S amkeppni er vinsæl og þegar samkeppni er annars vegar má segja að allir vildu Lilju kveðið hafa. Það er ekki langt liðið frá því að samkeppni var ekki það eftirlæti allra sem hún er nú. Fyrir aðeins fáeinum árum var fyrrum talsmaður og nú námsmaður Samfylkingarinnar erlendis til að mynda frambjóðandi flokks, Kvennalistans, sem agnúaðist út í samkeppni og annað sem markaðshagkerfið grundvallast á. Hið sama má segja um þá sem komu úr Alþýðubandalaginu inn í Samfylkinguna. Sá flokkur, sem formaður Samfylkingarinnar og fyrrum varaformaður hennar voru lengi í forystu fyrir, var ekki beinlínis áhugasamur um vöxt og viðgang markaðshagkerfisins. Starf þessara flokka hefur nú blessunarlega legið niðri og flokksmennirnir reynt að þvo sér af söguna með því að skipta um nafn og kennitölu. Einu vinstri mennirnir sem enn geta hugsað sér að segja þá skoðun sem þeir hafa alltaf haft á markaðshagkerfi, samkeppni og öðru því sem til heilla hefur verið á Vesturlöndum, til að mynda varnarsamstarfi Vesturlanda, þeir hafa komið sér fyrir í Vinstri hreyfingunni – grænu framboði. Hinir tala oft af velþóknun um samkeppni og annað sem við kemur markaðshagkerfinu, en skilningurinn er ekki alltaf jafn djúpur og ræðutíminn gæti gefið til kynna.
„Það skiptir ekki máli á hvaða markaði samkeppni eykst, þeir sem fyrir eru á markaðnum ættu ekki að fagna henni.“ |
Samkeppni er sem sagt svo að segja óumdeild og enginn vill andmæla samkeppni af ótta – skiljanlegum ótta – við að verða álitinn önugur og heldur óspennandi hafi hann á móti samkeppni. Þetta birtist meðal annars í því að þegar nýtt fyrirtæki haslar sér völl í tiltekinni atvinnugrein, þá finna þeir sem fyrir eru sig knúna til að „fagna samkeppninni“ og segjast jafnvel hlakka til að takast á við aukna samkeppni á markaði sínum, svo sem gerðist á dögunum þegar fyrirtæki kynnti innreið sína á símamarkaðinn. Þetta hljómar ef til vill óskaplega sennilega, að minnsta kosti það sennilega að mennirnir eru aldrei spurðir að því hvers vegna í ósköpunum þeir fagni samkeppninni. Mun aukin samkeppni ekki draga úr hagnaði fyrirtækis þíns? væri til að mynda eðlileg spurning til forsvarsmanns fyrirtækis sem segist fagna aukinni samkeppni og væntanlega væri erfitt fyrir hann að neita því að það væri líkleg niðurstaða. Það skiptir ekki máli á hvaða markaði samkeppni eykst, þeir sem fyrir eru á markaðnum ættu ekki að fagna henni, að minnsta kosti ekki ef markmið þeirra er að hámarka hagnað fyrirtækis síns. Nú er auðvitað hugsanlegt að þeir hafi önnur markmið, til að mynda að hámarka ánægjuna sem þeir hafa af krefjandi störfum sínum. Og það er líka hugsanlegt að þeim sé algerlega sama um arðsemi fjárfestingar hluthafa fyrirtækjanna, en þetta verður þó að teljast afar ólíklegt.
Það hafa margir ástæðu til að fagna samkeppni, en brúðguminn í þessu brúðkaupi hafði þó ekki ástæðu til að fagna óvæntri samkeppni frá einum gestanna. |
Hið sama gildir um samkeppni á öðrum sviðum mannlegs samfélags, menn fagna almennt ekki samkeppni. Maður sem hefur hug á að gefa kost á sér í eitthvert embætti verður til að mynda ekkert glaðari við tilhugsunina um að annar maður hafi einnig hug á að ná til sín embættinu. Sá sem sækir um draumastarfið, hann fagnar því ekki heldur þegar hann fréttir að hann sé í glæsilegum hópi þrjú hundruð umsækjenda sem séu hver öðrum hæfari. Og vonbiðillinn, þar sem hann stendur á tröppunum hjá draumadísinni, hann fagnar því ekkert sérstaklega þegar annar maður í sömu erindagjörðum stillir sér upp við hliðina á honum í sínu fínasta pússi. Samkeppni er hreinlega ekkert fagnaðarefni fyrir þá sem þurfa að takast á við hana. Á þessu eru einhverjar undantekningar, en þó aðeins ef keppnin sjálf en ekki niðurstaða hennar er aðalatriðið. Þannig getur spretthlaupari fagnað því að fá að etja kappi við annan ekki síður fótfráan, en jafnvel viðhorfið til þeirrar samkeppni breytist líklega ef keppt er vegna verðlaunanna en ekki bara til að fá útrás fyrir keppnisþörfina sjálfa.
