Þriðjudagur 20. apríl 2004

111. tbl. 8. árg.
Núgildandi lög eru mjög knöpp, aðeins 19 greinar…
– Jóhanna Sigurðardóttir félagsmálaráðherra mælti fyrir frumvarpi til nýrra laga um fjöleignarhús 2. nóvember 1993.

J

Nú vilja menn banna „lausagöngu katta. Jafnvel sömu menn og lögðu takmarkanir á að kettir væru innandyra hjá eigendum sínum.

á því má slá föstu að víða er „eyða í íslenskri löggjöf“ eins og Hjörleifur Guttormsson alþingismaður orðaði það þegar hann rökstuddi frumvarp sitt til laga um gæludýrahald um árið. Og hvað voru menn að hugsa hér áður þegar lög náðu ekki einu sinni 20 greinum? Þegar Jóhanna Sigurðardóttir hafði fengið ný lög um fjöleignarhús árið 1994 samþykkt voru komin lög með 82 greinum í stað laga með 19 greinar. Meginmarkmið laganna var að taka betur á óljósum atriðum og til þess þurfti fjórfalt fleiri lagagreinar en áður. Fyrsta og eðlileg afleiðing laganna varð sú að stofnuð var sérstök Kærunefnd fjöleignahúsamála fyrir fólk sem er engu nær um stöðu sína og rétt eftir að hafa lesið greinarnar áttatíuogtvær.

Formaður húseigendafélagsins var einn þeirra sem sat í nefnd sem endurskoðaði lögin um fjölbýlishús fyrir Jóhönnu á sínum tíma. Segir jafnvel á heimasíðu félagsins að hann sé „höfundur laganna“, hvorki meira né minna. Starfsmenn félagsins komu nokkuð við sögu í fjölmiðlum í gær. Í fasteignablaði Morgunblaðsins gerði lögfræðingur félagsins, sem oft áður, heiðarlega tilraun til að skýra einstök ákvæði laga um fjöleignarhús. Að þessu sinni ákvæði um ónæði frá nágrönnum. Vitanlega er enginn neinu nær um hvar mörkin eru dregin í þeim efnum, hvorki eftir setningu laganna sjálfra né slíkar skýringar löglærðra á þeim. Þótt lög um fjöleignarhús séu löng og ítarleg eru þau sama marki brennd og svo mörg önnur lög að í flestum þeim tilvikum sem ágreiningur rís taka lögin einmitt ekki beint á því atriði. Önnur atriði liggja yfirleitt í augum uppi og óþarft að setja um þau lög í löngu máli.

Í seinni fréttum Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi var svo sagt frá fundi í Húsfélagi alþýðu við Ásvallagötu, Hofsvallagötu, Brávallagötu og Hringbraut en deilt hefur verið í félaginu að undanförnu. Var rætt við tvo lögfræðinga, annar þeirra formaður Húseigendafélagsins, og voru þeir á öndverðum meiði um merkingu laga um fjöleignarhús og taldi formaður Húseigendafélagsins jafnvel að lögin hefðu gert Húsfélag alþýðu ólöglegt en andmælandi hans úr lögmannastétt taldi svo alls ekki vera. Greinarnar 80 duga sumsé ekki í þessu tilviki og ákveðið hefur verið að skjóta málinu til … já Kærunefndar fjöleignarhúsamála.

Í Fréttablaðinu var svo mættur til viðtals fyrrnefndur Sigurður Helgi Guðjónsson, formaður Húseigendafélagsins, en hann á nú sæti í nefnd, afsakið starfshópi, um kattahald í Reykjavík. „Það er greinilegt að kettir eru víða plága sem menn skirrast við að taka á.“, segir Sigurður. Hann tekur jafnframt fram að „[s]tarfshópnum [hafi] verið tilkynnt að ekki sé pólitískur vilji til að banna lausagöngu katta.“

Vandamálið er hversu erfitt er að ná lagalegu gripi á köttunum. Þeir eru ekki skráðir, fara víða og valda óskunda, en enginn veit hvar þeir eiga heima. Samkvæmt grenndarreglum ber eiganda að sjá til þess að dýr sem hann heldur valdi ekki grönnum óþægindum eða ónæði. En það er hægara sagt en gert að sanna slíkt, því köttur sem hefur gert þarfir sínar í garði náungans er á næsta augnabliki aftur orðinn strokinn hefðarköttur heima hjá sér, sem engan grunar um græsku. Það er brýnt að þessi starfshópur hraði vinnu sinni og tekið verði af ábyrgð og festu á málinu.

Vefþjóðviljinn hefur stundum vikið nokkrum orðum að því sem nefna mætti almennt óþol sumra borgarbúa gagnvart því að búa innan um annað fólk í borg. Það er eins og hin síðari ár hafi þol manna gagnvart hvers kyns fylgifiskum borgarlífsins minnkað mjög. Nágrannar flugvallar til áratuga eru hættir að þola völlinn, íbúar sjávarþorpsins í vesturborginni mega ekki finna fiskilykt lengur, miðbæjarunnendur sem kaupa hús við hlið eða ofan á atvinnuhúsnæði, veitinga- og skemmtistöðum mega ekki heyra tónlist og glasaglaum um helgar. Og kettir sem silast hafa um bakgarða eru nú orðnir „mál“ sem „taka þarf á“. Undan þessu óþoli hafa stjórnmálamenn verið að kikna og nú hefur Reykjavíkurborg sett starfshóp til höfuðs köttum í borginni og í hópnum er maður sem telur kettina „plágu“.

Ef marka má frétt Fréttablaðsins vill hann helst banna köttum að vera utan húss en til þess er ekki pólitískur vilji enn sem komið er. En samkvæmt lögunum sem hann átti þátt í að semja árið 1993 er köttum einnig gert erfitt að vera innandyra í séreignum í fjölbýlishúsum nema með samþykki allra annarra íbúa í húsinu.