Miðvikudagur 4. febrúar 2004

35. tbl. 8. árg.

S

Skatttekjur af fyrirtækjum geta hækkað þótt skatthlutföll séu lækkuð.

katttekjur af fyrirtækjum hafa farið minnkandi í heiminum á síðustu áratugum. Í grein í The Economist segir að árið 1965 hafi þessar tekjur í Bandaríkjunum numið 4% af landsframleiðslunni en nú sé þetta hlutfall komið niður í 1%. Svipaða sögu megi segja í nánast öllum iðnvæddum ríkjum. Þetta er út af fyrir sig athyglisvert, en undantekningarnar eru enn athyglisverðari. Skatttekjur af fyrirtækjum á Írlandi og fleiri ríkjum sem hafa lækkað skatta á fyrirtæki til að laða þau til sín eru undantekningar frá meginreglunni. Í þessu sambandi má nefna að hér á landi hafa tekjuskattar á fyrirtæki verið lækkaðir úr 50% í 18% frá því um 1990 þrátt fyrir andstöðu hinnar nútímalegu og framsýnu stjórnarandstöðu sem setið hefur á Alþingi á þessu tímabili.

The Economist bendir á að nú sé orðið auðvelt fyrir fyrirtæki að færa sig á milli landa eða að minnsta kosti að láta hagnaðinn myndast í þeim ríkjum sem skattar eru lægstir. Þetta þekkja menn hér á landi af ummælum forsvarsmanna íslenskra fyrirtækja sem hafa starfsemi erlendis. Þeir bentu á það þegar skatturinn var lækkaður úr 30% í 18% fyrir fáeinum árum að sú lækkun myndi hvetja þá til að auka starfsemi hér á landi og láta sem stærstan hluta hagnaðarins verða til hér. En þó að langt hafi verið gengið í þessari skattalækkun hér á landi miðað við flest önnur ríki sem Ísland ber sig almennt saman við hefur ekki verið gengið jafn langt og The Economist leggur til. Tímaritið bendir á að skattlagningu á fyrirtæki fylgi mikill kostnaður og eftirlit og hún hafi haft í för með sér vandamál og jafnvel hneykslismál þegar fyrirtæki reyna að víkja sér undan skattheimtunni. Lausnin er einföld að sögn The Economist; einfaldlega að hætta að skattleggja fyrirtæki. Þessi jákvæða hugmynd hefði að vísu þau „slæmu“ áhrif að starfsmönnum ríkisins myndi fækka og endurskoðendur hefðu minna að gera, en áhrifin á efnahagslífið yrðu tvímælalaust af hinu góða. Ef íslenska ríkið færi þessa leið gæti það annaðhvort náð skatttekjunum í gegnum aðra og síður óhagkvæma skatta, eða það sem betra er, dregið saman útgjöld um nokkra milljarða króna.