En er þá verið að halda því fram að samkeppni sé nokkuð sem enginn maður ætti að fagna? Nei, alls ekki, aðeins að sumir hljóti að harma samkeppnina. Um leið eru margir sem hafa fulla ástæðu til að fagna samkeppninni. Þeir sem ætla að ráða í starf og fá þrjú hundruð hæfa umsækjendur hafa til að mynda ríka ástæðu til að fagna samkeppninni. Sama gildir um heimasætuna sem getur valið milli tveggja vonbiðla í stað þess að þurfa að sætta sig einn kost – að því gefnu að hún hafi yfirleitt einhvern hug á að festa ráð sitt. Og neytendur, til að mynda símnotendur, hafa að öðru óbreyttu ástæðu til að fagna því ef framboðið eykst með fleiri fyrirtækjum.
Almennt talað er samkeppni nefnilega neytendum til hagsbóta, því að með henni standa þeir frammi fyrir fleiri möguleikum og yfirleitt lægra verði en ef samkeppni er ekki fyrir hendi. Þessi staðreynd er almennt gild og nánast óumdeild meðal hagfræðinga, svo einn hópur manna sem iðulega telur sig hafa þekkingu á slíkum málum sé nefndur til sögunnar. En fyrst samkeppni er svona jákvæð, er þá ekki til fyrirmyndar að allt sé gert til að efla hana, til að mynda með því að ríkið skuli reka sérstaka stofnun sem vinnur að því að tryggja að samkeppni sé sem mest sem víðast? Nei, svo einfalt er þetta ekki. Það er nefnilega ekki nóg að hafa samkeppni, samkeppnin þarf að vera frjáls. Það er frjálsa samkeppnin sem er jákvæð, en hún felur í sér að allir megi keppa á markaði og að engan megi útiloka frá þeirri keppni. Frjáls samkeppni felur ekki í sér að skylda sé að mörg fyrirtæki keppi á öllum mörkuðum eða að nauðsynlegt sé að ríkið tryggi samkeppnina, til dæmis með því að hafa afskipti af verðlagningu fyrirtækja, stjórnarsætum í fyrirtækjum, skipulagi fyrirtækjanna, og svo framvegis. Með slíkum afskiptum hefur ríkið gengið lengra en það ætti að gera og er farið að draga úr hagkvæmni í þeim misskilda tilgangi að tryggja samkeppni. Það sem ríkið ætti að gera í samkeppnismálum er að gæta þess að aðgangur að öllum mörkuðum sé frjáls og að engum sé meinað að keppa og með því móti mun hagkvæmasta niðurstaða fást, enda er frjáls samkeppni tryggð með frjálsum aðgangi að mörkuðum. Það er ekki víst að sú niðurstaða feli í sér mikinn fjölda fyrirtækja á hverjum markaði, en niðurstaðan af slíkri frjálsri samkeppni verður sá fjöldi fyrirtækja sem er hagkvæmastur fyrir hinn almenna mann. Í einstökum tilvikum kann jafnvel að vera að hagkvæmast sé að einungis eitt fyrirtæki bjóði tiltekna þjónustu, en það fyrirtæki mun engu að síður búa við aðhald hinnar frjálsu samkeppni og verður að haga sér eftir því. Fyrirtækið þarf alltaf að óttast, ef aðgangur að markaðnum er frjáls, að önnur fyrirtæki hefji starfsemi ef það veitir slæma þjónustu eða býður of hátt verð. Og bjartsýnismenn í hópi athafnamanna – reynslan sýnir að á þeim er enginn hörgull – munu jafnvel hefja starfsemi í samkeppni við það fyrirtæki sem er fyrir á markaðnum þó að það bjóði hagstætt verð og góða þjónustu. Af þessum ástæðum búa öll fyrirtæki við samkeppni ef frjáls samkeppni er leyfð án hindrana.
Sá misskilningur sem almennt hefur ríkt um samkeppni í gegnum tíðina er bagalegur. Eins og að framan er lýst ríkti lengi vel mikil tortryggni gagnvart samkeppninni og margir töldu hana skaðlega. Nú hefur dæmið snúist algerlega við og orðið samkeppni hefur náð þeirri stöðu að enginn þorir að segjast harma hana, jafnvel þótt hann hafi ástæðu til. Staðreyndin er einfaldlega sú að samkeppni er góð fyrir allan almenning, en þó er ekki öll samkeppni góð fyrir alla, og þá er sérstaklega vísað til þeirra sem lenda í henni. Og samkeppni er ekki af hinu góða ef hún verður til fyrir afskipti ríkisins. Frjáls samkeppni er hið eftirsóknarverða ástand og hún er það sem kosta ætti kapps um að tryggja.