Ínýjasta tölublaði Stúdentablaðsins er meðal annars rætt við Sigurð Líndal prof. em. um líf hans og störf. Af einhverjum ástæðum er auk þess fengið álit Sigurðar á einni tiltekinni mannaráðningu, það er að segja skipan hæstaréttardómara síðast liðið sumar, og er skemmst frá því að segja að Sigurður er hinn versti yfir henni og tekur mjög í sama streng og sá umsækjandi sem reiðastur var á sínum tíma, Eiríkur Tómasson prófessor og samkennari Sigurðar. Þetta álit Sigurðar dregur blaðið út úr með breyttu letri og kynnir auk þess á forsíðu, svona eins og um stórfrétt sé að ræða. Sama hafa tilteknir fjölmiðlar gert eftir útkomu blaðsins og telja stóryrta gagnrýni Sigurðar hina merkustu frétt.
Það er dálítið gaman að hugsa til þess, svona í ljósi þess að hinir og þessir lögðu mikla áherslu á að sýna fram á tengsl þess umsækjanda, sem hlutskarpastur varð, við tiltekinn samráðherra þess sem veitti embættið, að Sigurður Líndal, hann er nú kannski ekki með öllu ótengdur öllum heldur. Sigurður er ekki einungis samstarfsmaður umrædds Eiríks heldur er hann auk þess föðurbróðir eiginkonu hans. Hann er með öðrum orðum skyldari eiginkonu reiðasta umsækjandans heldur en nýi dómarinn er nokkrum ráðherra. En enginn fjölmiðill nefnir það og þá ekki heldur þeir fjölmiðlamenn sem hafa gert mikið úr tengslum nýja dómarans við ráðherra. Og Stúdentablaðið nefnir þetta vitaskuld ekki heldur þó það geri eins mikið úr ummælum Sigurðar og það getur. Það má bara vel vera að oftast láti menn tengsl af þessu tagi ekki hafa áhrif á skoðanir sínar og ákvarðanir. En það er líka allt í lagi að menn viti af þeim.
En þegar hugsað er til þessarar dómaraskipunar þá rifjast upp að fleiri hafa tjáð sig um hana en þeir prófessorar, Eiríkur og Sigurður. Meðal annars var opinberlega rætt við tvo hæstaréttarlögmenn sem höfðu ýmislegt fram að færa sem einhver mætti nú draga ályktanir af. Annar hæstaréttarlögmaðurinn lýsti þeirri skoðun sinni að dómsmálaráðherra hefði einfaldlega valið hæfasta umsækjandann og tók sérstaklega fram að hinn nýi dómari hefði einfaldlega risið af eigin verðleikum en skyldleiki við ráðherra hefði þar engu máli skipt. Og hvaða hæstaréttarlögmaður ætli þetta hafi verið, Jón Steinar Gunnlaugsson kannski? Onei, svona talaði nú Sigurður G. Guðjónsson, hæstaréttarlögmaður og forstjóri Norðurljósa hf.
Og hinn hæstaréttarlögmaðurinn tók í sama streng, sagðist sjálfur veðja á hinn nýja dómara og gat þess sérstaklega að hann hefði í dómstörfum sínum hreint ekki verið hallur undir ríkisvaldið en hefði þvert á móti kveðið upp merka dóma í gagnstæða átt. Og hver ætli sá lögmaður hafi verið, það hefur þá kannski verið Jón Steinar Gunnlaugsson? Onei, það var nú Ragnar Aðalsteinsson. Það má margt segja um þá Sigurð G. Guðjónsson og Ragnar Aðalsteinsson, en þeir eru ekki samsærisfélagar Björns Bjarnasonar.