Föstudagur 23. apríl 2004

114. tbl. 8. árg.

Í

Haraldur Blöndal, 1946-2004. Requiescat in pace.

nóvembermánuði árið 1968 kusu Bandaríkjamenn sér til forseta Richard M. Nixon, glöggan mann og ráðagóðan. Skömmu síðar héldu laganemar við Háskóla Íslands aðalfund félags síns og var þar lögð fram sú skynsamlega tillaga að fundurinn sendi hinum nýkjörna forseta þegar í stað svo hljóðandi skeyti: Bene ferre magnam disce fortunam! Tillagan náði ekki fram að ganga, ekki frekar en sumar aðrar tillögur sem Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður bar fram um sína daga. Sumar þeirra að minnsta kosti féllu í jarðveg sem var bæði grýttur og þurr enda lengi verið misjafnt hversu gott auga menn hafa fyrir tilverunni. Ósjaldan mun hins vegar hafa verið meira vit í tillögum Haraldar en andmælendur hans áttuðu sig á og á það ekki aðeins við um það sem hann lagði til í fullri alvöru heldur merkilega oft líka um það sem einkum mun hafa verið ætlað að lyfta daufum fundum upp. Sá ágæti skeytistexti, bene ferre magnam disce fortunam, myndi á íslensku hljóma eitthvað eins og „Ber með sóma þá upphefð sem þér hefur hlotnast“ og hver veit hvernig farið hefði ef sú áskorun þeirra Haraldar og Horatii hefði borist Richard Nixon í tæka tíð?

Haraldur Blöndal var með skemmtilegri mönnum sem mátti finna á förnum vegi í Reykjavík. Þar kom margt til; frásagnargáfa, orðheppni, frumleg hugsun, mikil þekking á ólíklegustu mönnum og málefnum – en umfram allt hið fína auga fyrir því kímilega í tilverunni. Þessu öllu fylgdi svo raddblær og látbragð sem ekki verður lýst svo glatt, en gleymist að sama skapi seint þeim sem kynntust hinum óvenjulega lögmanni. Meðal þeirra sem það gerðu – en að vísu aðeins mjög stuttlega – var sovéski sendiherrann á Íslandi, en, eins og margir munu vafalaust rifja upp með sjálfum sér í dag, undir lok áttunda áratugarins bar það til að Haraldur var heldur seinn fyrir til málflutnings í borgardómi, sem þá var til húsa við Túngötu í Reykjavík. Þá sem nú var lítið af lausum bílastæðum í miðborginni og að lokum sá Haraldur þann kost vænstan að leggja í merkt einkastæði sovéska sendiherrans, en sendiráðið stóð skammt frá dómhúsinu. Sendiherrann sá hins vegar til hans og rauk út á tröppur og hrópaði „What are you doing here?“ á eftir stæðisþjófinum sem skeiðaði að dómhúsinu. „What are you doing in Afghanistan?“ kallaði Haraldur Blöndal á móti, og málið þar með útrætt af beggja hálfu.

Þó Haraldur Blöndal væri léttur í skapi og hefði litlar áhyggjur af því þó hann þætti stundum kyndugur í háttum, þá hafði hann fastmótaðar lífsskoðanir. Hann var alla tíð eindreginn fylgismaður Sjálfstæðisflokksins og stóð með honum gegnum þykkt og þunnt. Ekki samt með hugarfari þess sem tekur sem heilögum sannleik hverju smáatriði sem frá flokki sínum kemur, heldur af skynsemi þess manns sem veit að menn skipa sér í fylkingar eftir meginsjónarmiðum og ganga ekki af göflunum þó ágreiningur verði um einstök úrlausnarefni. Hann var ætíð fulltrúi á landsfundum flokks síns og lagði þar margt til mála og sköpuðu tillögur hans iðulega úlfaþyt og þá eins þó þær fjölluðu ekki um þau mál sem almennt voru efst á baugi. Haraldur fór þannig nýlega fyrir hópi manna sem fékk það sérstaklega samþykkt að Sjálfstæðisflokkurinn lýsti yfir andstöðu við hvers kyns tilraunir með rafrænar kosningar og væri það beinlínis stefna flokksins að áfram yrði kosið með blaði og blýanti. Víða um land fagnaði fólk sem skilur kosningar og kosningareglur, en tæknigúrú urðu óð.

