Hvaða skoðun ætli Samfylkingin hefði á framtíð sparisjóðanna á Íslandi ef Pétur H. Blöndal væri ekki formaður efnahags- og viðskiptanefndar Alþingis? Undanfarnar tvær vikur hefur talsvert verið rætt um hugsanleg kaup banka á sparisjóðum, fyrst þeim stærsta og svo sjálfsagt fleiri, og þykir ýmsum sem það yrði óhjákvæmilega til þess að sparisjóðirnir hyrfu. Vinstrigrænir fóru fram á að haldinn yrði fundur í efnahags- og viðskiptanefnd alþingis þar sem nefndarmönnum yrði gefinn kostur á að kynna sér málavexti, og féllst Pétur H. Blöndal á það. Og síðan hefur ekki verið fundarfært í nefndinni þar sem Samfylkingin tekur ekki í mál að Pétur stýri fundinum, þar sem hann hafi hagsmuni af hugsanlegri sölu Sparisjóðs Reykjavíkur og nágrennis sem stofnfjáreigandi og stjórnarmaður. Annað en þetta, að tiltekinn maður megi ekki vera fundarstjóri á „upplýsingafundi“ þingnefndar, sem enga ákvörðun tekur í málinu, hefur Samfylkingin enn ekki haft að segja.
Þingmenn verða ekki vanhæfir – í lögfræðilegum skilningi að minnsta kosti – til að fjalla um þingmál, að öðru leyti en því að samkvæmt þingsköpum má enginn þeirra greiða atkvæði með fjárveitingu til sjálfs sín. Lögfræðilega er hún röng, krafan um að Pétur H. Blöndal víki af fundum þegar efnahags- og viðskiptanefnd ræðir hugsanlega sparisjóðssölu; þó þá megi auðvitað halda áfram þrætum og segja að þá beri honum bara siðferðileg skylda til að víkja. En jafnvel það er vafasamt, þó auðvitað megi fremur deila um það en hitt. En þegar horft er á það að þingnefndin tekur ekki nokkra ákvörðun í málinu sem hún auk þess ræður ekki og einungis stóð til að fá fulltrúa banka og sparisjóða á fundinn til að fræða nefndarmenn um stöðu málsins, þá sést hversu málið er smávægilegt. Og svo hættir það eiginlega að vera smávægilegt þegar hugsað er til þess að tugir manna mættu til nefndarinnar samkvæmt boðun, en urðu að bíða klukkutímum saman á göngum þingsins þar sem Samfylkingin neitaði að ræða annað en „vanhæfi“ Péturs H. Blöndals. Til að stjórna „upplýsingafundi“.
Og hvað ætli Samfylkingin meini með þessu nýjasta mómenti sínu? Dettur einhverjum í hug að Ögmundur Jónasson, formaður BSRB, yfirgefi þingsalinn þegar talið berst að kaupi og kjörum launafólk, réttindum opinberra starfsmanna eða einkavæðingu ríkisfyrirtækja – sem fækkar þeim sem borga félagsgjöld til BSRB? Situr ekki Lúðvík Bergvinsson í bæjarstjórn Vestmannaeyja og berst þar fyrir hagsmunum sinna manna og situr svo á þingi og neitar að styðja línuívilnun ef hún gæti leitt til þess að aflaheimildir færðust frá Eyjum? Gaf Ingibjörg Sólrún Gísladóttir ekki það upp sem ástæðu fyrir þingframboði sínu fyrir rúmu ári, að nú þyrfti sérstakan baráttumann í málefnum Reykjavíkurborgar á þing? Og vel að merkja, þessa ástæðu gaf hún á þeim tíma þegar hún var bæði á leið í framboð og að reyna að halda borgarstjórastólnum. Og Samfylkingin tónaði undir. Borgarstjórinn í Reykjavík mætti semsagt sitja á þingi sérstaklega til að beita sér í málefnum borgarinnar, en stofnfjáreigandi í SPRON má ekki stýra upplýsingafundi í þingnefnd.
Fyrst talað er um tengsl og hæfi, þá má kannski bæta við smáatriði í lokin. Undanfarið hafa ýmsir áhugamenn um lögfræði gagnrýnt Hæstarétt Íslands fyrir túlkun hans á stjórnarskrá landsins og ekki síður fyrir túlkun dómaranna á stöðu sinni innan stjórnskipunarinnar. Gott og vel, af þessu tilefni ræddi Morgunblaðið við tvo fræðimenn á þessu sviði, annar er hæstaréttarlögmaður en hinn prófessor við lagadeild Háskóla Íslands og er skemmst frá því að segja að prófessorinn var ekki samþykkur gagnrýninni á dóma Hæstaréttar. Nú er engin ástæða til að gera lítið úr prófessor þessum eða efast um að prófessorinn sé í senn efnilegur og vandaður fræðimaður. En engu að síður hefði nú verið í lagi af blaðinu, svona fyrst verið er að fjalla um það hvort Hæstiréttur hefur ítrekað farið út fyrir valdheimildir sínar, að geta þess við lesendur að prófessorinn er jafnframt eiginkona forseta Hæstaréttar.