D ómsmálaráðherra er legið á hálsi fyrir að hafa ekki ráðið konu í embætti hæstaréttardómara því færri konur skipa dóminn en karlar. Þess í stað réð ráðherrann karl eins og allir vita og vísaði til þess að karlinn hefði lesið evrópurétt og telur ráðherra það nokkurn feng fyrir dóminn að hafa slíkan starfsmann í sínum röðum. Eftir stendur að ráðherra ákvað að horfa framhjá kynferði umsækjenda og velja þann sem hann taldi leggja dómnum mest lið.
„…á hverju ári slíta foreldrar hjúskap eða samvistum. Í nær hvert sinn sem það gerist losna tvær stöður einstæðra foreldra og næstum alltaf eru tveir hæfir umsækjendur um stöðurnar og er annar þeirra karl en hinn kona.“ |
Nú má auðvitað deila um það hvort val ráðherra hafi verið rétt, kannski hefði sá umsækjandi sem kærði ráðninguna til kærunefndar jafnréttismála verið meiri liðsauki fyrir dóminn heldur en sá sem ráðinn var. Og það má líka deila um það hvor umsækjenda sé heppilegri dómari svona yfirleitt. Kannski er annar umsækjenda fylgjandi því að dómstólar taki sér stundum lagasetningarvald en hinn alfarið á móti því. Kannski hefur annar umsækjenda andúð á þessu en ekki hinu og þar fram eftir götunum og kannski vantar bara alls ekki neitt neina sérþekkingu á evrópurétti í hæstarétt heldur miklu heldur meiri kunnáttu í réttarheimspeki. Hver veit? En um þetta vill enginn deila og það gengur svo langt að ráðherrann sjálfur er eiginlega sá eini sem bendir á að um þetta megi og eigi að deila.
Í staðinn vilja allir, sem vilja deila á annað borð, deila á ráðherrann fyrir að hafa ekki ráðið konu. Setjum nú sem svo að ráðherrann hefði verið sammála þeim sem gagnrýna hann nú mest og ákveðið að ráða konu því það „vantaði“ konur í hæstarétt. Ráðherra hefði þá strax útilokað alla umsækjendur nema þá tvo sem eru konur og svo skipað konuna. En hvaða konu? Hvernig hefði hann átt að velja á milli þeirra ef hann hefði að leiðarljósi að það þyrfti að ráða konu? Fólk er bara af öðru hvoru kyninu og það ekkert mismikið. Ráðherrann hefði því þurft að kasta krónu um þessa tvo umsækjendur og ráða svo þann sem fengi þorskinn upp. Ráðning í hæstarétt hefði þá samanstaðið af því að velja fyrst úr alla umsækjendur af öðru kyninu og kasta svo krónu um þá sem eftir stæðu!
Ráðherrann hefði líka getað útilokað fyrst alla umsækjendur nema konurnar tvær og metið svo hvor þeirra yrði meiri liðsauki fyrir dóminn með tilliti til menntunar og fyrri starfa. En hvers vegna skyldi hann útiloka fyrst stóran hluta umsækjenda af hendingu en leggja svo efnislegt mat á þá sem eftir stæðu? Til hvers var þá valið af hendingu og til hvers var þá efnislegt mat? Ráðherrann hafði sem sagt um þrjá kosti að velja. Í fyrsta lagi gat hann látið efnislegt mat ráða vali sínu, í öðru lagi gat hann látið hendingu eina ráða því og í þriðja lagi gat hann látið blöndu af hendingu og efnislegu mati ráða valinu. Eins og öllum er kunnugt þá tók ráðherrann fyrsta kostinn og lét efnislegt mat ráða því hvern hann réði sem dómara. Sumir stjórnmálamenn hefðu valið annan kostinn en margir þó líklega þann þriðja. Annar og þriðji kosturinn gera mönnum nefnilega kleift að firra sig ábyrgð, það er hægt að vísa allri gagnrýni á bug með því að benda á að samkvæmt jafnréttislögunum eigi að velja af hendingu, þ.e. eftir kyni en ekki treysta eigin dómgreind.
Margir þeirra sem gagnrýnt hafa ráðherrann fyrir þessa ráðningu hafa jafnvel kallað sjálfa sig jafnréttissinna og sagt ráðherrann vera barn síns tíma og fulltrúa úreltra viðhorfa. Þessir gagnrýnendur eru fyrir margt athygliverðir. Þeir munu til dæmis ekki vera börn síns tíma enda tími sumra þeirra víst ekki kominn enn, en það sem merkilegra er, þeir eru furðulega hljóðir um ráðningar í aðrar og miklu mikilvægari stöður.
Þannig er mál með vexti að á hverju ári slíta foreldrar hjúskap eða samvistum. Í nær hvert sinn sem það gerist losna tvær stöður einstæðra foreldra og næstum alltaf eru tveir hæfir umsækjendur um stöðurnar og er annar þeirra karl en hinn kona. Ríkið ræður síðan í þessar stöður og í yfirgnæfandi fjölda tilvika er það konan sem hlýtur ráðningu og fær jafnframt fullt vald um það hvort karlinn verði ráðinn í hlutastarf eða honum hreinlega sagt upp fyrir fullt og allt. Á meðan eyðir fólk, sem prýðir sig með titlinum jafnréttissinni, öllu sínu púðri í ráðningu eins dómara.