A tvinnuþróunarfélag Eyjafjarðar hefur látið gera skýrslu um fjölda opinberra starfa og í ljósi fjölgunar opinberra starfsmanna hér á landi mætti almennt reikna með að slík skýrsla skilaði þeirri niðurstöðu að fækka þyrfti opinberum starfsmönnum. En sú varð ekki raunin með þessa skýrslu enda ekki um neina venjulega skýrslu að ræða, heldur samanburðarskýrslu, þar sem borinn er saman fjöldi opinberra starfa á höfuðborgarsvæðinu og Eyjafjarðarsvæðinu. Í frétt Atvinnuþróunarfélagsins af þessari merku skýrslu er því slegið upp að fjölga þurfi opinberum störfum á Eyjafjarðarsvæðinu um 380 til að opinber störf séu nægilega mörg. Nú eru opinber atvinnuþróunarfélög sjálfsagt yfirleitt í mikilli tilvistarkreppu, enda litlar líkur á að þau muni nokkurn tímann þróa atvinnu fyrir aðra en eigin starfsmenn og skýrsluhöfunda. Þrátt fyrir að þeim sé að þessu leyti talsverð vorkunn verður það að teljast heldur döpur frammistaða hjá atvinnuþróunarfélagi þegar helsta innlegg þess í uppbyggingu atvinnumála er að fjölga þurfi opinberum starfsmönnum.
Vitaskuld er það svo að hægt er að eyða mældu atvinnuleysi með opinberum störfum. Þetta hafa aðrar þjóðir reynt með ágætum árangri og má í því sambandi nefna Austur-Þýskaland fyrir fall Berlínarmúrsins. Það að allir hefðu starf var hins vegar ekki jafngilt því að allir ynnu eitthvað nytsamlegt, sem sjá má best á því að verðmætasköpunin var sáralítil og kerfið hrundi á fáum áratugum. Hið sama gildir í grundvallaratriðum ef reynt verður að finna fleiri Eyfirðingum vinnu hjá hinu opinbera. Þeir verða ekki þar með við gagnlega iðju, heldur í einhvers konar atvinnubótavinnu sem er ekkert annað en dulið atvinnuleysi og aukin sóun. Þetta mun síðan smám saman leiða til minni verðmætasköpunar og færri starfa í einkageiranum og yrði hvorki Eyjafirði né öðrum landssvæðum til hagsbóta.
Það sem forsvarsmenn Atvinnuþróunarfélags Eyjafjarðar mættu gera til að efla atvinnu væri að leggja það niður og lækka álögur á almenning sem nemur kostnaði við rekstur þessa í besta falli óþarfa opinbera félags. Þannig myndu skapast forsendur fyrir fjölgun starfa í einkageiranum á svæðinu. Að vísu væri ekki fyrirsjáanlegt hvar nýju störfin yrðu til og ef til vill gæti enginn bent á nýju störfin og hreykt sér af þeim. Þó er alveg ljóst að þegar fólk greiðir lægri skatta rennur meira fé til einkafyrirtækja og þannig verða til fleiri störf þar með aukinni veltu og auknum umsvifum.