Fimmtudagur 22. janúar 2004

22. tbl. 8. árg.

F ormaður Læknafélags Íslands var gestur Pressukvölds Ríkissjónvarpsins í gærkvöldi þar sem til umræðu var – ótrúlegt en satt – heilbrigðiskerfið. Formaðurinn var ekki tiltakanlega sannfærður um nauðsyn þess að gæta aðhalds í þessu kerfi og sagði í byrjun þáttarins að í umræðu um fjármál þess væri alltaf uppi „sama gamla viðkvæðið – það eru ekki til nægir peningar“. Þótti formanninum þetta fráleitt sjónarmið því ekki væri komið að „sársaukamörkum“ í álögum á landsmenn. Nú er ekki gott að segja hvar sársaukamörk formanns læknafélagsins liggja, en ýmsum þykir sárt að greiða um eða  yfir 40% tekna sinna í beinan skatt, greiða að því búnu 24,5% virðisaukaskatt á þær vörur sem keyptar eru, fyrir utan alls kyns innflutningsgjöld, holræsaskatt, stimpilgjöld, fasteignaskatt, bifreiðagjöld, bensíngjöld og svo framvegis og svo framvegis. Það má vera að öll þessi gjöld séu undir sársaukamörkum lækna – að minnsta kosti formanns lækna – en þá er augsýnilega fleira en læknisprófið sem skilur þá frá hinum almenna manni.

Síðar í þættinum vék formaðurinn aftur að þeirri skoðun sinni að ekki væri miklu eytt af opinberu fé til heilbrigðismála og taldi útgjöldin lítið sem ekki hafa aukist hlutfallslega. Þetta eru athyglisverð sjónarmið, ekki síst þegar haft er í  huga að útgjöld til heilbrigðismála hafa einmitt hækkað mikið á síðustu árum. Raunaukning á árunum 1995 til 2000 var til að mynda 6% á ári að meðaltali, sem er vel yfir hagvexti. Og ef Ísland er borið saman við önnur ríki OECD hefur aukningin orðið mun meiri en þar og nú er svo komið að Ísland, sem á árum áður var undir meðaltalinu, er fyrir löngu komið yfir það.

Útgjöld til heilbrigðismála hafa vaxið svo ört vegna þess meðal annars að kostnaðareftirlit er ekki fyrir hendi svo nokkru nemi. Kerfið er hít sem endalaust er hægt að moka peningum ofaní og fyllist aldrei. Það verður einfaldlega aldrei hægt að uppfylla allar þær kröfur sem gerðar verða um aukna heilbrigðisþjónustu. Eitt af því sem hægt væri að gera til að draga úr vexti heilbrigðiskerfisins væri að taka það úr höndum ríkisins, og formaður Læknafélagsins var reyndar jákvæður í garð slíkra hugmynda. Hann sagðist að vísu ekki vilja einkavæða heilbrigðiskerfið, en hann sagðist vilja að aðrir en ríkið veittu þjónustuna. Læknafélagið ætti miklu fremur að beita sér fyrir jákvæðum hugmyndum af þessu tagi en að berja höfðinu við steininn og standa ævinlega gegn sparnaði í kerfinu. Með því að líta á ríkið sem kaupanda þjónustunnar en láta einkaaðila veita hana mætti ná fram hagkvæmara kerfi þar sem krónurnar nýttust betur og minna væri bruðlað með fé. En einn vandinn í umræðunni um heilbrigðismál er reyndar sá, að ekki má halda því fram að einhvers staðar kunni að vera farið illa með fé. Sé það gert verða talsmenn kerfisins óskaplega heilagir og neita því að nokkurs staðar sé hægt að spara án þess að þjónustan verði óviðunandi. Þeir sem mæla með uppsögnum til sparnaðar fá jafnvel á sig spurningar um það hvort þeir telji að einhverjir starfsmenn eigri verkefnalausir um ganga sjúkrahúsanna. Með slíkum hugsunarhætti verður seint sparað á nokkru sviði, framleiðni mun þá hvergi aukast og lífskjör ekki batna.