Föstudagur 12. mars 2004

72. tbl. 8. árg.
Algert glapræði er að setja fæðingarorlof undir þak sem dygði til að halda útgreiðslum úr sjóðnum og innstreymi í hann í jafnvægi.
 – Sigríður Lillý Baldursdóttir eðlisfræðingur í ræðu á alþjóðlegum baráttudegi kvenna 8. mars sl. skv. frásögn mbl.is

Fæðingarorlofssjóður er eitt umfangsmesta gæluverkefni íslenskra stjórnmálamanna á síðari árum. Jafnvel stærra en „efling utanríkisþjónustunnar“. Lagafrumvarp um fæðingarorlofssjóð var keyrt í gegnum Alþingi á ofsahraða vorið 2000 og greiddu allir viðstaddir þingmenn því atkvæði sitt að Einari Oddi Kristjánssyni undanskildum en hann sat hjá. Fyrir þingkosningar á síðasta ári voru frambjóðendur allra flokka í kappi við að ausa lögin lofi. Á sama tíma höfðu skattgreiðendur ekki undan við að ausa fé í sjóðinn. Sjóðurinn verður að óbreyttu gjaldþrota á þessu ári. Mat fjármálaráðuneytisins á aukinni fjárþörf vegna nýju laganna var helmingi lægra en raun varð á. Fjármálaráðherra taldi alveg fráleitt að um vanmat gæti verið að ræða. Framúrkeyrslan er hins vegar 100%, ekki bara einu sinni eins og þegar um húsbyggingu er að ræða, heldur á hverju ári.

Sérlegur stuðningsmaður frumvarpsins um fæðingarorlofssjóð var Pétur H. Blöndal alþingismaður. Verður lengi í minnum haft hve vasklega hann stuðlaði að því að slegið yrði nýtt met í félagslegri aðstoð við menn sem hafa enga þörf fyrir hana. Forstjórar með 2 milljónir króna á mánuði í laun fá 1,6 milljónir króna á mánuði í allt að sex mánuði úr þessum félagslega sjóði ef þeir eignast barn. Aldrei hefur verið riðið svo þétt öryggisnet í velferðarkerfinu fyrir nokkurn fátæklinginn eða sjúklinginn eins og fyrir hátekjumennina í fæðingarorlofinu. Nú er þetta gæluverkefni Péturs H. Blöndals og félaga hans á Alþingi gjaldþrota. Var öryggisnet velferðarkerfisins hluti af netbólunni árið 2000?

Um þessar mundir situr því að störfum nefnd á vegum félagsmálaráðherra og leitar leiða til að forða ríkissjóði, fyrir hönd skattgreiðenda, frá því að lenda í frekari hremmingum vegna fæðingarorlofssjóðs. Þegar eru farin að heyrast mótmæli við því að sett verði hámark á greiðslur úr sjóðnum. Það er jafnvel talið „algert glapræði“. Verður nokkurn tímann hægt að ræða þetta mál af viti við þá sem láta það út úr sér að það sé „algert glapræði“ að hafa stjórn á því sem streymir úr opinberum sjóðum?

Rök þeirra sem mæla gegn þaki á greiðslur úr þessum félagslega sjóði eru í stuttu máli þau að ef sett verði þak muni hátekjufólkið ekki hafa efni á að vera heima hjá börnunum sínum. Já, frekjan er komin á þetta stig. Um síðustu helgi var samið um það milli samtaka atvinnurekenda og nokkurra manna í þægilegri vel launaðri innivinnu í glæsihöllum verkalýðsfélaganna að lægstu laun í stórum hópi launþega muni hækka í 100 þúsund krónur á mánuði. Þeir sem eru á þessum lægstu launum fá 80 þúsund krónur á mánuði í fæðingarorlofi. Hafa þeir efni á því að vera heima hjá börnunum sínum þegar þeir sem eru á margfalt hærri launum hafa það ekki? Það er nöturlegt að þessari skipan mála var komið á undir þeim formerkjum að verið væri að „jafna rétt manna til fæðingarorlofs“.

Fæðingarorlofssjóður er kennslubókardæmi um að ríkið á ekki að sinna velferðarmálum. Fyrr en síðar ná öflugustu þrýstihóparnir tökum á kerfinu og laga það að þörfum sínum í stað þess að kerfið nýtist þeim sem raunverulega þurfa á aðstoð að halda.

Andríki gerði athugasemdir við frumvarpið vorið 2000.