F
Sambúð ríkis og kirkju og homma og lesbía er víðar til umræðu en á Íslandi. |
yrir skömmu greindi Anders Fogh Rasmussen, forsætisráðherra Dana, frá þeirri skoðun sinni að hann teldi að hommar og lesbíur ættu að geta fengið vígslu í kirkju enda eigi hann erfitt með að sjá fyrir sér að Drottinn fari í manngreinarálit gagnvart samkynhneigðum. Ollu ummælin gífurlegri umræðu í Danmörku enda ekki við öðru að búast þegar forsætisráðherra landsins viðrar svo umdeilda skoðun.
Nú er það svo að kirkjan, sérstaklega hin lúterska, hefur borið til þess gæfu að þróast samhliða öðrum samfélagsbreytingum. Trúar- og helgisiðir hafa tekið miklum breytingum í aldanna rás. Fátt í trúarbragðaiðkun kristinna manna nútímans og helgiathöfnum kirkjunnar á mikið sameiginlegt með trúariðkun á dögum frumkristninnar. Enda eru það misvitrir og breyskir menn sem reyna að túlka guðlegan vilja og túlkunin þróast samhliða tíðarandanum. Kirkjan hefur aðlagað sig siðum hvers tíma og vissulega tekið þátt í að móta þá siði. Það hefur ekki síst orðið til þess að fæstir eru ósáttir við kirkjuna, jafnvel þótt margir séu ekki tiltakanlega trúaðir. Á Íslandi og í Danmörku sækja flestir alls kyns þjónustu til kirkjunnar, eru skírðir og fermdir og nánast allir eru kvaddir hinstu kveðju við kirkjulega athöfn. Dæmi um það, hvernig kirkjan þróast með öðrum siðum samfélagins, má sjá í brúðkaupum.Óvíst er að margir klerkar hefðu samþykkt að lög Elvis Presleys væru flutt við brúðkaup fyrir 40 árum. Í dag þykir hins vegar ekkert tiltökumál þó að flutt séu dægurlög við slíkar athafnir, jafnvel við jarðarfarir. Þess vegna kann að fara svo, þó að kirkjunnar mönnum finnist það ekki endilega sambærilegt, að minnsta kosti ekki nú um stundir, að kirkjan muni í náinni framtíð fallast á að vígja sambönd homma og lesbía.
„Meðan tengslin milli kirkju og ríkis eru á þennan hátt er sjálfstæði hennar ekki fullkomið og afskipti ríkisins af málefnum hennar geta auðveldlega orðið óeðlileg.“ |
Það er hins vegar ekki ætlunin í helgarsproki dagsins að blanda sér í umræðuna um kosti eða galla, réttmæti eða óréttmæti þess að gefa saman homma og lesbíur innan vébanda kirkjunnar. Ætlunin er að velta vöngum yfir, hverjum beri að taka þá ákvörðun og almennt um sjálfstæði kirkjunnar. Ástæða þess, að ummæli Anders Fogh hafa vakið svo mikla umræðu, er vitanlega að ríkisstjórn hans, sem nýtur þingmeirihluta, hefur vald til að setja um þetta lög. Valdið um það hvort vígja beri homma og lesbíur liggur að lokum í Folketinget. Enda óttuðust margir kirkjunnar menn að ummælin væru vísbending um að lagafrumvarp þess efnis kæmi fram á þinginu og yrði samþykkt.
Auðvitað hlýtur það að vera kirkjunnar að ákveða hvaða hjónabönd sé rétt að vígja innan vébanda hennar. Það er óþolandi fyrir kirkjunnar fólk, sem hefur eytt miklum hluta ævi sinnar í að mennta sig í guðfræði og helgisiðum kirkjunnar, að þurfa að taka því að mis-upplýstir og velviljaðir þingmenn taki svo stórar ákvarðanir í málefnum hennar. Það er jafnframt ólíðandi að hafa yfir höfði sér að þingmenn geti fundið upp á alls kyns hlutum sem alls ekki er víst að þjóni hagsmunum kirkjunnar og misbjóða jafnvel mörgum trúuðum.