Það voru ekki aðeins formlegar tillögur eða fundarskapasprell – ekki síst á landsfundi ef Halldór bróðir hans var fundarstjóri – sem fengu varkára menn til að grípa andann á lofti. Haraldur fór um fundi og samkomur og skaut að athugasemdum sem stundum höfðu ekki annan tilgang en að krydda umræðuna eða koma róti á menn. Á landsfundi árið 1999 sátu menn í landbúnaðarnefnd fundarins og ræddu fram og til baka um innflutning á fósturvísum úr norskum kúm. Var þá dyrum svipt upp og var þar kominn Haraldur Blöndal hæstaréttarlögmaður og sagðist mótmæla þeim innflutningi harðlega og spyrja hvort þá mætti ekki „allt eins flytja inn erlend hestakyn – og asna fyrir framsóknarmenn“. Að þessu sögðu hvarf Haraldur á braut og skildi góðbændur flokksins eftir með þetta brýna umhugsunarefni. En vitaskuld var það alvaran sem skipti máli og fyrir tíu árum, þegar Haraldur gaf kost á sér í prófkjöri vegna borgarstjórnarkosninga, kynnti hann sig meðal annars með orðum sem eiga ekki verr við nú en þá:

Ég tel, að reynsla mín af stjórnmálum og sú þekking, sem ég hef aflað mér í ýmsum störfum, sem ég hef gegnt, eigi að vera flokknum styrkur. Pólitísk reynsla mun skipta miklu máli í komandi kosningum. Það skiptir mjög miklu, að menn viti, hvernig bregðast eigi við óvæntum pólitískum uppákomum, ­sumir stirðna, ­aðrir leggja á flótta, enn aðrir kenna öðrum um. Þessi viðbrögð eru óleyfileg í stjórnmálum, ­menn verða að hafa skapstyrk til þess annars vegar að standa með nauðsynlegum aðgerðum, þótt óvinsælar séu og hins vegar að hlaupast ekki undan ábyrgð í leit að stundarfylgi t.d. í prófkjöri. Kjósendur eru ekki asnar og skilja rök. Þeir skilja, að stundarsársauki getur verið nauðsynlegur til þess að lækning náist. Þeir, sem taka þátt í stjórnmálum, verða að kunna að halda pólitískan sjó.

Haraldur Blöndal sá oftar en flestir í gegnum delluna sem getur gripið jafnvel bestu menn. Rafrænar kosningar eru eitt og taldi Haraldur raunar erfitt að ræða kosningareglur við menn sem vilja geta kveikt á eldavélinni með farsíma sínum, eins og hann einu sinni lýsti þessari tegund meinlokumanna. Sameining sveitarfélaga er önnur dillan, en fáir menn lögðu meira af mörkum en Haraldur í baráttunni við þann ófögnuð. Hann var í allnokkur ár varafulltrúi Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur og sem slíkur var hann einn um að greiða í borgarstjórn atkvæði gegn sameiningu borgarinnar við nágrannasveitarfélögin. Á borgarstjórnarfundi spurði hann hvort nauðsynlegt væri að Reykjavík sameinaðist öllum sveitarfélögum í kring, hvort menn gætu ekki „fengið að vera í friði fáir og smáir?“ Væri eiginlega nauðsynlegt að sveitarfélög þendust endalaust út. Og Haraldur lét sér ekki nægja að tala og greiða atkvæði í borgarstjórn með þessum hætti. Sem hæstaréttarlögmaður flutti hann mál sveitafólks sem barðist gegn því að hreppar þess yrðu limaðir inn í stóru bæina í kring og tókst meðal annars að fá ógilta sameiningu Stykkishólms og Helgafellssveitar og um tíma Hólmavíkur og Nauteyrarhrepps. Af málarekstrinum varð svo ljóst að jafnframt hafði verið rangt staðið að sameiningu sveitarfélaga sem urðu að Ísafjarðarbæ og Hornafjarðarkaupstað, þó ekki hafi orðið af því að ógilda þessar „sameiningar“.

