Stjórnendur félagsins Royal Dutch/Shell hafa verið skömmustulegir að undanförnu. Ástæðan er að upp komst um verulegt ofmat á olíubirgðum félagsins. Raunar gerðist það tvisvar á jafnmörgum mánuðum. Búið er að bola stjórnarformanninum úr sæti sínu vegna þessa og setja milljón eintök af ársskýrslunni í pappírstætarann. Ársfundi félagsins seinkar einnig. Hluthafarnir milljón eru að vonum óhressir. Jafnvel ljúfmennið Beatrix Wilhelmina drottning yfir Hollandi mun hafa skipt skapi vegna mistakanna en hún er sá einstaklingur sem á stærstan hlut í þessu risavaxna olíufyrirtæki með 120 þúsund starfsmenn.
Já ætli það ekki, segir nú sjálfsagt einhver með sjálfum sér: Er ekki orðið lítið eftir af olíunni? Jafnvel minna en olíufélögin reyna að telja okkur trú um? Ætli þetta sé ekki hluti af samsæri olíuiðnaðarins, þessir félagar Bush þið vitið, og jafnvel bílaframleiðenda? Það er ekki gott að eiga við menn sem hugsa svona og líklega hefur Marcus Samuel ekki haft hugmynd um það árið 1833 þegar hann opnaði verslun með skeljar, glingur og gjafavöru í Houndsditch í London að fyrirtæki hans yrði síðar eitt stærsta olíufyrirtæki í heimi og efniviður í samsæriskenningar og tilefni geðshræringar konungborinna.
„…þegar rætt er um olíubirgðir er yfirleitt átt við olíu sem er ekki aðeins tæknilega mögulegt að ná í heldur einnig hagkvæmt miðað við olíuverð á hverjum tíma.“ |
Og það er full ástæða til að hafa augun opin fyrir kenningum um olíuna. „Olían er að klárast“ var einhver lífseigasta samsæriskenning síðustu aldar þótt olíuverð færi til lengri tíma litið lækkandi. Á hverju einasta ári síðustu 130 árin hefur verið fullyrt að síðasti olíudropinn verði kreistur úr iðrum jarðar inna fárra ára eða í besta falli áratuga. Þótt spárnar um olíuþurrðina hafi jafn oft reynst rangar halda menn áfram að spá því að innan tiltekins tíma verði jörðin þurrausin þessum orkuríka vökva sem leysti okkur undan því að höggva og brenna skógana til að halda á okkur hita og knýja vélar og tæki.
Einhver á efri hæðinni hefur hins vegar hagað því svo í neðra að olíu er aðallega að finna undir hættulegustu löndum heims, arabalöndum og Noregi. Það kann að vera hluti skýringarinnar á því hve svartsýnir menn hafa verið á að svarta gullið endist að hún er ekki beint aðgengileg vegna sérkennilegra stjórnarhátta í þessum löndum.
En meginástæðan fyrir þessu er að þegar rætt er um hve lengi olían dugar eru ekki teknar með í reikninginn framfarir sem verða við olíuleit og -vinnslu. Fyrir nokkrum áratugum var aðeins mögulegt að bora eftir olíu á 100 metra dýpi undir yfirborði sjávar en nú bora menn á 1000 metra dýpi. Ný þrívíddargreining á berglögum hefur aukið nýtingu olíulinda úr 40% í 70%. Slíkar framfarir sjá menn ekki fyrir og það er ástæðan fyrir því að við höfum sífellt fleiri ár framundan sem við getum nýtt þennan hagkvæma orkugjafa sem olían er. Það flækir auk þess málið að þegar rætt er um olíubirgðir er yfirleitt átt við olíu sem er ekki aðeins tæknilega mögulegt að ná í heldur einnig hagkvæmt miðað við olíuverð á hverjum tíma. Þegar virkilega fer að sneyðast um olíuna hækkar verðið á henni vafalaust og þá verður um leið hagkvæmt að vinna olíu af svæðum sem áður þóttu ekki árennileg. Auk þess sem aðrir orkugjafar leysa olíuna smám saman af hólmi. Hvenær það verður er ómögulegt að segja til um en vafalaust munu menn ekki hika við spá því að það sé nú alveg augljóst að olían klárist á næstunni.