Þó að kirkjan njóti meira sjálfræðis um málefni sín á Íslandi en í Danmörku, þá er það enn svo, að um hana gilda sérstök lög sem ekki gilda um önnur trúfélög. Eru lögin svo ítarleg og um leið bindandi að þar er kveðið á um öll helstu smáatriði stofnanauppbyggingar og ákvarðanatöku kirkjunnar. Þættir sem flest félög setja sjálf sín eigin lög um og breyta eftir því sem félagar þess verða ásáttir um. Óski kirkjuþing eftir breytingum um kirkjuleg málefni, þarf það að beina tilmælum þess efnis til ráðherra, að þau verði flutt á Alþingi. Eins og önnur lagafrumvörp þarf frumvarpið meirihluta til að verða að lögum. Kirkjan hefur því ekki fulla sjálfstjórn um kirkjuleg málefni. Lögunum, sem ekki gilda um aðra en kirkjuna, verður ekki breytt af öðrum en Alþingi. Og ekki er hægt að hindra að Alþingi breyti þessum lögum samkvæmt þeim vilja, sem meirihluti þar kann að hafa. Og ekki getur kirkjan ákveðið skipan sem stangast á við þessi lög, þó að um það kunni að ríkja mikil eining innan kirkjunnar. Jafnframt kemur ríkisvaldið samkvæmt lögunum beint að ýmsum málefnum hennar, eins og að skipa biskup, vígslubiskupa og sóknarpresta, lausn ágreiningsmála er upp kunna að koma, greiðslu launa presta og fleira. Kirkjan nýtur þannig sérstöðu umfram önnur félög.
Sérstöðunni fylgir að svo lengi sem kirkjan er þjóðkirkja geta borgarar ríkisins og fulltrúar þeirra gert kröfu á hendur henni. Ríkið mundi til dæmis tæplega sætta sig við ákvörðun þess efnis að prestar neituðu að gefa saman fráskilið fólk þrátt fyrir að fyrir því væri mikill hljómgrunnur meðal kirkjunnar manna og trúaðra. Meðan tengslin milli kirkju og ríkis eru á þennan hátt er sjálfstæði hennar ekki fullkomið og afskipti ríkisins af málefnum hennar geta auðveldlega orðið óeðlileg.
Nú skal það tekið fram að Vefþjóðviljanum er engan veginn í nöp við kristna trú eða kirkju, síður en svo. Og um veraldlegan þátt kirkjunnar má segja að Vefþjóðviljinn gerir sér fulla grein fyrir framlagi hennar til menningar landsins og þess lýðræðisskipulags sem við búum við á Vesturlöndum. Vefþjóðviljinn gerir sér jafnframt grein fyrir framlagi ýmissa annarra trúarbragða, en bendir á að engum hefur dottið í hug að veita þeim sérstaka stöðu af þeim sökum. Vefþjóðviljinn telur kjarna málsins vera að það þjóni hagsmunum kirkjunnar, og sé um leið sanngirnismál, að skilið verði á milli ríkis og kirkju og að hún losni þar með undan áhrifum ríkisvaldsins. Kirkjan á að vera æðsta og endanlega valdið í eigin málefnum.
Eitt helsta baráttumál kirkjunnar ætti að vera að skilið væri milli ríkis og kirkju. Um kirkjuna ættu að gilda almennar reglur sem um önnur trúfélög og annan félagsskap. Þessi skoðun á þó ekki upp á pallborðið hjá kirkjuyfirvöldum. Þó að þeir prestar finnist vissulega sem hafa þá skoðun að farsælast væri að skilja betur á milli þessara stofnana, halda þeir henni að jafnaði ekki á lofti enda er hún ekki líkleg til að verða þeim til framdráttar meðal æðstu manna kirkjunnar. Í Svíþjóð er hins vegar annað upp á teningnum. Þar ræða margir kirkjunnar menn þá skoðun sína að hagsmunum kirkjunnar sé ekki best borgið með svo nánum tengslum við ríkið. Það skorti á fjárhagslegt sjálfstæði, svo ekki sé talað um pólitískt. Náið samband ríkis og kirkju komi fyrir vikið niður á trúverðugleika kirkjunnar og sjálfsákvörðunarréttur hennar sé skertur. Auk þess eru margir þeirrar skoðunar að aukin samkeppni kirkjunnar við önnur trúfélög gæti einmitt orðið kirkjunni lyftistöng. Kostir markaðskerfisins eigi ekki síður við um kirkjuna en á öðrum sviðum. Í því felist dýnamík sem muni gagnast kirkjunni. Jafnframt verði öðrum trúarbrögðum sýnd sönn virðing með því að kirkjan njóti sömu fyrirgreiðslu og önnur trúfélög, hvorki meiri né minni. Kristnir menn krefjast jú að kristinni kirkju sé sýnd virðing í samfélögum þar sem önnur trúarbrögð eru ráðandi. Varla væri hægt að fara fram með betra fordæmi en að koma á jöfnuði meðal allra trúfélaga í ríkjum þar sem flestir íbúarnir játa kristna trú.