L eiðari Morgunblaðsins í dag kom skemmtilega á óvart og ber ef til vill vott um jákvæða stefnubreytingu blaðsins í jafnréttismálum. Leiðarahöfundur leggur út af því þegar ráðið var í stöðu leikhússtjóra Leikfélags Akureyrar árið 2002. Ellefu karlar sóttu um starfið og ein kona og þegar einn karlanna en ekki eina konan þótti hæfastur kærði konan ráðninguna. Kærunefnd jafnréttismála og héraðsdómur tóku afstöðu með konunni, en Hæstiréttur sneri nú í janúar við dómi héraðsdóms. Hæstiréttur viðurkenndi að fleira skiptir máli við ráðningu í starf en prófgráður eða önnur formleg hæfnisskilyrði og að huglægt mat á ýmsum þáttum kæmi einnig við sögu. Meginreglan ætti að vera sú að vinnuveitendur réðu hverjir störfuðu fyrir þá, þrátt fyrir að jafnréttislöggjöfin takmarkaði frelsi þeirra til ráðningar.
Í leiðara Morgunblaðsins segir réttilega að þessar málalyktir hljóti að vekja fólk til umhugsunar um það hvort jafnréttislöggjöfin og framkvæmd hennar stuðli endilega að raunverulegu jafnrétti þegar komi að ráðningum í störf. Huglægir þættir skipti miklu máli við ráðningu í störf, en kærunefndir eða dómstólar eigi erfitt með að taka tillit til þessara þátta. Og Morgunblaðið fullyrðir, vafalaust réttilega, að staðreyndin sé sú að í opinberum stofnunum, þar sem lögum samkvæmt beri að auglýsa störf laus til umsóknar, sé ekki alltaf ráðinn sá einstaklingur til starfans sem stjórnendur stofnananna álíti í raun hæfastan, þrátt fyrir að hafa til dæmis minni menntun en annar umsækjandi. Það sé vegna þess að stjórnendurnir óttist að verða sakfelldir fyrir að hafa brotið jafnréttislög. Við þetta má bæta að stjórnendurnir óttast líka að fá á sig harða gagnrýni fjölmiðla, en ef til vill verður þessi leiðari Morgunblaðsins til að draga úr þeim ótta, rétt eins og dómur Hæstaréttar frá í janúar dregur úr ótta við sakfellingu fyrir dómi.
Morgunblaðið bendir á að þessi staða sé ekki raunverulegu jafnrétti kynjanna til framdráttar og hún leiði til þess að rætt sé um að konur séu ráðnar til starfa þrátt fyrir að hæfari karl hafi staðið til boða. Þeir, sem vilji stuðla að jafnrétti í raun, hljóti að velta fyrir sér hvort almenn stefnumótun í jafnréttismálum af hálfu vinnuveitenda, jafnt opinberra sem einkaaðila, sé ekki vænlegri til árangurs í þessum efnum en að jafnréttislögin vofi sífellt yfir sem refsivöndur þegar fólk sé ráðið til starfa. Menn hljóti að velta því fyrir sér hvort rétt sé að endurskoða jafnréttislögin og framkvæmd þeirra.
Vefþjóðviljinn hefur margoft haldið fram svipuðum sjónarmiðum og fagnar því að mál vegna ráðningar leikhússtjóra við Leikfélag Akureyrar skuli fá einhverja til að endurskoða afstöðu sína til löggjafar um jafnrétti kynjanna. Jafnrétti allra einstaklinga gagnvart lögum, hvort sem þeir eru karlar eða konur, er bæði sjálfsagt og nauðsynlegt. Jafnréttislögin snúast hins vegar ekkert um jafnrétti gagnvart lögum, en eru þess í stað ætluð til að þvinga fram tiltekið viðhorf til þess hvernig kynjaskipting eigi að vera hvarvetna í þjóðfélaginu. Eltingaleikur við slíka tölfræði hefur ekkert með jafnrétti fólks að gera. Nema að vísu að því leyti, að í eltingaleiknum er gjarnan brotinn réttur á þeim einstaklingum sem þykja ekki þjóna tölfræðinni hverju sinni.