Fimmtudagur 22. apríl 2004

113. tbl. 8. árg.
Spending so much time in Sacramento, without anything to do, then out of that comes strange bills. I like them when they’re scrambling and they really have to work hard. Give them a short period of time. Then good work gets done, rather than hanging. That’s when they start getting creative with things.
 – Arnold Schwarzenegger ríkisstjóri í Kaliforníu.

Nýi ríkisstjórinn í gullna ríkinu hefur varpað fram þeirri hugmynd að löggjafarþing ríkisins eigi aðeins að starfa hluta úr ári. Þeir hafi ekki of gott af því að hanga í þingsölum í Sacramento allt árið. Þetta er ekki mjög frumleg hugmynd þótt góð sé því fram á sjöunda áratuginn voru þingmenn aðeins í hlutastarfi og nú hafa aðeins fjögur af ríkjum Bandaríkjanna þingmenn í fullu starfi.

Það er löng hefð fyrir því hér á landi að ýmsir álitsgjafar skæli um þetta leiti árs undan því að þingmenn séu að fara í margra mánaða sumarfrí. Jafnvel stjórnarandstæðingar úr hópi álitsgjafa sem telja þingmeirihlutann að öllu jöfnu mega missa sín vilja ekki að meirihlutinn missi úr dag til að setja landslýð fleiri og meiri lög.

Fyrrum kom Alþingi saman í nokkrar vikur annað hvert ár og ekki fer sögum af því að hér hafi verið upplausn vegna skorts á lögum. Að minnsta kosti eru ekki færri sem telja nú að nauðsyn sé á fleiri lögum en þá. En er ekki þjóðfélagið orðið miklu flóknara en áður, spyr kannski einhver, og þar með þörf á fleiri og nákvæmari reglum en áður. Nei, löggjafinn á ekki að nálgast flókin mál með því hugarfari að hann geti neglt nákvæmlega niður hvernig allt veltur. Því flóknari sem mál eru þeim mun ólíklegra er að honum takist það. Fáar, einfaldar reglur sem allir þekkja eru heppilegri en langir lagabálkar sem hvort eð er ná aldrei til allra tilvika.

Vefþjóðviljinn óskar lesendum sínum gleðilegs sumars.