Davíð Oddsson forsætisráðherra viðraði þá hugmynd, sem oftar, á Alþingi í gær að fyrirtækjum yrði bannað að styrkja stjórnmálaflokka. Fram til þessa hafa stjórnarandstæðingar ekki tekið undir þessa hugmynd. Össur Skarphéðinsson formaður Samfylkingarinnar gerði það hins vegar í Kastljósi Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi. Svo reffilegur var formaðurinn raunar í þættinum að varaformaður flokksins sá þann kost vænstan að hrinda einum þingmanni flokksins út af þingi í gærkvöldi svo sjónvarpsmyndavélarnar færu ekki alveg á mis við sig.
En að hugmynd forsætisráðherrans. Kannski má segja að það eigi að vera kjósendur en ekki einhverjar andlitslausar verslanir, verksmiðjur og viðskiptablokkir sem styðja stjórnmálaflokkana. Á þessari hugmynd er þó einn galli sem er sá sami og er á öllum sérstökum lögum og reglum um fjármál stjórnmálaflokka. Það er auðvelt að fara í kringum slík lög. Peningar hverfa ekki úr stjórnmálum þótt þeir séu bannaðir. Þeir finna sér annan farveg og þá neðan jarðar ef ekki vill betur til.
Eigandi fyrirtækis sem haldinn er þráhyggju um að Íslendingum beri af afsala sér frelsi og fullveldi og ganga í Evrópusambandið þarf auðvitað ekki endilega að styðja Samfylkinguna til að vinna því máli brautargengi og hjálpa Samfylkingunni. Hann gæti styrkt Samtök iðnaðarins eða Evrópusamtökin. Í stað þess að styrkja VG beint gæti harður umhverfisverndarsinni keypt af ungum vinstrigrænum þá 728 nærboli með mynd af Steingrími J. Sigfússyni sem ekki seldust fyrir síðustu kosningar. Í Bandaríkjunum var lögum um fjármál stjórnmálaflokka nýlega breytt en nú þegar eru bæði fylgjendur og andstæðingar þessara lagabreytinga sammála um að farið sé í kringum lögin. Bæði demókratar og repúblíkanar hafa þegar stofnað skúffufélög sem safna fé sem flokkarnir geta ekki tekið við sjálfir. Þessi félög munu gera það sama við peningana og flokkarnir hefðu gert nema að nú verður erfiðara fyrir fjölmiðla og almenning að meta hver eyðir hverju í auglýsingar og annan áróður.
Ýmsir telja að stjórnmálaflokkarnir standi nú þegar mjög veikt gagnvart skipulögðum og öflugum hagsmunasamtökum. Sum þessara samtaka eru fjármögnuð með beinum og óbeinum hætti af ríkinu. Samtök iðnaðarins fá um eina milljón króna á hverjum virkum degi úr ríkissjóði. Bændasamtökin nær tvær. Stéttarfélög eru fjármögnuð með nauðungargjöldum vinnandi manna. Það myndi ekki bæta stöðu stjórnmálaflokkanna gagnvart þessum hagsmunasamtökum ef tekið yrði fyrir stuðning fyrirtækja við þá. Það væri að minnsta kosti nauðsynlegt að ríkið hætti að fóstra þessi hagsmunasamtök.