Deila umbjóðenda Haraldar við sameiningarsinna og félagsmálaráðherra þessa tíma, eru að sumu leyti athyglisverðar í samhengi þjóðmálaumræðu dagsins. Félagsmálaráðherrann sem kvað upp hina og þessa úrskurði sem síðar voru lýstir ógildir, var kona að nafni Jóhanna Sigurðardóttir, en það er einmitt sama Jóhanna sem nú hefur uppi ýmis stóryrði í garð dómsmálaráðherra vegna þess að tiltekin nefnd hefur lýst skoðun á einni embættaveitingu hans. Er þó talsverður munur á því að nefnd meti umsækjendur öðruvísi en ráðherra hafði gert og svo því að Hæstiréttur Íslands felli úrskurði ráðherra úr gildi með sama hætti og Jóhanna mátti þola. Færði Haraldur sterk rök fyrir því að Jóhanna hefði einfaldlega verið staðráðin í því að knýja sameiningu sveitarfélagana fram með góðu eða illu og að hana „varðaði ekkert um lög og rétt.“ Og auðvitað gerði enginn neitt með það. Ætli verið gæti að fjölmiðlar segðu eitthvað ef Björn Bjarnason yrði gerður eins afturreka og Jóhanna Sigurðardóttir varð á sínum tíma?

Til mun vera nokkuð sem nefnt er húsasótt. Á Íslandi verður hennar sennilega helst vart í utanríkisráðuneytinu, þar sem menn grípur mikil þrá inn í Evrópusambandið, og félagsmálaráðuneytinu, þar sem menn fá ógurlegan áhuga á sameiningu sveitarfélaga. Vonandi finnst einhvern daginn lækning við sótt þessari, en þangað til það gerist, þá er mikilvægt að góðir menn standi saman um að halda einkennunum niðri. Svo merkilegt sem það er, þá beita hinir sýktu svipaðri aðferð við að ná markmiðum sínum, hvort sem þeir eru að reyna að breiða Evrópusambandið út á kostnað þjóðríkjanna eða stóru sveitarfélögin út á kostnað þeirra minni. Opinbert fé er skefjalaust notað til áróðurs – það er að segja svokallaðs „kynningarstarfs“ – og reynt að haga sem flestum reglum þannig að þær verði til þess að þrýsta á fólk til stuðnings við markmiðið. Sífellt er efnt til atkvæðagreiðslna um nýja samninga eða nýjar sameiningartillögur og um niðurstöðurnar gildir einföld regla. Ef tillaga er felld, þá er kosið aftur. Ef tillaga er samþykkt þá er aldrei kosið meir. Meðal annars þess vegna var hún mikilvæg, tillagan sem Haraldur Blöndal flutti á síðasta landsfundi Sjálfstæðisflokksins, og gerði ráð fyrir því að íbúum yrði ekki aðeins heimilað að sameina sveitarfélög heldur einnig að efna til kosninga um að skipta þeim upp að nýju. Ekki þarf að taka fram að margir þeir landsfundarfulltrúar sem sitja í hinum stærri sveitarfélögum voru á barmi hjartaáfalls við tilhugsunina um að því fólki, sem þeir höfðu tælt til sameiningar, yrði fengin útleið til að nota þegar öll loforð hefðu verið svikin. Tillagan auðvitað felld eins og aðrar góðar tillögur.

Þetta er orðið langt mál um svo leiðinlegt efni sem sameiningu sveitarfélaga. En helgast þá kannski af því hve baráttan gegn því máli var Haraldi mikið kappsmál. En því fór vitaskuld fjarri að rafrænar kosningar og niðurlagning lítilla hreppa væru einu „framfaramálin“ sem Haraldur Blöndal berðist gegn. Hann var óþreytandi andstæðingur slæmra hugmynda, hvort sem þær komu stjórnmálum við eða ekki. Þegar ákveðið var að byggja við Menntaskólann á Akureyri vakti Haraldur „athygli á því, að ætlunin er að klastra einhvers konar gangi aftanúr skólanum í nýbygginguna og tengja hana síðan Möðruvöllum. Tilgangurinn virðist vera sá einn, að kennarar geti farið á milli í inniskóm.“ Fyrst minnst er á kennara þá barðist Haraldur einnig gegn því að réttindamenn köstuðu eign sinni á kennaraheitið og benti á að lögverndun starfsheitanna grunnskólakennari og framhaldsskólakennari næði ekki lengra en til þeirra orða og því væri „leiðbeinendum“ frjálst að kalla sig kennara. Og svo mætti áfram telja. Hann fór nærri því að fá landsfund Sjálfstæðisflokksins til að samþykkja afar harðorða ályktun gegn þeim þingmönnum flokksins sem höfðu samþykkt hækkun sjálfræðisaldurs úr 16 árum í 18, enda væri ótækt að svipta hálfan Heimdall sjálfræði á einu bretti. Á félagsfundum Lögmannafélags Íslands barðist hann gegn því að félagið gengi í samband evrópskra lögmanna og hefur það vafalaust verið rétt afstaða hjá honum. Hann taldi frumvarp um sumartíma vera eitthvert vitlausasta frumvarp sem nokkru sinni hefði verið lagt fyrir alþingi, eða eins og hann sagði í blaðagrein:

Kjarni málsins er einfaldlega sá, að þjóðir ákveða ekki mörk dags og nætur með lagasetningu, heldur laga þær tímatalið eftir sólinni og himintunglunum. Júlíus Sesar lagfærði tímatal heimsbyggðarinnar með því tímatali, sem nefnt er júlíanska tímatalið. Þorsteinn surtur kom á sumaraukanum til að rétta af hið forna íslenzka tímatal. Gregoríanus páfi lét leiðrétta júlíanska tímatalið, þegar ljóst var, að ekki fór saman árstíð og dagatal. Vilhjálmur Egilsson hefur færst annað í fang. Hann ætlar sér að miða dagmál á Íslandi, ekki við fyrsta hanagal, heldur við morgunverð í Brussel.

Í greinarkorni eins og þessu er Haraldur Blöndal lifandi kominn. Hver vill miða dagmál sín við morgunmat þeirra í Brussel? Össur Skarphéðinsson skrifaði hástemmda blaðagrein þess efnis að fræg flugvallarkosning í Reykjavík væri í raun dæmi um lýðræðisþróun og velheppnaða kosningu með „beinum og rafrænum hætti“. Haraldur svaraði þegar í stað, rakti hvílíkur skrípaleikur sú kosning var, og sagði að Össur hefði í dæmisvali sínu verið „eins og oft áður jafn seinheppinn og Andrés Önd“. Engin þörf væri á breytingum á kosningaframkvæmd á Íslandi enda hefði hún jafnan verið hnökralaus og þær „kosningar einar hafa verið ógiltar á Íslandi í seinni tíð, sem Jóhanna Sigurðardóttir, þáverandi ráðherra, lét halda með ólögmætum hætti“.

Meðal trúnaðarstarfa Haraldar var að hann var formaður byggingarnefndar Iðnós og hélt þeim starfa nokkuð eftir að R-listinn náði völdum í Reykjavík; meðal annars vegna þess að Guðmundur J. Guðmundsson, einn nefndarmanna, neitaði að verða við ítrekuðum óskum Ingibjargar Sólrúnar Gísladóttur um að víkja Haraldi úr formennskunni og varð neitun Guðmundar til þess að Ingibjörg Sólrún reyndi einnig að koma honum úr nefndinni. Í borgarstjórn var Ingibjörg Sólrún spurð um þessi mál og í skriflegu svari sínu sagði hún að milli sín og Haraldar ríkti ekkert trúnaðarsamband, hvorki til góðs eða ills. – Þetta var ekki hagstætt orðalag þegar Haraldur Blöndal var annars vegar. Í viðtali við Morgunblaðið sagðist hann „fagna því að hafa ekki haft trúnaðarsamband til ills við borgarstjóra, en skil ekki af hverju borgarstjóri telur slíkt samband nauðsynlegt“. – Nei það er ekki vel skiljanlegt, en af brotum sem þessum skilst kannski að einhverju leyti af hverju Haraldar Blöndals verður saknað meira en margra annarra sem hverfa úr opinberum umræðum. Hann hafði lag á að flytja mál sitt með í senn glettnum og skýrum hætti og enginn þurfti að velkjast í vafa um afstöðu hans þó hún væri ekki sett fram með þeim talsmáta sem algengastur er. Í umræðu um rafrænar kosningar skrifaði hann til dæmis í Morgunblaðið:

