S
amráð er ekki sérlega vel séð og margir vilja raunar lögsækja þá sem liggja undir grun um slíkt. Það hlýtur þess vegna að hafa farið um þessa menn þegar sagt var frá því í fréttum í fyrradag að sérstakur hópur hefði verið skipaður til að hafa samráð. Að þessu sinni var samráðið ekki meint leynt samráð gegn neytendum heldur opinbert samráð gegn skattgreiðendum, en skattgreiðendur og neytendur eru að vísu í flestum tilfellum sami hópurinn. Í fyrradag var nefnilega greint frá því að „einka“hlutafélag í eigu ríkisins og Reykjavíkurborgar, sem stofnað var vegna umræðu um byggingu tónlistarhúss, hefði sett á fót sérstakan samráðshóp. Hann á að vera til ráðgjafar um eitt og annað sem lýtur að byggingu og búnaði þessa húss, sem enginn hefur reyndar ákveðið að skuli rísa. Þessa dagana munu standa yfir fundir með erlendum aðilum sem kynnu að reynast skattgreiðendum dýrkeyptir, þannig að rétt er að vara yfirvöld við að hætta er á ferðum og eðlilegt að gripið verði inn í samráðið áður en meiri skaði hlýst af.
Á síðustu árum hafa ákveðin öfl í þjóðfélaginu – fámenn en öflug – beitt sér mjög fyrir því að í Reykjavík verði byggt tónlistarhús sem jafnist á við það besta sem gerist meðal tugmilljónaþjóða. Minna má það ekki vera. Og það er ekki nóg með að mjög sé þrýst á um að slíkt tónlistarhús verði reist, heldur skal húsið að mati þessa þrýstihóps vera sem fínast og dýrast. Ekki dugar að byggja hús fyrir tvo til þrjá milljarða króna – sem einhverjum þætti víst nóg um – heldur verður að það að kosta tvöfalda til þrefalda þá upphæð sem hægt væri að komast af með. Það er víst algerlega nauðsynlegt að húsið rísi á þeim stað í borginni þar sem dýrast verður að byggja það og í leiðinni mun þykja nauðsynlegt að breyta öllu umhverfi þess, meðal annars til að fínir tónleikagestirnir þurfi ekki að fara yfir götu.
Ef skattgreiðendur bíða ósigur í tónlistarhússmálinu, hvað halda menn þá að bíði þeirra? Dettur einhverjum í hug að þar með hafi síðustu dúsunni verið stungið upp í síðasta þrýstihópinn? Eða jafnvel að síðustu dúsunni hafi verið stungið upp í einmitt þennan þrýstihóp? Nei, svo er heldur betur ekki. Þegar er farið að tala um að tónlistarhúsið muni ekki fullnægja óperusöngvurum og áhugamönnum um þá tónlist, þannig að fullljóst er að um leið og tónlistarhúsið rís – ef það rís – verður byrjað að undirbúa næstu byggingu á kostnað skattgreiðenda. Þrýstihóparnir fá aldrei nóg og þó að þeim takist að þreyta skattgreiðendur og knýja í gegn áhugamál sín þá bætast alltaf við ný mál. Og þegar húsin hafa einu sinni verið byggð þá sitja skattgreiðendur uppi með rekstrar- og viðhaldskostnað út í hið óendanlega. Nú þegar hafa verið byggð fleiri opinber menningarhús en hið opinbera hefur bolmagn til að reka og þurfa skattgreiðendur í Reykjavík ekki að líta lengra en til Borgarleikhússins til að sannfærast um þessa fullyrðingu. En á sama tíma og Reykjavíkurborg ræður ekki við að reka þær byggingar sem þegar hafa risið, eru þeir menn til sem telja það úrvalshugmynd að láta borgina taka þátt í að byggja nýtt og enn dýrara hús sem enn erfiðara verður að halda gangandi.