Mánudagur 19. apríl 2004

110. tbl. 8. árg.

Undanfarna daga hefur Skjár 1 kynnt lauslega nokkrar ungar stúlkur sem keppa nú um titilinn „ungfrú Reykjavík“, og stefna væntanlega að hinum tilkomumikla titli „ungfrú Ísland“ ef vel gengur. Jafnan þegar samkeppni eins og þessi stendur yfir, rifjast upp lætin sem iðulega var efnt til á árum áður – og það eru ekki mörg ár síðan – þegar fegurðarsamkeppni stóð fyrir dyrum. Þá var efnt til mótmæla, haldnir fundir og skrifaðar greinar, og því haldið fram að slík keppni væri „niðurlægjandi fyrir konur“, „gripasýning“ og „skilaboð um að konur [væru] söluvara“. Síðasta áratuginn hefur hins vegar einnig verið efnt til svipaðrar fegurðarsamkeppni karla, þar sem ungir piltar ganga um á sundfötum og lýsa áhuga sínum á flugvirkjun. Einhverra hluta vegna hefur gagnrýnin á fegurðarsamkeppni kvenna minnkað við það að piltarnir keppi með sama hætti, sem þó er í raun undarlegt. Ef það var í raun svo að stúlkurnar voru á sviðinu sem söluvara eða búpeningur á gripasýningu, þá má væntanlega segja það sama um strákana sem nú keppa. Ekki er vel gott að þeir séu niðurlægðir með slíkri gripasýningu, eða hvað?

Eða getur verið að það sé bara engin almenn niðurlæging í keppni sem þessari? Já ætli það geti ekki bara verið. Vefþjóðviljinn álítur að gagnrýni eins og sett var fram á fegurðarsamkeppni á meðan það voru undantekningarlítið konur sem tóku þátt, sé fremur til marks um hvimleiða heildarhyggju en margt annað. Til marks um þá skoðun að mannkynið, eða kannski íslenska þjóðin, sé ekki svo og svo margir ólíkir einstaklingar heldur tveir hópar, „konur“ og „karlar“. Vefþjóðviljinn álítur að þátttaka einstaklings í keppni sem þessari geti seint orðið álitsauki, niðurlæging eða hvað menn vilja kalla það, fyrir aðra en þann einstakling sjálfan. Hans nánustu geta auðvitað fyllst stolti, skömm eða hverju sem er, en það er annað mál. Það er einfaldlega ekki niðurlægjandi fyrir Bergþóru Skarphéðinsdóttur húsmóður þó nágrannakona hennar, Hallgerður Höskuldsdóttir, taki þátt í einhverri slíkri keppni. Engu breytir um það þó þær séu væntanlega báðar konur. Og jafnvel þó Hallgerður tæki að selja sig á götuhornum þá væri það ekki niðurlægjandi fyrir Bergþóru heldur, að minnsta kosti ekki meðan hún tæki ekki þátt í viðskiptum Hallgerðar heldur héldi sig bara heima að raka Njál.

Svipað má segja um stutt viðtal við Kolbrúnu Halldórsdóttur alþingismann vinstri-grænna í gær. Hún taldi að rödd kvenna, sjónarmið kvenna, eða eitthvert álíka hugtak þyrfti að hafa meiri áhrif. En það er bara ekki þannig að konur hafi eina rödd eða ein sjónarmið. Konur eru einfaldlega – með sama hætti og karlar – ólíkir einstaklingar með ólík sjónarmið. Halda menn kannski að sjónarmið menntamálaráðuneytisins hafi breyst verulega um áramótin þegar Tómas Ingi Olrich, karlmaður, lét af ráðherradómi, en Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, kona, tók við? Og að stefna ráðuneytisins myndi breytast minna ef konan Þorgerður léti af embætti en í staðinn kæmi bara einhver önnur kona, til dæmis Kolbrún Halldórsdóttir, Rannveig Guðmundsdóttir eða Dagný Jónsdóttir? Eru sjónarmið Sifjar Friðleifsdóttur nær sjónarmiðum Kolbrúnar Halldórsdóttur en sjónarmiðum Halldórs Ásgrímssonar? Hvenær ætlar fólk að hætta að líta á konur og karla sem tvo hópa? Sennilega um svipað leyti og það tekur almennt sönsum í svokölluðum jafnréttismálum.