Fyrir nokkru gætti ég hagsmuna fyrirtækis, sem keypti hugbúnað frá [X hf.] til að nota í veitingahúsi sínu. Þessi hugbúnaður hefur reynst stórgallaður og hefur valdið veitingafyrirtækinu tjóni og ómældu amstri. Ég var um skeið formaður rannsóknarnefndar sjóslysa. Nefndin keypti hugbúnað frá [X hf.] og tengingu við Skýrr. Eftir smátíma rauk símakostnaður upp úr öllu valdi, og kom í ljós, að hugbúnaðurinn starfaði sjálfstætt og hringdi sjálfkrafa inn á Netið með nokkurra mínútna fresti nótt og nýtan dag. Af yfirliti um hringingarnar mátti t.d. ætla, að nefndin hefði setið við Netið allan aðfangadaginn, jólanóttina, jóladag og áramótin. Það kostaði ómælt amstur og vesen að koma þessu í lag. Þeir sem báru ábyrgð á hringingunum neituðu að greiða símareikninginn. Ég hlæ að því, þegar þessir aðilar segjast hafa fundið upp hugbúnaðarkerfi, sem tryggir öruggar kosningar.

Já, Haraldur hló oft, enda með óvenju næmt auga fyrir því fyndna í lífinu. Sennilega hefur hann hlegið með sjálfum sér í júnímánuði árið 2001 þegar hann og kollegi hans einn höfðu hafið ritdeilu í Morgunblaðinu.Þannig vildi til að forræðishyggjumenn á Alþingi höfðu tekið upp á því að banna fólki með lögum að tjá sig opinberlega um tóbak, nema þá til þess eins að vara við skaðsemi þess. Lögin höfðu ekki fyrr verið samþykkt en í Morgunblaðinu birtist grein þar sem höfundur, Jón Steinar Gunnlaugsson að nafni, kvaðst vilja ráðleggja öllum þeim samborgurum sínum „sem reykja ófilteraðan Camel, að breyta yfir í Winston light“, en hann hefði einmitt á yngri árum reykt Camel og „haft allmikla nautn af. Sérstaklega fann maður fyrir áhrifum ef reykt var með kaffi eða glasi af áfengi. Árum seinna skipti ég yfir í sígarettur með filter. Þá reykti ég helst Winston og síðar svonefndar Winston light. Mér þóttu þessar sígarettur ágætar, þó að ekki gæfu þær jafn mikil áhrif og gamla Camelið hafði gert.“. Þetta gat auðvitað ekki staðið ómótmælt og skömmu síðar birti Morgunblaðið svar Haraldar Blöndals:

Ekki verður hjá því komizt að mótmæla þeim sjónarmiðum, er fram komu í grein Jóns Steinars Gunnlaugssonar hrl. og birtust í Mbl. sl. laugardag. Þar hvetur hann menn eindregið til að hætta að reykja filterlausan Camel og fara að reykja Winston light. Þetta er alrangt og undarlegt, að jafnskýrum manni og Jóni Steinari skjótist um svona einfalt atriði. Ég hóf reykingar um svipað leyti og Jón Steinar og hætti þeim 29 ára gamall og hafði allan tímann aðallega reykt venjulegan Camel, upp í tvo pakka á dag. Camel eru afskaplega góðar sígarettur, bragðmiklar og fastar.

Já, það er sjónarsviptir að Haraldi Blöndal. Íslensk þjóðmálaumræða verður svipminni, nú þegar andríkis hans nýtur þar ekki lengur við. Framfaramenn svokallaðir eiga nú frírra spil þegar Haraldar nýtur ekki lengur við til að benda á hversu lítið kallar í raun á tillögur þeirra. Lítið vefrit sem kýs að láta ekki nafns síns getið má að auki sjá á bak lesanda sem oftar en aðrir hafði samband við blaðið, hvort sem var til að hvetja það til dáða, koma á framfæri hugmyndum og viðbótarfróðleik eða andmæla einhverri skoðun þess. Og stundum var erindið aðeins lítil skemmtisaga eða athugasemd sem bréfritarinn taldi réttilega að blaðið hefði sama gaman af og hann sjálfur. Allar þessar sendingar glöddu og uppörvuðu og hefði vafalaust mátt þakka fyrir þær oftar og fyrr en nú.