Nú verður sæti forseta lýðveldisins laust eða hann getur ekki gegnt störfum um sinn vegna dvalar erlendis, sjúkleika eða af öðrum ástæðum, og skulu þá forsætisráðherra, forseti Alþingis og forseti Hæstaréttar fara með forsetavald. Forseti Alþingis stýrir fundum þeirra. Ef ágreiningur er þeirra í milli, ræður meirihluti. |
– Stjórnarskrá Lýðveldisins Íslands, 8. grein. |
Hann hefur verið búinn að fatta þetta í gær. Það er með hreinum ólíkindum að forseti Íslands fari bara úr landi þegar minnst er 100 ára þingræðis og heimastjórnar á Íslandi. Til hvers er þetta embætti ef sá sem gegnir því sér ekki ástæðu til að vera kokteilpinni á slíkum tímamótum? Fyrsti febrúar 1904 var einn stærstu daga Íslandssögunnar og Ólafur Ragnar Grímsson hljóp á sig þegar hann ákvað að vera bara úti í löndum þegar aldarafmælis hans var minnst. Þetta hefur hann sjálfur verið búinn að sjá í gær og jafnframt það að þetta gæti að óbreyttu ekki farið fram hjá neinum sæmilegum manni. Og þá reynir hann að snúa umræðunni frá því sem máli skiptir og blasir við, yfir í tóm furðulegheit. Og virðist hafa náð að plata að minnsta kosti eina fréttastofu upp úr skónum. Ríkisútvarpið lét að minnsta kosti í gær eins og því fyndist í raun að hið fréttnæma væri ekki það að sameiningartákn þjóðarinnar svokallað tæki hatt sinn og skíðastaf og hyrfi úr landi eins og hver annar frílystari þegar minnast ætti eins stærsta atburðar Íslandssögunnar – heldur það að maðurinn í fríinu hefði verið móðgaður með því að aðrir hefðu einfaldlega málalengingalaust hlaupið í hans skarð eins og skylda þeirra bauð og áratugavenja sagði.
Forsetinn hefur vafalítið talað af ástæðum eins og vikið var að hér að ofan; hann er að reyna að beina athyglinni frá eigin fjarveru og gera sig – manninn sem fór frá öllum hátíðarhöldum – að píslarvotti. Þegar forseti Íslands er staddur á landinu, er tiltækur og hefur ekki verið lýstur vanheill, þá fer hann með forsetavald. Við allar aðrar aðstæður flyst forsetavaldið frá þessari persónu til nánar greindra manna. Og þetta gerist oft á ári, jafnvel lengi í einu. Handhafar forsetavalds eru sífellt að fara með forsetavald; staðfesta lög, skipa í embætti, samþykkja lagafrumvörp og svo framvegis. Ekkert þessara starfa gera þeir í neinu samráði við þá persónu sem aðra daga ársins fer með forsetavaldið, forseta Íslands. Það að „stýra ríkisráðsfundi“ er mun minni aðgerð en að staðfesta lög með samþykki sínu. Hvaða stórmerki halda menn eiginlega að felist í því að „stýra ríkisráðsfundi“? Halda mælendaskrá? Úrskurða um fundarsköp? Ef forseti Íslands, þessi reglulegi, hefur eitthvað við það að athuga að handhafar stýri ríkisráðsfundi þá hlýtur hann að hafa eitthvað að athuga við stjórn þeirra á fundinum eða hvernig þeir fóru þar með forsetavald; í stuttu máli: forseti Íslands hefur aldrei í sögunni gert athugasemd við það að handhafar forsetavalds staðfesti lög í fjarveru hans og það án þess að bera það á nokkurn hátt undir hann og þar sem hann hefur ekkert við það að athuga, almennt, að handhafarnir fari með vald hans, þá hlýtur hann nú að hafa eitthvað við það að athuga við það hvað þeir gerðu við vald hans. Forseti Íslands hlýtur að vera ósáttur við þá reglugerðarbreytingu sem staðfest var á sunnudag.
Útúrsnúningar útúrsnúningar hrópar nú kannski einhver. Ónei. Það að stýra ríkisráðsfundi er ekkert sérstakt atriði. Það sem skiptir máli er hvað gert er á fundinum. Það að stýra ríkisráðsfundi er mun minna en að staðfesta lagafrumvarp sem eftir það verður að gildandi lögum þegar eftir birtingu. Ef að handhafar forsetavalds hefðu nú ekki setið ríkisráðsfund á sunnudag heldur einfaldlega skrifað undir lög, þá hefði engum dottið í hug að það væri „óvirðing“ við forsetann – vel að merkja forsetann sem sýndi öðrum virðingu sína með því að vera bara úti í löndum á hundrað ára þingræðisafmælinu. En þegar handhafarnir hefðu fyllilega mátt staðfesta lög – og vitaskuld án þess að tala við hinn reglulega forseta, að ekki sé minnst á „skrifstofu“ hans, sem einhverjir furðumenn virðast telja að geti komið til álita – hvernig getur þá verið að handhafarnir megi ekki sinna mun veigaminna máli, það er að segja að staðfesta reglugerð á ríkisráðsfundi? Og þegar handhafarnir mega staðfesta lög án þess að tala við hinn reglulega forseta, þá sjá flestir auðvitað hvílíkur fyrirsláttur er í örvæntingarfullu talinu um að forseti sé „öryggisventill“ og þess vegna megi handhafar forsetavalds ekki sitja ríkisráðsfund. Auðvitað nær þessi vitleysa engri átt. Forsetinn fór úr landi og það var auglýst í Stjórnartíðindum að forsetavald hefði flust frá Ólafi Ragnari Grímssyni til handhafa forsetavalds. Eins og oft áður. Það sem Ólafi Ragnari svíður er vafalítið einfaldlega það að það blasir við öllum hvernig hann sjálfur fór að ráði sínu og nú gerir hann allt til að beina athyglinni frá því.