H agfræðistofnun Háskóla Íslands hefur að beiðni félagsins Marsvíns, sem er félag þeirra sem vilja bættar samgöngur milli Grímseyjar og lands, reiknað út þjóðhagslegan ávinning af gerð ganga út í Grímsey. Niðurstaðan er ánægjuleg, því í ljós hefur komið að hinn þjóðhagslegi ávinningur af gangagerðinni er 25,6 milljarðar króna og munar um minna fyrir fámenna þjóð. Sérstakur kostur við göngin út í Grímsey er að þau verða hin lengstu á jörðinni undir sjó, en ókosturinn er að vísu að kostnaðurinn við gangagerðina dregst frá hinum þjóðhagslega ávinningi, þannig að enn er óvíst hvort að hagkvæmt er að grafa göngin. Félagsmenn Marsvíns eru þó ekki úrkula vonar um að takast muni að leysa þetta lítilfjörlega vandamál og gera sér jafnvel vonir um að finna bílfær göng sem enginn er að nota og liggja til Grímseyjar. Þar með stæðust útreikningarnir fyllilega og allir gætu fagnað.
Annar sambærilegur félagsskapur – sem hefur reyndar þann ókost að vera raunverulegur – er Ægisdyr, sem hefur það að markmiði að bæta samgöngur milli Vestmannaeyja og meginlandsins. Þetta félag fékk Hagfræðistofnun til að gera útreikning á þjóðhagslegri hagkvæmni með sama hætti og logið er upp á Hagfræðistofnun hér að ofan að hún hafi unnið fyrir Marsvín. Niðurstaðan af útreikningnum fyrir Ægisdyr var sú að þjóðhagslegur ávinningur af göngum til Eyja væri einmitt 25,6 milljarðar króna, en þá var reyndar ekki gert ráð fyrir kostnaði við gangagerðina frekar en við göngin nyrðra. Þetta stafar líklega af því að félagsmenn Ægisdyra bera ámóta skynbragð á kostnað og ábata og félagsmenn Marsvíns, Árni Þór Sigurðsson borgarfulltrúi R-listans og áhugamaður um léttlestir og Ingibjörg Sólrún Gísladóttir háskólagestur, fyrrverandi Talsmaður og áhugamaður um „ókeypis“ lest milli Reykjavíkur og Keflavíkur.
Kynningin á hugmyndinni um lengstu neðansjávargöng út í lítið íslenskt sjávarþorp var með miklum ólíkindum. Þeir sem sáu frétt Morgunblaðsins um þessa áróðursbrellu Ægisdyra þurftu til dæmis virkilega að leggja sig fram til að átta sig á því að inni í þessum meinta „þjóðhagslega ávinningi“ var ekki gert ráð fyrir kostnaði við gangagerðina. Og sú staðreynd að göngin eiga að skila „ávinningi“ þegar undan er skilinn kostnaðurinn verður félagsmönnum í Ægisdyrum til að óska þess að hið opinbera leggi fram tugi milljóna króna í rannsóknir á því hvort að göngin geti verið hagkvæm. Þó liggja fyrir útreikningar á kostnaði við göngin og þeir útreikningar sýna að jafnvel þessi meinti þjóðhagslegi ávinningur, sem er auðvitað enginn ávinningur nema í besta falli fyrir þá sem fengju niðurgreidd göng, yrði minni en enginn. Það yrði með öðrum orðum þjóðhagslegur kostnaður af gangagerðinni.
En mönnum í félögum á borð við Marsvín og Ægisdyr er alveg sama þótt almenningur þurfi að leggja út í mikinn kostnað því að þeir vilja fá sín göng og það er það eina sem máli skiptir. Þess vegna á nú að þvinga stjórnmálamenn til að seilast í vasa almennings til að rannsaka betur kostnað við gangagerðina og svo þegar þeirri rannsókn er lokið, tugum eða hundruðum milljóna króna síðar, á að þvinga þá til að seilast enn dýpra í vasa almennings til að láta hann greiða gangagerðina. Þetta er þekkt og því miður árangursrík aðferð sérhagsmunahóps. Fyrst er þess krafist að mál séu skoðuð, gerð sér forkönnun, þarfagreining, áróðursskýrsla eða hvað þessi plögg eru annars kölluð, og svo er haldið áfram að nauða þar til nægilega veikburða stjórnmálamenn eru á réttum stöðum til að knýja megi málið í gegn. Þetta tekur oft nokkurn tíma, jafnvel fjölda ára, en á endanum hafa frekir sérhagsmunahópar oftast betur.