íslands. Engin krafa var gerð um einkavæðingu í samningnum um EES.“